Það var nú ennþá alveg þokkalega sumarlegt í dag þótt það eigi víst að breytast á næstu klukkutímum svo að ég eldaði mér frekar sumarlegan kvöldmat (annað kvöld verður aftur á móti ekta vetrarmatur). Ég hugsa satt að segja að ég geri meira af því að elda í takt við veðrið en klæða mig í takt við veðrið, það hefur aldrei verið mín sterka hlið …
Ég áttaði mig á því að ég hafði af einhverri ástæðu aðallega borðað fuglakjöt og grænmetisrétti í London og í Skagafirðinum var það líka fugla- og lambakjöt svo að mig var farið að langa töluvert í fisk. Svo að ég keypti tvö álitleg bleikjuflök og nokkra afskaplega bústna og rjóða tómata og ákvað að gera eitthvað úr þessu, plús því sem ég átti til heima.
Bleikja er afbragðsfiskur en ég reyni að passa mig á að hafa hana ekki of oft, ég er hrædd um að ég gæti orðið leið á henni og það vil ég ekki. Ég er ekki eins og pabbi gamli, sem ólst við að borða silung sirka sex daga í viku allt sumarið þegar hann var strákur og ungur maður. Ég spurði hann einhverntíma hvort hann hefði aldrei orðið leiður á þessu og hann sagði að það hefði komið fyrir að hann hefði fengið leið á soðnum silungi – en aldrei steiktum.
Það er dálítið margt á myndinni en þetta eru líka hráefni í þrjár uppskriftir – bleikjuna og svo tómatmaukið og kúskúsið sem ég hafði með. Bleikjan: tvö bleikjuflök, 2 msk furuhnetur, 2 msk heilar möndlur (má líka sleppa furuhnetunum og nota meira af möndlum, eða einhverjar aðrar hnetur), steinselja, basilíka, börkur af 1 sítrónu, 25 g af linu smjöri, pipar og salt. Tómatmaukið: 2-3 vel þroskaðir tómatar, 2 hvítlauksgeirar, 1 msk ólífuolía, 1/2 þurrkað rautt chili (milt, má líka sleppa), 1/2 laukur (þarf ekki að vera rauðlaukur), 3 msk hvítvín (eða vatn og ögn af sítrónusafa), pipar og salt. Kúskúsið: svona 150 g kúskús, safi úr 1 sítrónu, 2 msk ólífuolía, steinselja, basilíka, 1 lítill hvítlauksgeiri, pipar, salt.
Ég byrjaði á tómatmaukinu: Hitaði 1 msk af olíu í potti, saxaði lauk, chili og hvítlauk og lét krauma við vægan hita þar til laukurinn var farinn að mýkjast.
Svo saxaði ég tómatana frekar gróft og setti þá út í ásamt hvítvíni, pipar og salti. Lét þetta malla á meðan ég eldaði hitt (það má bæta við ögn af vatni eftir þörfum svo maukið verði ekki of þykkt eða brenni við).
Svo fór ég að undirbúa bleikjuna. Byrjaði á að kveikja á grillinu í ofninum og stilla á hæsta hita. Svo setti ég furuhnetur, möndlur og helminginn af basilíkunni og steinseljunni í matvinnsluvél og notaði púlshnappinn til að grófmala þetta saman.
Svo setti ég þetta í skál, reif börkinn af sítrónunni yfir og hrærði linu smjörinu saman við.
Ég setti ögn af olíu á plötu, kryddaði bleikjuflökin á báðum hliðum með pipar og salti og lagði þau á plötuna með roðið niður. Svo dreifði ég hnetu- og kryddjurtablöndunni yfir og stakk plötunni í ofninn í 5 mínútur. Gerði reyndar smámistök og setti hana fyrst á efstu rim í stað næstefstu og þegar ég áttaði mig og færði hana voru kryddjurtirnr aðeins byrjaðar að brenna …
Ég var búin að hita vatn og um leið og bleikjan fór í ofninn setti ég kúskúsið í skál, hellti sjóðandi vatni yfir, lagði disk yfir skálina og lét standa í nokkrar mínútur. Saxaði afganginn af kryddjurtunum og hvítlauknum og eftir nokkrar mínútur hrærði ég upp í kúskúsinu með gaffli, hellti olíu út í, kreisti safann úr sítrónunni yfir og blandaði svo kryddjurtum, hvítlauk, pipar og salti saman við.
Bleikjan var tilbúin eftir 5 mínútur og ég færði flökin yfir á fat með pönnukökuspaða og setti tómatmauk og kúskús í skálar.
Ekki slæmt. Bara alls ekki. Bleikjan var safarík og góð og hnetuþekjan, kúskúsið og tómatarnir passaði allt mjög vel saman.
Neinei, eftir á að hyggja var þetta nú ekkert brunnið að ráði … En það á semsagt að vera næstefsta rim. Ekki efsta.
Ofngrilluð bleikja með hnetu-kryddjurtaþekju
2 bleikjuflök
2 msk möndlur
2 msk furuhnetur (eða meiri möndlur)
lófafylli af steinselju
lófafylli af basilíku (eða aðrar kryddjurtir eftir smekk)
börkur af 1 sítrónu
25 g smjör, lint
pipar og salt
Tómatmauk
2-3 vel þroskaðir tómatar
1 msk ólífuolía
1/2 lítill laukur
2 hvítlauksgeirar
1/2 þurrkað, milt chilialdin (má sleppa)
3 msk hvítvín
pipar og salt
Kúskús með kryddjurtum
150 g kúskús
sjóðandi vatn skv. leiðbeiningum á umbúðum
safi úr 1 sítrónu
2 msk ólífuolía
1 lítill hvítlauksgeiri
lófafylli af steinselju
lófafylli af basilíku (má sleppa)
pipar og salt
Well, that was an exceptionally worthwhile few minutes I spent reading through your blog, warm regards.