Ég sagði í gær að ég væri að reyna að borða minna kjöt og það er alveg satt – ég er töluverð áhugamanneskja um að bjarga heiminum, svona fyrir framtíðina, og einn þáttur í því er að borða minna kjöt. Það kemur að því að við þurfum þess (eða þyrftum þess reyndar nú þegar) og það er nú bara ágætt að byrja að venja sig við það og leggja í leiðinni sitt af mörkum í kolefnisjöfnun. En ég er nú ekki alveg hætt í steikunum ennþá samt og þaðan af síður beikoninu …
Ég borða mun meira af fiski en ég gerði áður og svo kemur alveg fyrir að ég elda grænmetisrétti. Eða kannski öllu heldur kjöt- og fisklausa rétti, ég er nú ekki viss um að rétt sé að skilgreina kvöldmatinn minn sem grænmetisrétt, það er ekki það mikið grænmeti í honum og vegan er hann allavega ekki …
Þeir eru í einhverju ferlegu veseni á Kýpur, jafnvel enn verra en við vorum. Allt í skralli. En þó ekki svo slæmu að halloumiframleiðsla hafi lagst niður, sem er eins gott. Ég held sveimér að ef ég væri Evrópusambandsandstæðingur (sem ég er ekki) mundi ég snarlega skipta um skoðun ef ég héldi að sú afstöðubreyting gæti orðið til þess að maður gæti alltaf fengið halloumi (og nokkra aðra góða osta) í betri búðum. Þá væri ég nokkuð sæl.
Þeir þarna suðurfrá eru búnir að búa ostinn til síðustu fimmtán hundruð árin, líklega á svipaðan hátt nema áður var eingöngu notuð sauða- og geitamjólk en nú er kúamjólk oftast blandað saman við.
Kosturinn við halloumi og það sem gerir hann frábrugðinn öðrum ostum er að hann hefur töluvert hærra bræðslumark og því er hægt að steikja hann, djúpsteikja og grilla. En ég pönnusteikti hann nú bara.
Ég ákvað að búa til steiktan halloumi á volgu sveppasalati og tók til, fyrir utan ostinn, svona 200 g af sveppum, 1 marggreindan vorlauk – á stærð við 3-4 venjulega – 2 hvítlauksgeira, nokkrar timjangreinar, væna lúku af klettasalati, hálfa sítrónu (ég notaði 1 msk af safanum), svona tólf ólífur, nýmalaðan svartan pipar, 3 msk af ólífuolíu, 1 msk af smjöri og dijon-sinnep (notaði svona 1/3-1/2 teskeið af því). Ég notaði líka hveiti, svona tvær teskeiðar, en gleymdi að hafa það með á myndinni. – Það ætti ekki að þurfa neitt salt, osturinn er saltur og ólífurnar líka.
Ég byrjaði á að skera ostinn í tæplega 1 cm þykkar sneiðar og lét þær bíða dálitla stund á eldhúsbekknum. Það er til að osturinn sé ekki kaldur beint úr ísskáp þegar hann er steiktur og sé fljótari að hitna í gegn.
Svo saxaði ég sveppina og hvíta og ljósgræna hlutann af vorlauknum, tók laufin af timjaninu og kramdi hvítlaukinn. Bræddi smjörið á pönnu og steikti sveppi, vorlauk, hvítlauk og timjan í nokkrar mínútur, þar til sveppirnir og laukurinn höfðu tekið góðan lit. Kryddaði með pipar, hellti svo öllu saman á disk og strauk af pönnunni með eldhúspappír.
Svo setti ég hveitið (alltsvo þessar sirka tvær matskeiðar sem ég gleymdi að hafa með á myndinni) á disk, blandaði dálitlum pipar saman við og velti halloumi- sneiðunum upp úr hveitinu og þrýsti þeim aðeins niður í það. Hitaði svo 1 msk af ólífuolíu á pönnunni …
… og steikti halloumi-sneiðarnar við nokkuð góðan hita í svona tvær mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær voru fallega gullinbrúnar.
Á meðan osturinn var á pönnunni setti ég klettasalatið á disk, hellti volgum sveppunum yfir, bætti við ólífum og söxuðum grænu blöðunum af vorlauknum og blandaði aðeins. Kreisti 1 msk af sítrónusafa í litla skál og þeytti ólífuolíunni sem eftir var (2 msk) saman við ásamt 1/2 tsk af dijonsinnepi (eða eftir smekk) og ögn af pipar. Dreypti dálitlu af þessu yfir salatið, lagði svo heitar ostsneiðar þar ofan á og dreypti aðeins meiri salatsósu yfir. Bar afganginn fram með.
Ég hafði svo gott brauð með og þetta var dægilegur kvöldmatur. Ég held það sé bara allt í lagi að halda áfram að bjarga heiminum með kjötleysi. Svona stundum.
Eins og sést var osturinn ekkert farinn að bráðna þótt hann væri heitur í gegn.
Steiktur halloumi með sveppum
225 g halloumi
um 200 g sveppir
3-4 vorlaukar
nokkrar timjangreinar
2 hvítlauksgeirar
1 msk smjör
pipar
2 msk hveiti
10-12 ólífur
3 msk ólífuolía
1 msk sítrónusafi
1/2 tsk dijonsinnep
Hæ hæ takk fyrir frábært blogg. Hefur alltaf langað til að prófa þennann ost, hvar færðu hann?
Sæl,
ég fékk ostinn í Hagkaup í Skeifunni fyrir helgi, veit ekki hvort hann fæst enn þar eða í öðrum Hagkaupsbúðum en mætti athuga það.
Svo hefur hann stundum verið til í Búrinu og sennilega víðar.
Var í Bónus rétt áðan, nóg til af halloumi þar.