Forsætisráðuneytið hefur ekkert um þetta að segja allavega …

Ég ætlaði nú hálfpartinn að vera með eitthvað þjóðlegt af því að sautjándi júní er að nálgast en þá verð ég ekki á landinu. En svo legg ég ekki í það samt því ég sé að Framsóknarflokkurinn er búinn að taka yfir stjórn á þjóðlegri matargerð og bakstri; ég veit ekki alveg hvaða stefnu Sigmundur Davíð ætlar að taka í pönnukökubakstri og svoleiðis. Ég ætla allavega að bíða þar til málið skýrist.

Í staðinn kemur hér uppskrift að mjög óíslenskum mat, eiginlega alveg hinumegin af hnettinum því þetta er kínverskt – svona meira og minna, veit ekki hvort Kínverjar mundu alveg kannast við það.

Svínasíður hafa verið voðamikið í tísku síðustu árin, stundum finnst mér til dæmis að það sé varla nokkurt veitingahús af skárri sortinni  í Bretlandi sem ekki er með svínasíðu á matseðlinum. En ég man að fyrir allnokkrum árum þegar ég borðaði svínasíðu á Ottolenghi var það óvenjulegt, svínasíða var eitthvað sem maður fékk helst heima hjá sér. Kannski byrjaði tískan þar, ég veit það ekki.

Svínasíðu má auðvitað elda heila með pöru – og ég hef nú verið með uppskrift að því oftar en einu sinni – en ég er nú ekki að meina slíkar kræsingar, heldur síðu án pöru, annaðhvort heila eða í sneiðum. Og það voru einmitt sneiðarnar sem ég eldaði. Átti leið framhjá kjötborði á dögunum og kippti með mér þremur álitlegum svínasíðusneiðum, svona 1 1/2 cm þykkum, kjötmiklum en þó með góðum fitulögum. Því fita verður að vera, það væri nú léleg svínasíða sem væri fitulaus. Fitan bráðnar inn í kjötið og heldur því röku og mjúku og meyru og svo er hún sjálf góð (nema maður sé haldinn fitufordómum) – ég veit ekki alveg hvaða orð er best til að lýsa henni. Á ensku freistast margir til að nota lýsingarorðið unctuous en mér finnst það ekki alveg passa eins og hér er bent á

Ég ákvað að gera nokkurs konar char siu – ja, eða mína útgáfu. Char siu er kínverskt (kantónskt) heiti á grilluðu eða steiktu svínakjöti sem er marínerað í hoisinsósu, fimm krydda blöndu, sojasósu, hrísgrjónavíni, gerjuðu rauðu baunamauki (sem ég átti ekki til) og hunangi (sem ég notaði ekki í maríneringuna en aftur á móti í sósuna). Svo bætti ég við bragðefnum sem eru ekkert endilega hefðbundin í char siu en eru mikið notuð í kínverskri matargerð.

Char þýðir eftir því sem ég best veit gaffall eða teinn og siu steikt eða brennt (lesendur sem kunna kínversku mega gjarna leiðrétta) svo að líklega þýðir þetta (grill)steik á gaffli/teini.

IMG_4411

Þetta voru semsagt þrjár sneiðar af svínasíðu, líklega um 500 grömm, 2 hvítlauksgeirar, vænn biti af engifer (svona 1 1/2 matskeið þegar ég var búin að saxa hann), 1 tsk fimm krydda blanda (sem er kanell, negull, stjörnuanís, fennelfræ og sichuanpipar), cayennepipar á hnífsoddi (eða tveimur),  125 ml hoisinsósa, 1 1/2 msk mirin (hrisgrjónavín) og 1 1/2 msk sojasósa.

IMG_4412

Ég setti hoisinsósu, sojasósu, mirin og krydd í skál og saxaði engifer og hvítlauk frekar smátt og blandaði saman við.

IMG_4418

Ég setti kjötið út í, velti sneiðunum upp úr maríneringunni og lét liggja í nokkra klukkutíma; sneri þeim tvisvar eða þrisvar á meðan.

IMG_4426

Ég hitaði svo ofninn í 200°C (hefði líka getað hitað hann í 160°C og haft þá kjötið mun lengur). Tók eldfast mót, setti grind í það og lagði kjötið á hana. Svo hitaði ég vatn að suðu og hellti því í formið – það þarf að vera 1/2-1 cm djúpt en má auðvitað ekki snerta kjötið. Setti það svo í ofninn og lét það eiga sig í svona 40 mínútur. Ef hitinn er lægri má kjötið vel vera í einn til einn og hálfan tíma.

IMG_4432

Á meðan skóf ég maríneringuna í lítinn skaftpott, bætti við dálitlu vatni, hitaði að suðu og lét malla nokkra stund. Bætti svo við 2 msk af hunangi (meira ef maður vill vel sæta sósu) og lét sjóða aðeins lengur, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.

IMG_4433

Ég tók svo kjötið út og lét það standa í nokkrar mínútur. IMG_4438 - Version 2

Ef þið viljið meiri sósu má alveg hella einhverju af soðinu úr eldfasta mótinu út í sósupottinn, bæta e.t.v. við einhverju kryddi og hunangi og þykkja kannski með ögn af sósujafnara eða maísmjöli hrærðu út í köldu vatni.

 IMG_4468
Ég setti svo svínasíðusneiðarnar á fat ásamt hrísgrjónum sem ég var búin að sjóða og salatblöðum og bar fram með sósunni.
IMG_4483
Ekki mjög þjóðlegt, ég veit …
.
Char siu svínasíða
5-600 g svínasíðusneiðar
125 ml hoisinsósa
1 1/2 msk sojasósa
1 1/2 msk hrísgrjónavín
1 1/2 msk saxaður engifer
2 hvítlauksgeirar
1 tsk kínversk fimm krydda blanda (Chinese 5-spice)
cayennepipar eftir smekk
2 msk hunang, eða eftir smekk

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s