Súkkulaði og saltkaramella

Ég er búin að elda töluvert síðustu dagana og það hefur allt verið myndað í bak og fyrir – aftur og aftur – en það var ekki fyrir mig eða bloggið og heldur ekki fyrir nýja bók, heldur var ég á flakki með fimm manna kóresku sjónvarpstökuliði frá stærstu sjónvarpsstöð Suður-Kóreu, eldaði fyrir þá og sagði þeim eitt og annað um íslenska matargerð og matarhefðir, sem þeir voru að gera þátt um.

Upphaflega átti þetta bara að vera eitt viðtal og ég átti bara að elda einn eða tvo rétti – eða það skildist mér – en ég heillaði þá upp úr skónum svo þeir ákváðu að gera mig að aðalnúmerinu í þættinum og þetta urðu þrír dagar. (Eða líklega voru þeir bara orðnir þreyttir eftir tuttugu daga erfiðan myndatökuleiðangur um ýmis lönd Evrópu og ákváðu að fara bara auðveldu leiðina og tala við mig og láta mig elda svo þeir þyrftu ekki að hafa uppi á fleirum.)

Hins vegar  veit ég ekkert hvernig þetta verður því ég var látin tala íslensku í viðtölunum og þegar ég var að lýsa matargerðinni og mér skilst á vinnufélögum mínum hjá réttindastofu Forlagsins að aldrei hafi fundist þýðandi sem getur þýtt úr íslensku á kóresku svo að sennilega klippa þeir bara búta þar sem ég er að segja eitthvað sem kannski kemur málinu ekkert við og texta svo eða tala yfir á kóresku eitthvað sem þeir halda að ég sé að segja. Það verður sögulegt.

Hvað sem því líður, þá verð ég örugglega stórstjarna í Kóreu innan tíðar og fæ fjölda hjúskapartilboða frá ríkum kóreskum köllum sem hrífast af mér þar sem ég stend og horfi óræðu augnaráði á Gullfoss. Eða eitthvað. (Ég var látin ganga fram og aftur á klettum við Gullfoss svona fimmtíu sinnum og átti að horfa á fossinn á meðan. Ekki niður fyrir tærnar á mér, sem ég hefði þó þurft. Mesta mildi að ég datt ekki í fossinn, eða allavega í næsta poll.)

Þetta verður eitthvað.

En Kóreumennirnir voru hinir indælustu drengir og skemmtilegir ferðafélagar.

Allavega, þeir höfðu bara áhuga á kjöti og brauði af einhverri ástæðu. Allt í fína með það en eftir þetta stand allt saman langaði mig að gera eitthvað sætt. Baka köku. Súkkulaðiköku … og það var einhvernveginn ekki nóg, mig langaði reyndar ekki í mjög sæta köku en ákvað í staðinn að hafa eitthvað sætt og klístrað út á hana.

Saltkaramellusósu.

Súkkulaðikaka og saltkaramellusósa, það hljómar nú ágætlega. Finnst mér.

IMG_3960

Ég byrjaði á að hita ofninn í 160°C og þeytti svo saman 200 g af smjöri, 100 g af púðursykri og 100 g af hvítum sykri (má vera bara hvítur). Síðan tók ég tvö egg og hrærði þeim saman við, öðru í senn.

IMG_3966

Bætti svo við tveimur teskeiðum af vanilluessens.

IMG_3972

Svo vigtaði ég 275 g af hveiti og 40 g af kakódufti og blandaði 1 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af salti saman við. Hellti þessu í hrærivélarskálina og bætti við 100 ml af grískri jógúrt (mætti líka vera sýrður rjómi, jógúrt eða súrmjólk) og 100 ml af sjóðandi vatni. Hrærði þetta rólega saman, bara rétt eins og þurfti til að blanda en ekki meira.

IMG_3980

Að lokum blandaði ég 150 g af súkkulaðidropum saman við.

IMG_3985

Ég setti deigið svo í meðalstórt jólakökuform og jafnaði aðeins yfirborðið. – Þetta er húðað form og það þarf hvorki að smyrja það né klæða innan með pappír en ég set samt oftast renning af bökunarpappír á botninn (ekki upp með hliðunum) – bara til að vera alveg viss um að kakan losni nú úr forminu … Ég setti hana svo á neðstu rim í ofninum og bakaði í um klukkutíma.

IMG_3993

Á meðan gerði ég saltkaramellusósuna: Ég setti 200 g af sykri og 4 msk af vatni í lítinn pott, hrærði ekki en hitað þar til sykurinn var bráðinn (velti pottinum aðeins af og til) og lét svo löginn sjóða þar til hann var farinn að taka lit.

IMG_3999

Þá tók ég pottinn af hitanum, setti 75 g af smjöri og 125 ml af rjóma út í (það þarf að passa sig því karamellan getur freytt töluvert) og setti svo 1 tsk af vanilluessens og 1 tsk af flögusalti (ég notaði íslenska saltið frá Saltverki) út í. Setti pottinn aftur á hitann og lét malla rólega í nokkrar mínútur, þar til smjörið var bráðið og sósan slétt og fallega gullinbrún. Svo lét ég hana hálfkólna.

IMG_4021

Ég stakk prjóni í kökuna, fyrst eftir 50 mínútur og þá var hún of blaut og svo aftur þegar hún hafði bakast í klukkutíma og þá var bara smávegis deig á prjóninum, sem þýddi að kakan var eins og ég vildi hafa hana. Ég tók hana út, lét hana kólna smástund í forminu og hvolfdi henni svo úr og lét hana kólna á grind, svona nokkurn veginn.

IMG_4090

Ég hellti svo saltkaramellusósunni í könnu og bar hana fram með kökunni. Hún var aðeins volg og mér finnst hún best þannig.

IMG_4099

Svo er bara að skera sneið af kökunni og hella smávegis saltkaramellusósu yfir.

IMG_4106

Eða bara aðeins meira en smávegis …

IMG_4122

Súkkulaði og saltkaramella. What’s there not to like?

Súkkulaðiformkaka

200 g smjör

100 g púðursykur

100 g sykur

2 egg

2 tsk vanilluessens

275 g hveiti

40 g kakóduft

1 tsk lyftiduft

1/4 tsk matarsódi

100 ml grísk jógúrt (eða sýrður rjómi, hrein jógúrt eða súrmjólk)

100 g sjóðandi vatn

150 g súkkulaðidropar

Saltkaramellusósa

200 g sykur

4 msk vatn

75 g smjör

125 ml rjómi

1 tsk vanilluessens

1 tsk flögusalt eða gróft salt

4 comments

  1. Bakaði þessa í gær og var henni gerð
    góð skil af fjórum ungum herra mönnum sem drukku ískalda mjólk með – takk fyrir skemmtilegt Blogg Nanna 🙂
    Hildur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s