Letinginn Nanna

Ég er ekkert i garðyrkju, á ekki garð (eða jú, það er svosem garður hér á bakvið húsið en hann er ógirtur og þar er ekkert ræktað) og er hvorki með græna fingur né neitt sérlega mikið fyrir moldarvinnu. Eða eiginlega bara ekki neitt. Var það ekki þegar ég var yngri og enn síður núna þegar ég er orðin roskin og stirð í hnjánum. Ég veit að mörgum finnst alveg frábært að elda og borða eitthvað sem þeir hafa ræktað sjálfir með natni og alúð, sáð og fylgst með vaxa og tínt af pöddur og snigla og hlúð að og vökvað og reytt arfa og dúllað við og þetta bragðast örugglega betur en allur annar jarðargróður og maður fær ánægjuna og gleðina í kaupbæti.

Ef maður er þannig stemmdur. Og það er auðvitað alveg ljómandi gott.

Ég er það ekki og nenni því ekki. Ég vil miklu heldur láta einhvern annan sjá um þetta allt fyrir mig, sáninguna og dúlleríið og baráttuna við pöddur og illgresi og válynd veður. Ég vil bara labba út í búð eða á markað og kaupa grænmeti og ávexti sem aðrir hafa ræktað, rétt eins og ég kaupi mjólk úr kúm sem aðrir hafa mjólkað, fisk sem aðrir hafa veitt, kjöt af dýrum sem aðrir hafa slátrað og svo framvegis. Jú, það kemur fyrir að ég tíni ber og sveppi og hirði rabarbara úr görðum annarra ef mér er boðið upp á það. En þar set ég eiginlega mörkin, og svo við vatnsræktargarðinn minn í eldhúsinu, þar sem ég rækta ofgnótt af basilíku.

Ég er hæstánægð með að hafa þetta svona. Það hentar mér einkar vel. Auðvitað kemur fyrir einstöku sinnum að mig langar að nota eitthvert hráefni – grænmeti, ávexti, kryddjurtir eða annað – sem fæst ekki í búðum og þá getur verið að ég hugsi ,,ég ætti nú kannski að fara að rækta þetta sjálf“ – en svo man ég eftir sáningunni og dúlleríiinu og vökvuninni og reytingunni og pöddunum og moldarvinnunni og öllu því – og hnjánum á mér – og svo átta ég mig líka á að á næstum öllu svona þarf að byrja mörgum mánuðum áður en maður ætlar að nota afraksturinn, ef ekki árum. Og fyrirhyggjusemi að þessu leyti er bara ekki minn tebolli. Ég er ekki týpan sem sáir einhverju af því að ég ætla að elda það í haust og fylgist þolinmóð með því stækka og þroskast þar til loksins kemur að því að ég geti tekið það og eldað. Ef pöddurnar eru ekki búnar með það.

Nei, ég er sú sem fer út í búð, sé eitthvað sem freistar mín, kaupi það og elda úr því. Og er alveg sátt við að láta einhverja aðra sjá um ræktunina og fyrirhöfnina.

Og á dögunum var ég í Kosti og rakst þar á beðju. Red ruby chard eða rhubarb chard, ég veit ekki alveg hvað það afbrigði ætti að heita á íslensku – eða kannski hefur það íslenskt heiti sem ég veit ekki af. Gæti verið rabarbarabeðja.

IMG_4125

Það er eitthvað um að beðja (chard) sé ræktuð hér en maður sér hana sjaldan í búðum. Eftir því sem ég best veit er þetta í rauninni sama tegund og rauðrófan, bara mismunandi yrki, rauðrófan ræktuð vegna rótarinnar en beðjan vegna blaðanna. Ég er ekki alveg klár á hvort rauðrófublöðin sem maður fær í sumum salatblöndum eru af rauðrófu eða beðju en það er kannski enginn munur á þeim svona ungum og smáum.

Beðja er til með blaðstilkum í ýmsum litum, þar á meðal hárauðum, og er oft ræktuð sem skrautjurt en blöðin eru þó holl og næringarrík og oftast bragðgóð; ung blöð má nota í salöt eins og þau koma fyrir en eldri og stærri blöð hafa oft beiskt bragð sem hverfur þó við eldun og þá minnir bragðið töluvert á spínat. Oft eru stilkarnir skornir úr blöðunum og eldaðir sér. Bæði blöð og stilkar innihalda oxalsýru og því er best að borða kannski ekki nein ókjör af þessu.

