Þetta var dálítið hektískur dagur – nóg að gera í morgun við ýmsan undirbúning (og svo sporðreistist hilla og allt sem á henni var, sem til allrar hamingju var hvorki þungt né brothætt, datt ofan á hausinn á mér), svo fylltist íbúðin af kóreskum sjónvarpsmönnum og ég eldaði eitt og annað fyrir þá og um leið og þeir fóru út úr dyrunum rauk ég í sameiginlegt afmæli tveggja systkina minna – eða í rauninni var verið að halda upp á fimmtíu ára afmæli afmælisveislu þeirra á Djúpadalshlaði, sem er mjög sterk í minningu okkar þriggja – þetta var í eina skiptið í gjörvallri bernsku okkar sem veisla var haldin utandyra. Eða reyndar í eina skiptið sem kaffi var drukkið utandyra, nema í heyskaparferðum niður í Torfmýri og þess háttar. Þetta var 2. júní 1963, eða fyrir nákvæmlega fimmtíu árum. Það var gott veður þann dag svo að afmælið var fært út á hlað. Það voru ekki til nógu margir stólar svo að pabbi sat á mjólkurbrúsa; það munum við líka vel.
En allavega, þegar ég kom heim þurfti ekkert að elda, það var til kjötsúpa sem ég hafði eldað fyrir Kóreumennina og reykt folaldatunga og nýbakað rúgbrauð og fleira. En þótt ég hefði verið í afmælisveislu og fengið þar afbragðs veitingar langaði mig í eitthvað svolítið sætt á eftir. Og ég átti nokkrar laglegar ferskjur sem ég sé ekki fram á að hafa tíma til að gera neitt úr næstu daga – þarf meðal annars að gera eitthvað meira með Kóreumönnunum – svo að ég ákvað að nota þær í böku. Var fyrst að hugsa um að gera bökubotn en ákvað svo að gera mylsnuböku (crumble). Það þarf ekki mikið fyrir slíku að hafa.
Ég notaði reyndar þurrkaðar ferskjur með folaldatungunni í dag. En þessar voru ferskar og mjög bragðgóðar.
Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C og tók svo til það sem átti að fara í fyllinguna: 5 vel þroskaðar ferskjur, 1 sítróna, 2 msk af pistasíuhnetum, 6 msk af hrásykri (má vera venjulegur), 4 msk af hveiti, 1/4 tsk engifer, 1/4 tsk salt. – Það má líka nota nektarínur og ýmsa aðra ávexti.
Ferskjur skiptast í ,,freestone“ og ,,clingstone“. Í þeim fyrrnefndu er steinninn laus frá aldinkjötinu, í hinum er hann fastur við það og getur verið erfitt að losa hann úr. Þessar voru svo sannarlega freestone en mér finnst endilega að þær sem oftast fást hér séu clingstone – að minnsta kosti eru nektarínunar það.
Ég skar ferskjurnar í tvennt og fjarlægði steininn og svo skar ég hvorn helming um sig í 6-8 báta og setti í skál.
Ég kreisti safann úr sítrónunni yfir og blandaði og svo grófsaxaði ég pistasíurnar og setti þær út í. Síðan blandaði ég hveiti, hrásykri, engifer og kryddi saman í annarri skál, setti ferskjurnar út í og blandaði vel (en gætilega, ferskjurnar voru vel þroskaðar og ég vildi ekki að þær færu í mauk).
Ég hellti blöndunni svo í eldfast mót, dreifði úr henni og stráði smjörinu yfir í smáklípum.
Þá var komið að mylsnunni til að strá yfir: Ég setti 150 g af hveiti, 125 g af smjöri (köldu í litlum bitum), 60 g af hrásykri (má vera venjulegur), 1 tsk af lyftidufti og ögn af salti í matvinnlsuvélina og lét ganga þar til komin var mylsna, frekar þurr en ekki duftkennd.
Ég stráði mylsnunni jafnt yfir ferskjurnar, setti formið á neðstu rim í ofninum og bakaði í um 30 mínútur …
… eða þangað til yfirborðið var fallega gullinbrúnt og stökkt. Tíminn fer annars dálítið eftir stærðinni á forminu, ég var með frekar stórt form (heldur stærra en venjulegt bökuform) og bakan var því fremur þunn; í minna formi hefðu 25 mínútur kannski dugað.
Þetta var nú bara alveg ljómandi gott með kvöldkaffinu.
Ég átti mascarponeost og hafði hann með en ís, þeyttur rjómi, sýrður rjómi eða grísk jógúrt hefði allt verið .ljómandi gott.
Viðbót: Annars er ég búin að átta mig á eftir að hafa smakkað bökuna kalda og eftir að hafa rannsakað málið betur, að þetta eru líklega ekki ferskjur, heldur risa-apríkósur sem hafa dulbúið sig sem ferskjur (og voru merktar sem slíkar) … Allavega, það má nota hvort heldur er ferskjur, nektarínur eða apríkósur.
Ferskjubaka
5 ferskjur (eða nektarínur eða risa-apríkósur í dulbúningi)
1 sítróna
2 msk pistasíuhnetur (má sleppa)
4 msk hveiti
6 msk hrásykur (eða venjulegur)
1/2 tsk engiferduft
1/4 tsk salt
2 msk smjör
150 g hveiti
125 g smjör
60 g hrásykur (eða venjulegur)
1 tsk lyftiduft
salt á hnífsoddi