Það var sumar í dag, eða allt að því. Ég reyndar vissi lítið til þess því ég kom varla út fyrir hússins dyr, dundaði mér við að taka til í myndasafninu í tölvunni. Búin að henda út nokkur þúsund myndum og setja annað eins inn á flakkara og nóg eftir enn að fara yfir. En þeim á nú eftir að fjölga fljótt aftur. Það er óneitanlega einfaldara og ódýrara að taka myndir en hér áður fyrr og maður tekur miklu fleiri, þegar ekki þarf að hugsa um filmur og flasskubba og batterí og þarf ekki að borga fyrir framköllunina. Og ég tek vissulega mikið af myndum, kannski er ég dálítill Japani í mér eins og haldið hefur verið fram.
Það var þó ekki það eina sem ég tók mér fyrir hendur. Hingað kom nefnilega góð kona í dag og færði mér dálítið af rabarbara og eitthvað þarf að gera við hann …
Þetta er alveg slatti.
Margir nota rabarabara eingöngu í sultu, grauta og ábætisrétti en það er hægt að gera ansi margt annað við hann og það þarf sannarlega ekki allt að vera dísætt. Að vísu þarf oftast eitthvert sætuefni til að vega upp á móti allri sýrunni í rabarbaranum en það þarf ekki endilega að vera mikið og það þarf alls ekki að vera hvítur sykur. Það má til dæmis nota hunang eða hlynsíróp, ávaxtasafa eða sæta ávexti, ferska eða þurrkaða, til dæmis döðlur – fínt að láta rabarbara malla með söxuðum döðlum og búa til rabarbara- og döðlumauk. Svo er hægt að nota ýmiss konar krydd og kryddjurtir og gera chutney og sósur og margt annað og bera fram með kjöti eða feitum fiski.
Ég átti til kálfakjöt, sem mér finnst passa ágætlega með rabarbara. Kálfafillet, var þetta kallað í búðinni en þegar ég opnaði pakkann var þetta eitt fillet og þrjár lundir – eða ekki gat ég betur séð. Gerði svosem ekkert nema þetta þarf mislangan steikingartíma.
Þetta voru semsagt rúmlega 500 g af kálfakjöti, þrír langir og frekar mjóir rauðir rabarbaraleggir, hálfur rauðlaukur og einn venjulegur (ég hefði notað rauðlauk eingöngu en átti ekki meira), tvær matskeiðar af púðursykri, tvær rósmaríngreinar, ólífuolía, 250 ml af hvítvíni (má nota eplasafa eða vatn og e.t.v. smávegis sítrónusafa), pipar og salt.
Ég nota kannski óvenju mikið af víni í matargerð um þessar mundir því mér var gefið svolítið af vínafgöngum ..
Ég saxaði laukinn og rauðlaukinn, hitaði dálitla ólífuolíu (1-2 msk) á pönnu og lét laukinn og rósmarínið á hana. Lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn fór að mýkjast. (Ef þið viljið ekki hafa rósmarínnálar í réttinum má líka taka þær af greinunum og saxa smátt.)
Ég hrærði þá púðursykrinum saman við og lét krauma í nokkrar mínútur. Hrærði öðru hverju og gætti þess að þetta brynni ekki við.
Á meðan hitaði ég dálitla olíu á annarri pönnu, kryddaði kjötið með pipar og salti og setti filletið á pönnuna. Steikti það líklega í svona 12 mínútur alls (á öllum hliðum) en setti lundirnar ekki á pönnuna fyrr en eftir að ég var búin að steikja filletið á tveimur hliðum.
Ég skar svo rabarbarann niður í svona 4-5 cm bita (auðvitað má skera hann smærra ef maður kýs það frekar en mér finnst þetta mjög hentug lengd í svona rétt).
Ég hellti svo hvítvíninu á pönnuna, hækkaði hitann og hitaði að suðu.
Setti svo rabarbarann út í, lækkaði hitann aftur og lét malla við meðalhita þar til mestallur vökvinn var gufaður upp og rabarbarinn orðinn vel meyr en ekki soðnaður í sundur. Best að vera ekkert að hræra (nema rétt fyrst) til að rabarbarinn sé sem heillegastur.
Það er best að veiða rósmarínstönglana upp úr áður en þetta er borið á borð.
Ég hafði með þessu kartöflur og spergilkál, af því að það var það grænmeti sem ég átti til, en það mætti auðvitað hafa margt annað.
Rabarbarinn var alveg mátulega súr, púðursykurinn og laukurinn karamelliseruðu hann ögn án þess að sætubragðið yrði áberandi. Það mætti líka krydda hann með öðru en rósmaríni, til dæmis timjani eða engifer.
Kálfasteik með rósmarín-rabarbara
500 g kálfakjöt (fillet, lundir)
pipar
salt
olia
3-4 rauðir rabarbaraleggir
1-2 rauðlaukar (helst)
olía
2 rósmaríngreinar
pipar
salt
2 msk púðursykur
250 ml hvítvín
Þetta voru semsagt rúmlega 500 g af kálfakjöti, þrír langir og frekar mjóir rauðir rabarbaraleggir, hálfur rauðlaukur og einn venjulegur (ég hefði notað rauðlauk eingöngu en átti ekki meira), tvær matskeiðar af púðursykri, tvær rósmaríngreinar, ólífuolía, 250 ml af hvítvíni (má nota eplasafa eða vatn og e.t.v. smávegis sítrónusafa), pipar og salt.