IMG_4135

Ég ákvað einmitt að nota blöð og stilka sitt í hvorn réttinn (hin uppskriftin kemur seinna) og þess vegna byrjaði ég á að taka knippið (ég er ekki viss um vigtina en þetta voru 12-15 blöð) og skera stilkana úr blöðunum, nokkuð hátt upp eftir þeim. Ef ég hefði ákveðið að hafa hluta af stilkinum með hefði ég sennilega forsoðið blöðin í saltvatni andartak.

IMG_4212

Ég stillti svo ofninn á 180°C og tók til hráefnið í vefjurnar sem ég ætlaði að gera: blöðin auðvitað, soðin hrísgrjón sem ég átti (ekki viss með magn en samsvarandi svona 100 g af hráum grjónum, hvítum eða hýðis-), svona þriðjung úr knippi af steinselju (flatblaða), 100 g af feitaosti, 1 vænan rauðlauk, 2 hvítlauksgeira, 2-3 msk af rúsínum (ég notaði gullnar, mega vera venjulegar), 2-3 msk af furuhnetum, 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salt. Og ólífuolíu, sem ekki er á myndinni.

IMG_4215

Ég saxaði rauðlaukinn, hitaði 1-2 msk af ólífuolíu og lét hann krauma í nokkrar mínútur. Saxaði svo hvítlaukinn smátt, setti hann á pönnuna og lét krauma áfram þar til laukurinn var farinn að mýkjast.

IMG_4218

Á meðan setti ég hrísgrjónin í skál, saxaði steinseljuna gróft og setti hana út í ásamt rúsínum, furuhnetum, kryddinu og svona tveimur þriðju af fetaostinum (muldum). Blandaði þessu saman. Þegar laukurinn var tilbúinn lét ég hann aðeins kólna og hellti honum svo yfir og blandaði.

IMG_4226

Ég tók svo beðjublöðin og undirbjó bögglana. Byrjaði á að taka þau stærstu, leggja þau flöt og láta helmingana (þar sem ég hafði skorið stilkinn frá) skarast aðeins; lagði svo minni blöðin ofan á, yfir samskeytin. Þetta urðu sjö bögglar hjá mér en hefði alveg dugað í átta ef ég hefði viljað hafa jafna tölu.

IMG_4233

Svo setti ég væna hrúgu (vel kúfaða sleif) af fyllingunni á blöðin sem ég hafði undirbúið …

IMG_4237

… og vafði þau upp í vöndul …

IMG_4241

… sem ég raðaði svo í olíuborið, eldfast mót. Þegar allir bögglarnir sjö voru komnir dreypti ég dálítilli ólífuolíu yfir, breiddi svo álpappír þétt yfir mótið, setti það í ofninn og bakaði bögglana í 20 mínútur.

IMG_4268

Blöðin ættu enn að vera fallega græn þrátt fyrir baksturinn þótt þau dökkni kannski ögn og þorni á jöðrunum. Ég muldi afganginn af fetaostinum yfir vefjurnar um leið og þær komu úr ofninum.

IMG_4291

Það má svosem setja nokkurn veginn hvað sem er í fyllinguna, líka eitthvert kjöt, pylsur, beikon eða annað slíkt, en ég ákvað að gera grænmetisrétt úr þessu, nokkurs konar dolmades nema með beðjulaufum í stað vínviðarblaða.

En þetta var alveg ágætt. Svo er gott að hafa sítrónubát til að kreista yfir, kannski salat eða brauð með (ekki bráðnauðsynlegt) og þá er þetta ágætis máltíð.

Beðjuvefjur með hrísgrjónafyllingu

10-16 beðjulauf, stilkurinn skorinn úr

hrísgrjón, soðin

1/3 steinseljuknippi (flatblaða)

100 g fetaostur

1 rauðlaukur, stór, eða 2 minni

2-3 hvítlauksgeirar

2-3 msk rúsínur

2-3 msk furuhnetur

1/2 tsk timjan, þurrkað

pipar

salt

ólífuolía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s