Rígvænt læri á grillið

Ég var semsagt í sumarbústað um helgina og sá um matseldina á meðan hinir voru rosa duglegir. Það er ekki minn stíll, ég vil frekar gera eitthvað skemmtilegt.

Á laugardagskvöldið var grillað lambalæri eins og næstum því tilheyrir þegar fjöldi manns kemur saman í sumarbústað um helgi að sumri til og veðrið spillti ekki fyrir. Ég hef að vísu ákveðnar grunsemdir á hitamælunum í bústað systkina minna því þeir virðast alltaf sýna 18 stiga hita, hvernig sem virðrar annars staðar á landinu, en í þetta skipti sannreyndi ég að þeir sýndu – ja, ekki átján gráður, heldur nítján og hálfa, báðir tveir. Það er ekki að spyrja að veðurblíðunni í Blönduhlíðinni. Svona oftast nær. Ég er ekki alveg viss um að það hafi verið svona þegar ég var að alast þar upp en man þó eftir ótrúlega mörgum sólardögum.

En allavega, á meðan systkini mín, mágar og mágkona stóðu sveitt með penslana upp í tröppum eða bogruðu við þröskulda og kepptust við að ljúka verkinu fór ég að undirbúa lærið, sem hafði verið tekið úr kæli upp úr hádegi. Þetta var vænsta læri, 3,3 kíló minnir mig, enda vorum við tíu í mat. – Sjálfsagt væri þetta ekki nóg kjöt fyrir suma en mín reynsla er nú sú að fólki hættir oft til að ofáætla hvað þarf af kjöti – ég kom að undirbúningi ættarmóts í fyrra þar sem einn frændi minn taldi að meðallæri dygði fyrir þrjá; ég sagði þeim að kaupa læri fyrir hverja 6-7 gesti en einhverjum fannst það of lítið og bætti þremur lærum við heildarmagnið. Þegar upp var staðið voru einmitt þrjú heil læri óskorin eftir.

Ég byrjaði á að skera mjaðmabeinið úr lærinu, mér finnst bæði að það steikist þá jafnar og svo er mun auðveldara að skera kjötið. Það er engin mynd af því, ég er enginn sérstakur úrbeiningasnillingur og var bara með   bitlítinn smáhníf svo þetta var ekki sýningarhæft. En ég skar bara meðfram beininu eftir bestu getu, þar til kom að liðamótum, og reyndi að skilja sem minnst kjöt eftir á beininu. Svo sleit ég mjaðmabeinið frá og geymdi til að nota í soð.

IMG_4837

Ég athugaði hvað var að finna í kryddskápnum, blandaði saman Lamb Islandia frá Pottagöldrum, (svona 1 1/2 matskeið), 2 tsk af timjani, pipar og salti og kryddaði lærið vel með blöndunni. Lét það liggja á meðan ég hitaði grillið vel og hafði það lokað á meðan.

IMG_4846

Ég slökkti svo á brennaranum í miðið (þeir eru þrír), setti lærið þar á og lokaði grillinu. Lækkaði hitann á hinum brennurunum dálítið. Hitamælirinn sýndi minnir mig hátt í 300°C þegar ég slökkti en lækkaði fljótt í 200°C. Ég ætlaði að halda honum í 180°-200°C allan tímann (auðvelt að hafa stjórn á hitanum því vindkæling var lítil) en það tókst ekki alveg eins og segir frá bráðum …

IMG_4849

… en ég fór inn, hitaði ofninn í 200°C, skar 10 stórar bökunarkartöflur í bita og setti þær í stórt, eldfast mót, blandaði olíu, kartöflukryddi, timjani, pipar og salti saman í skál, hellti yfir, hrærði og setti kartöflurnar svo í ofninn. Steikti þær í svona 40 mínútur, hækkaði þá hitann og steikti í 10-15 mínútur í viðbót.

Ég setti líka beinið í pott með köldu vatni, kryddaði með pipar og salti, hitaði að suðu, fleytti froðu ofan af og lét malla í un 45 mínútur í opnum potti. Hefði auðvitað mátt vera lengur.

IMG_4854

Ég leit á lærið eftir svona 20 mínútur, það var þegar farið að taka lit og leit vel út. En nokkru seinna, þegar ég leit á hitamælinn á lokuðu grillinu, sá ég að hann var kominn óeðlilega langt niður og loginn á brennurunum var orðinn mjög lítill. Gasið var að klárast en til allrar hamingju var varakútur til og þegar búið var að skipta hækkaði ég hitann þar til 200°C var náð og grillaði lærið áfram þar til rétt rúmur klukkutími var liðinn frá því að það fór á grillið … Var ekkert að fylgjast sérstaklega með því, vissi að það mundi passa sig sjálft. Og nei, það þarf ekki að snúa því eða neitt.

IMG_4865

… eða þar til hitamælir sem ég stakk í lærvöðvann þar sem hann var þykkastur sýndi 65°C. Hefði kannski látið heldur lægri hita duga en pabbi gamli var í mat …

IMG_4867

Þá slökkti ég á brennurunum en lét lærið standa áfram á lokuðu grillinu í 10-15 mínútur (ef hefði verið kalt í veðri eða hvasst hefði ég farið með það inn og látið það standa þar). Kjarnahitinn hækkar um nokkrar gráður á steikingartímanum.

IMG_4863

Ég hafði tekið beinið upp úr soðpottinum eftir 45 mínútur, smakkaði svo soðið, bætti við dálitlum kjötkrafti, setti svo lófafylli af þurrkuðum sveppum (ég átti ítalska kóngssveppi) út í og lét sjóða smástund. Bætti svo 250 ml af rjóma út í og lét malla í svona 10 mínútur. Bragðbætti sósuna með pipar og salti og þykkti hana með sósujafnara. Jú, og svo notaði ég nú sósulit.

IMG_4872

Þetta var nú alveg hreint hið girnilegasta læri. Og auðvelt að skera það fyrst ég hafði fyrir því að taka mjaðmabeinið …

IMG_4878

Með kartöflunum og sósunni, soðnu spergilkáli og salati (já, vitlaus fókus, ég veit). Ósköp gott bara.

Og dugði lærið okkur? – ójá, og það var afgangur í biximat í sunnudagshádeginu.

2 comments

  1. Mér finnst einmitt ekkert kjöt jafngott í bixímat og afgangur af lambalæri. Ég held næstum að krökkunum þyki bixímaturinn úr afgöngunum betri en sjálf sunnudagssteikin 🙂 Á mínu grilli eru tveir brennarar og það er ekki það stórt að mér finnst ekki nóg að slökkva á öðrum brennararnum til að lærið fái ekki á sig beinan hita. Þannig að ég set það á grillbakka eða hef tvöfalt lag af sterkum álpappír undir. Það dugar alveg, finnst ér. Og nei, ég sný því heldur ekkert.

    • Já, það er upplagt ef brennararnir eru ekki kraftmiklir. Bara ekki pakka lærinu inn í álpappír. – Biximaturinn var ansi góður og svo steikti ég ommelettu kryddaða með basilíku og hafði með.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s