Massaður búðingur

Ég held ég hafi ekki verið með margar uppskriftir að eftirréttum hér, enda geri ég ekki mikið af svoleiðis þegar ég er ein og elda bara fyrir mig – ef mig langar í eitthvað sætt, sem vissulega kemur fyrir, geri ég frekar köku eða böku, fæ mér eina sneið eða svo og fer svo með afganginn í vinnuna morguninn eftir.

Eiginlega eftirrétti geri ég frekar þegar eru gestir og þá er ég ekki alltaf mikið að taka myndir og skrifa niður. Mér finnst gaman að taka myndir af mat – eiginlega finnst mér flest sem tengist mat frekar skemmtilegt – en þegar ég er ein og enginn annar bíður eftir matnum get ég gefið mér betri tíma í myndatökur og svoleiðis rugl. Og ég get alveg eldað og borið fram mat án þess að taka mynd af honum, hvort sem þið trúið því eða ekki.

En nýlega gerði ég samt súkkulaðibúðing og gaf mér tíma til að taka myndir, enda var þetta engin skyndihugdetta – þennan búðing er langbest að gera daginn áður en á að borða hann því hann þarf langan tíma í kæli til að stífna almennilega. Það má reyndar alveg borða hann eftir tvo til þrjá klukkutíma en hann er þó full-linur og verður mun betri ef hann fær hálfan til einn sólarhring. Finnst mér.

Já, og þetta er súkkulaðibúðingur, ekki súkkulaðimús. Reyndar tala ég aldrei um súkkulaðimús en ef ég gerði það væri þetta samt ekki mús – mousse felur í sér eitthvað létt, þessi búðingur er ekki léttur. Alls ekki. Þetta er ekki stór skammtur en ætti að duga vel fyrir fjóra, hann er svo massívur.

IMG_4360

 

Ég byrjaði á að setja tvær eggjarauður í skál (hvítunar voru ekki notaðar í búðinginn, fóru í annað), bætti við tveimur matskeiðum af sykri og þeytti …

IMG_4362

 

… og þeytti vel og lengi, þar til blandan var ljós og létt. Þá þeytti ég hálfri teskeið af vanilluessens saman við.

IMG_4364

Á meðan ég þeytti rauðurnar hafði ég brætt 100 g af suðusúkkulaði við vægan hita í vatnsbaði (þetta er tvöfaldur pottur, mikið þarfaþing en eins og ég held ég hafi áður nefnt er hann fyrir örvhenta, sem ég er ekki; ef einhver örvhentur á svona pott fyrir rétthenta og vill skipta væri ég til) – en allavega, um leið og súkkulaðið var bráðið tók ég pottinn af hitanum, setti 80 g af mascarponeosti út í og hrærði gætilega með sleikju þar til osturinn var alveg samlagaður súkkulaðinu.

IMG_4365

 

Ég hellti svo súkkulaði-mascarponeblöndunni saman við eggjarauðurnar. Ef ég hefði viljað léttari búðing hefði ég blandað þessu saman með sleikju og stífþeytt svo eggjahvíturnar og blandað þeim gætilega saman við.

IMG_4368

 

En ég vildi massíft og þétt súkkulaði svo ég sleppti hvítunum og hrærði þetta bara saman með þeytaranum. Svo skipti ég búðingsblöndunni jafnt á fjögur glös (eða skálar eða ábætisdiska af einhverju tagi – og svo er líka hægt að setja allt í eina skál), breiddi plastfilmu yfir hvert þeirra, setti í ísskápinn og lét standa til næsta dags.

IMG_4396

 

Það er hægt að borða búðinginn eintóman, kannski með rjómadoppu ofan á, en mér finnst bæði fallegra og betra að setja t.d. ávexti ofan á – hér er ég með nokkrar ræmur af þurrkaðri (en mjúkri) apríkósu en það mætti líka nota ýmis fersk ber, appelsínu- eða mandarínubita eða annað sem á vel við súkkulaði (og hvað á annars ekki vel við súkkulaði?). Eða eitthvert súkkulaðiskraut.

Jömmí.

 

Súkkulaðibúðingur með mascarpone

2 eggjarauður

2 msk sykur

1/2 tsk vanilluessens

100 g súkkulaði (ég notaði nú bara Síríus suðusúkkulaði)

80 g mascarponeostur

fáeinar þurrkaðar apríkósur, eða annað eftir smekk

3 comments

  1. Girnilegt! Hvar kaupirðu Mascarpone? Og er hann dýr?

    Mætti nota annað í staðinn?

    • Sko, þetta var nú bara íslenskur mascarpone sem fæst út um allt og er ekki sérlega dýr. Stundum hefur mátt fá ítalskan mascarpone sem er töluvert betri en það ætti ekki að skipta miklu í svona búðingi því súkkulaðið yfirgnæfir altl bragð af ostinum – ég notaði hann fyrst og fremst upp á áferðina.

      Það má örugglega nota rjómaost en þá er gott að taka hann úr ísskáp nokkru áður en hann er notaður til að láta hann mýkjast áður en honum er hrært saman við súkkulaðið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s