Það var náttúrlega heilmikill afgangur af kálfakjötinu í gær, ég hafði keypt meira en ella vegna þess að ég hafði eiginlega ætlað að hafa það í matinn handa mér og syninum á laugardagskvöld. Svo varð úr að við gerðum annað og á sunnudagskvöldið var hann ekki lengur grasekkill svo að ég var ein í mat. Ef ég væri að vinna hefði ég líklega bara tekið afganginn með mér og borðað hann í hádeginu en ég er semsagt í sumarfríi. Svo að ég ákvað að hafa kálfakjötsafganginn í kvöldmatinn og gera eitthvað allt annað úr honum.
Ég ákvað að notast bara við það sem ég átti til, ekki síst vegna þess að ég er að fara á ráðstefnu í Oxford eftir nokkra daga og er að reyna að klára sem mest af forgengilegum hlutum úr ísskápnum áður. Svo að ég skoðaði í skápana, fann meðal annars sveppi, bökunarkartöflur og rjóma, svo að ég ákvað að gera einhvers konar smalaböku.
Eða reyndar ekki, strangt til tekið er smalabaka (shepherd’s pie) bara heiti á réttinum ef er lambakjöt í honum. Sambærilegur réttur með nautakjöti eða öðru er þá kallaður cottage pie, sem mætti þýða sem kofaböku eða kotaböku. Allt er þetta samt svipað, kjöt og grænmeti í sósu sem bakað er í eldföstu móti undir þekju úr stöppuðum kartöflum. Upplagt fyrir ýmiss konar afganga. Kannski ekki mjög sumarlegur matur samt, en það var búið að spá öðruvísi veðri en var svo í dag hér á suðvesturhorninu.
Ég byrjaði á að flysja tvær vænar bökunarkartöflur, skera þær í fremur litla bita og setja upp til suðu í saltvatni. Svo tíndi ég til það sem þurfti að skera niður í fyllinguna.
Þarna er kálfakjötið – líklega svona 350 grömm, og auðvitað hefði ég getað notað afganga af hvaða kjöti sem var en mér finnst reyndar lamba-, nauta- eða kálfakjöt henta best. Einn laukur, 250 g sveppir, smávegis af kartöflum (bara til að þær yrðu ekki ónýtar, en það er best að nota ekki mikið af kartöflum því þær koma svo ofan á – og auðvitað má nota ýmiss konar grænmetisafganga). Rósmaríngrein og vænn skammtur af basilíku (já, ég á nóg af kryddjurtum þessa dagana, en það má auðvitað líka nota þurrkaðar kryddjurtir, timjan væri til dæmis ágætt).
Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C. Svo hitaði ég svolitla olíu á pönnu og lét saxaðan laukinn krauma í henni við meðalhita í nokkrar mínútur. Þá setti ég sveppina út í ásamt söxuðu rósmaríni, pipar og salti, lét krauma áfram við góðan hita og hrærði oft.
Þegar sveppirnir voru farnir að taka lit setti ég kjötið út í og lét aðeins krauma …
… og svo setti ég basilíkuna út í og hellti 250 ml af rjóma yfir. Hitaði að suðu og lét sjóða rösklega nokkra stund.
Kartöflurnar voru orðnar vel meyrar og ég hellti af þeim vatninu, stappaði þær með svona 50 g af smjöri og hrærði svolítilli mjólk saman við. Ekki of mikilli, stappan á að vera þykk. Svo kryddaði ég með salti og nokkuð miklum pipar.
Ef sósan er enn lapþunn eftir nokkurra mínúnta suðu má þykkja hana dálítið með svolitlum sósujafnara eða hveitihristingi.
Ég setti svo fyllinguna í eldfast mót og dreifði kartöflustöppunni yfir. Það er best að setja hana í smáskömmtum með skeið eða sleikju, fremur en að setja hana alla í einu og dreifa svo úr henni.
Svo smurði ég henni gætilega jafnt yfir fyllinguna. Ég dró gaffal yfir stöppuna til að fá mynstur. Það er ekki nauðsynlegt en yfirborðið tekur betur lit ef það er ójafnt.
Ég setti hana svo í miðjan ofninn og bakaði í 10 mínútur. Kveikti þá á grillinu á mesta hita og hafði hana aðeins lengur til að brúna stöppuna betur.
Þetta var nú alveg ljómandi gott en hefði kannski átt enn betur við á köldum degi eins og búið var að spá í dag.
En nú er bara spurningin, hvað á ég að gera við afganginn af afganginum?
Kálfakjöts-kotabaka
300-400 g kálfakjöt (eða annar kjötafgangur)
e.t.v. grænmetisafgangar
250 g sveppir
1 laukur
1-2 msk olía
1 rósmaríngrein
slatti af basilíku (eða aðrar kryddjurtir eftir smekk, ferskar eða þurrkaðar)
pipar
salt
250 ml rjómi
2 vænar bökunarkartöflur
50 g smjör
mjólkurskvetta
pipar
salt
[…] í formið, leggja deig yfir og baka (eða setja eitthvað annað ofan á, samanber smalaböku eða kotabökuna sem ég var með uppskrift að í gær). Ef deig eða annað er mulið eða stráð yfir kallast […]