Önd og rabarbari úr frystinum

Ég er að reyna að grynnka á birgðunum í frystiskápnum, það gengur nú ekkert voðalega vel reyndar – en þegar sonurinn hringdi um hádegi á sunnudaginn og spurði hvort hann og tengdadóttirin mættu koma í mat var rigning og ég nennti ekki út í búð svo ég ákvað að gá í frystinn. Og þar fann ég meðal annars andalæri (tvo pakka, tvö væn læri í hvorum) og rabarbarabita. Svo að ég ákvað að gera eitthvað úr þessu.

Það á afskaplega vel við önd að hafa eitthvað sætt og súrt með og þá er rabarbari tilvalinn – hann er súr og maður eldar hann því yfirleitt alltaf með sykri eða einhverju sætu. Sonurinn er að vísu ekki sérlega hrifinn af sætu meðlæti en mér fannst ekki ólíklegt að ég gæti komið rabarbarachutneyi ofan í hann, svona til mótvægis við öndina.

Ef ég hefði átt heila rabarbaraleggi hefði ég mögulega bakað þá með hrásykri, rúsínum og einhverju kryddi og borið fram með öndinni – en þetta voru alltsvo bitar.

Ég tók alltsvo andalærin úr frysti og af því að fyrirvarinn var ekki lengri lét ég pakkana í skál með hálfköldu vatni til að flýta fyrir að þeir þiðnuðu. Það dugði til, lærin höfðu þiðnað nægilega um hálfsex þegar ég byrjaði að elda. En þetta er ákaflega einföld eldamennska.

IMG_4300

Fjögur andalæri með legg semsagt, allar kartöflur sem fundust á heimilinu (tvær tegundir, átta eða níu stykki), þrír hvítlauksgeirar, tvær rósmaríngreinar, pipar og salt. Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C.

IMG_4305

Svo tók ég eldfast mót, sæmilega stórt. Skar rósmarínið í búta og dreifði þeim í mótið og flysjaði og hálfkramdi hvítlauksgeirana með flötu hnífsblaði og dreifði þeim líka í mótíð.

IMG_4310

Ég kryddaði lærin vel með pipar og salti á öllum hliðum, raðaði þeim í mótið með haminn upp, bætti við aðeins meira salti (það er til að fá haminn stökkari) og skar svo kartöflurnar í tvennt (fernt þessar stærstu) og dreifði þeim í kring. Svo setti ég formið í ofninn og steikti lærin við 200°C í svona klukkutíma.

IMG_4318

Tók formið út einu sinni eða tvisvar, jós feiti úr fatinu yfir lærin og sneri kartöflunum eitthvað en annars þarf ekkert að hugsa um þetta. Það er voða lítil hætta á að maður ofsteiki andalæri, öfugt við bringurnar. Eftir klukkutíma hækkaði ég hitann í 225°C og steikti í svona tíu míútur í viðbót til að fá meiri lit á lærin og tók þau svo út, hellti nær öllu soðinu og fitunni úr fatinu í skál, breiddi álpappír yfir fatið og lét standa nokkra stund.

IMG_4313

Á meðan öndin var í ofninum setti ég rabarbarann (hálfþiðnaðan) í pott – þetta voru svona 350 g – , saxaði ögn af engifer (svona teskeið), kreisti safa úr einni (safaríkri) appelsínu yfir og hitaði rólega. Best að hræra sem minnst, allavega þegar notaður er frosinn rabarbari.

IMG_4317

Ég kryddaði svo með salti, pipar og svona hálfri teskeið af kínverskri fimm krydda blöndu (Chinese 5-spice). Ef hún fæst ekki má nota ýmislegt annað. Kryddin fimm í blöndunni eru kanell, negull, stjörnuanís, fennelfræ og sichuanpipar; þau eru misalgeng í kryddhillum fólks en þá er að nota bara það sem maður hefur, jafnvel bara kanel og negul en það væri þó gott að hafa eitthvert anísbragð, sem fæst annaðhvort úr stjörnuanís eða fennelfræjum, nema hvorttvegja sé. Sichuanpipar er hins vegar vandfengari og það má bara sleppa honum. Eða nota eitthvað allt annað.

Ég lét þetta svo malla við mjög vægan hita í 10-15 mínútur, helst án þess að hræra.

IMG_4334

Þá smakkaði ég, blandaði svona 2 msk af hlynsírópi gætilega saman við (magnið fer bara eftir hvað maður vill hafa þetta sætt), lét malla aðeins lengur og hellti svo í skál.

Ég fleytti mestallri fitunni ofan af andasoðinu, setti það í pott, bætti við dálitlu vatni og andakrafti (má vera kjúklingakraftur), þykkti soðið og lét sósuna malla nokkra stund.

IMG_4341

Öndin og kartöflurnar voru akkúrat tilbúin þegar gestirnir komu.

IMG_4347

Andalæri með krispí kartöflum, sósu og rabarbarachutneyi.

IMG_4352

Þetta þótti syninum góður matur. Og okkur öllum. Það var allavega ekki mikill afgangur …

5 comments

    • Ég efast um að það kæmi nógu vel út, læri af villigæs hafa ekki fituna sem er á andalærunum og hætt við að þau yrðu þurr og seig. Betra að brúna þau, setja í eldfast fat ásamt einhverjum vökva (soði, rauðvíni eða bara vatni, ásamt einhverju grænmeti og kryddjurtum, gott að hafa gulrætur og tómata, kannski smávegis beikon), vökvinn ætti að ná kannski upp á mið lærin, setja þétt lok eða álpappír yfir og láta malla við 150-160°C í tvo-þrjá tíma eða meira, þar til kjötið nánast rennur af beinunum.

      En rabarbarasósan ætti að passa við gæsina líka.

  1. Steikirðu lærin ekki upp úr neinum vökva? Hvorki vatni né olíu eða smjöri?

    • Nei. Það er svo mikil fita á þeim að það er algjör óþarfi, þau sjá algjörlega um að smyrja sig sjálf. Ég eys kannski yfir þau fitunni og soðinu úr forminu einu sinni eða tvisvar á steikingartímanum en er þá reyndar meira að ausa yfir kartöflurnar en öndina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s