Ég eldaði ekkert í síðustu viku, var í London með barnabörnunum og þar fengum við misgóðan mat eins og gengur – en dóttursonurinn fékk draum sinn uppfylltan rétt áður en við héldum heim og fékk að fara á Burger King, smekkur manna er jú misjafn – þannig að ég var komin með hálfgerð fráhvarfseinkenni og var ósköp ánægð að komast í eldhúsið mitt í gær. Yfirgaf það raunar fljótt aftur því nú er ég komin í Skagafjörð í sumarbústað systkina minna. Þau eru að bera á timbur og framkvæma allskonar hluti sem maður þarf að framkvæma þegar maður er sumarbústaðaeigandi. Sem er ein af mörgum ástæðum til þess að ég er ekki sumarbústaðaeigandi með þeim því ég nenni ekki svoleiðis.
Aðalástæðan er samt að ég er ekki sumarbústaðatýpan. Allt í lagi að vera í bústað eina og eina helgi en langdvalir í bústöðum heilla mig ekkert sérstaklega. Aftur á móti finnst mér ágætt að vera með systkinum mínum og þeirra fólki – þetta eru bestu skinn – og þess vegna fæ ég stöku sinnum að fljóta með norður um helgi. Og tek þá gjarna að mér eldamennskuna, nema hvað. Og á svona vinnuhelgi sé ég um að hafa til mat og kaffi fyrir vinnandi fólk. Sem er skemmtilegt.
Það er minnsta mál í heimi að baka brauð í sumarbústað og ég bakaði brauð í morgun – eða ég útbjó reyndar deigið áður en við fórum að sofa í gærkvöldi: slatti af vatni, sirka matskeið af þurrgeri, slatti af hveiti (ég giska á svona 1300-1400 g) og sirka matskeið af salti. Velgdi vatnið, stráði gerinu yfir, lét aðein freyða og hrærði hveiti (ásamt salti) saman við smátt og smátt þar til deigið var þykkt en þó fremur lint – ekki hnoðunarhæft en þó þannig að það mátti taka á því með höndum sem dýft var í hveiti. Ég breiddi svo viskastykki yfir skálina og lét hana standa á eldhúsbekknum til morguns.
Í morgun skipti ég deiginu svo í tvennt, dýfði höndunum vel í hveiti og mótaði það í tvö (ekki alveg reglulega löguð) brauð sem ég setti á pappírsklædda bökunarplötu og lét lyfta sér í svona hálftíma. Hitaði ofninn í 225°C, setti sjóðandi vatn í lítið, eldfast mót sem ég hafði á ofnbotninum og bakaði brauðin neðst í ofni í 35-40 mínútur, eða þar til þau höfðu tekið góðan lit og fengið stökka skorpu (vatnið í mótinu er til að fá gufu í ofninn, sem gefur skorpuna, ef fólk vill lina skorpu má auðvitað sleppa því).
Ég lét brauðin svo kólna á grind, þau þurfa helst að kólna allavega 20-30 mínútur áður en þau eru skorin.
Á meðan brauðin biðu útbjó ég salat sem ég hafði raunar gert að mestu heima daginn áður – eða það er að segja, ég hafði steikt kalkúnabringurnar sem í því voru.
Ég var með tvær kalkúnalundir (NB mér finnst kalkúnalundir asnalegt heiti, alveg eins og kjúklingalundir, en so what), um 300 g hvora. Svo notaði ég eina sítrónu, 2 msk af mangóchutney, 1 tsk kummin, 1 tsk þurrkað timjan, ögn af cayennepipar, 2 msk af ólífuolíu, nýmalaðan svartan pipar og salt.
Það má alveg nota kjúklingabringur í þetta líka en betra að þær séu nokkuð stórar.
Ég blandaði olíu, mangóchutneyi og kryddi saman í eldföstu móti, reif börkinn af sítrónunni yfir og kreisti safann úr svona hálfri sítrónu út í og hrærði allt saman.
Velti svo kalkúnalundunum upp úr blöndunni og lét þær liggja á meðan ég hitaði ofninn í 200°C.
Svo setti ég þær í ofninn og steikti þær í svona 25 mínútur. Hækkaði reyndar hitann seinustu mínúturnar til að fá betri lit á bringurnar.
Það er auðvitað vel hægt (og alveg ljómandi gott) að bera kalkúnann bara fram heitan og gera þá t.d. sósu úr safanum/maríneringunni í mótinu (þá væri gott að hella dálitlu vatni í mótið þegar fer að líða á steikingartímann sv0 ekki brenni við). En þar sem ég ætlaði að nota hann í salat daginn eftir lét ég hann kólna alveg og geymdi svo í kæli.
Ég skar bringurnar á ská í frekar þunnar sneiðar.
Það er auðvitað hægt að nota ýmislegt í salatið en mér finnst mjög gott að hafa einhverja ávexti með. Ég átti vel þroskað og gott mangó sem ég flysjaði og saxaði smátt og svo hafði ég rekist á þessar sérkennilegu flötu ferskjur og keypt til að prófa. Þær eru ekki sérlega sætar eða mjúkar og mér fannst lítið varið í þær einar og sér en þær voru hins vegar ágætar í salat. Ég skar þær í tvennt, losaði um steinana og skar svo helmingana í mjóa báta.
Svo þarf bara einhverja góða salatblaðablöndu – ég notaði Gullfoss – og svolitla salatsósu úr ögn af olíu og sítrónusafa, salti og pipar og ég notaði líka safann sem runnið hafði úr mangóinu þegar ég var að skera það niður. Og mangóið og flötu ferskjurnar. Nokkur steinseljublöð fyrst ég átti þau. Það er annaðhvort hægt að skammta þetta á diska …
… eða hrúga öllu á fat eða í skál.
Alls ekki slæmt.
Kalkúnasalat með mangói og ferskjum
600 g kalkúnalundir eða -bringur (eða kjúklingabringur)
1 sítróna
2 msk mangóchutney
2 msk ólífuolía
1 tsk kummin
1 tsk timjan
cayennepipar á hnífsoddi
nýmalaður svartur pipar
salt
100 g salatblanda
1 mangó, vel þroskað (eða tvö)
2-3 ferskjur
2 msk bragðmild olía
safi úr 1/2 sítrónu
e.t.v. mangósafi
pipar og salt