Ég hef síðustu dagana verið að lesa bók sem mér finnst afskaplega áhugaverð og mæli eindregið með að fólk lesi, það er nýjasta bók Jay Rayner, sem kom út fyrir örfáum dögum, A greedy man in a hungry world: How (almost) everything you thought you knew about food is wrong. Ég er ekki endilega sammála öllu sem hann segir en þó býsna mörgu. Rayner er klár náungi sem kafar ofan í hlutina og fær mann til að hugsa, hann segir hluti sem stuða (er mjög langt frá því að vera PC), og svo er hann svo (yndislega og kvikindislega) fyndinn á köflum. Ég man ekki eftir því áður að hafa lesið matartengda bók sem bæði kom mér til að hlæja upphátt hvað eftir annað en kom líka út á mér tárum – það var þegar ég var að lesa frásögn Rayners af viðtölum hans við vannærðar mæður vannærðra barna í Rúanda.
Rayner fer um víðan völl, rifjar upp bernskuminningar og bráðfyndnar sögur af móður sinni og ævintýri frá blaðamennskuferlinum en hann er fyrst og fremst að velta fyrir sér matarpólitík, vandamálum vel stæðra (og ekki eins vel stæðra) Vesturlandabúa andspænis þeim gífurlegu vandamálum sem felast í því að þurfa áður en langt um líður að brauðfæða níu milljarða manna og hvernig sé hægt að bregðast við þeim. Á meðal niðurstaða hans í lokakaflanum má telja:
,,Farmers’ markets are brilliant places. As are Ferrari showrooms, and glossy shops selling Chanel handbags. If you’ve got the cash, go right ahead. Knock yourself out. (I know I do.)
Organic food makes a pretty feeble argument for itself.
Big agriculture isn’t all nasty, evil and dangerous and awful and unspeakable. Indeed …
… some big agriculture is necessary.
Turning our backs on biotechnology because it’s, y’know, weird and involves science and people in white coats and nothing good can ever come from any of it is really, really dumb. Because a lot of people in the world do not have access to enough food.
We do need to eat less meat.
There is no such things as natural and unnatural, so we need to find new words.“
Ég er nú eiginlega sammála þessu öllu. Bændamarkaðir eru ágætir og ég vil endilega eiga kost á að versla þar en tími því ekki alltaf þegar það er í boði og þeir bjarga ekki heiminum. Ég sé yfirleitt ekki sérstaka ástæðu til að eltast við lífrænt ræktaðar vörur þótt ég kaupi þær stundum ef þær eru ekkert mikið dýrari en sambærilegar. Ég sé ekkert athugavert við verksmiðjubúskap sem slíkan ef vel er að honum staðið. Og ég sé enga ástæðu til að sneiða hjá erfðabreyttum matvörum (en finnst sjálfsagt að merkja þær svo þeir sem vilja sneiða hjá þeim geti gert það). Ég er að reyna að borða minna kjöt, alveg satt.
Annars er ég að lesa heilmikið um matarpólitík og matarstefnur þessa dagana og í dag las ég meðal annars grein í New York Times sem ég er að mörgu leyti ósammála. Höfundurinn, Jo Robinson, heldur því fram að allt frá því að akuryrkja hófst fyrir tíu þúsund árum hafi öll kynbótastarfsemi orðið til þess að gera matinn stöðugt næringarminni; því meira sem jurtirnar innihaldi af phytonutrients (sem ég man ómögulega hvað er á íslensku), þeim mun beiskari séu þær yfirleitt á bragðið og þess vegna hafi menn stöðugt valið sætari afbrigði (og þar með næringarminni) til ræktunar. Þess vegna eigum við, skilst mér, helst öll að fara út og tína okkur beiskar villijurtir til matar. Gott og vel, en ég held ég haldi mig nú við sætari afbrigðin … Og það leysir ekki fæðuvandamál alls mannkyns að fara út og tína villijurtir, alveg burtséð frá phytonutrientunum.
En það má nú segja að ég hafi farið svolítið að ráðum þessarar ágætu konu áðan því hún gerir sér nú líklega grein fyrir að það eiga ekki allir kost á að rjúka út og tína beiskar jurtir svo að hún segir að það sé gott að byrja á að fara í búðina og kaupa til dæmis klettasalat og vorlauk því þessar jurtir séu komnar svo skammt frá villtum uppruna sínum. Og nota mikið af ferskum, mildum kryddjurtum eins og basilíku. Og viti menn, ég hafði einmitt keypt klettasalat og vorlauk og rækta basilíku heima. Svo að ég gat bara næstum ímyndað mér, þegar ég var að elda kvöldmatinn, að ég hefði farið út að tína.
Við vorum tvö í mat og ég hafði keypt 500 g af löngu; þykkt og vænt stykki. Og svo átti ég beikon og bökunarkartöflur og niðursoðnar kjúklingabaunir og smjör og fleira.
Ég byrjaði á að flysja tvær bökunarkartöflur, skera þær í bita og setja upp til suðu. Svo tók ég 8 vænar sneiðar af mögru beikoni og steikti 6 af þeim á þurri pönnu. Ég notaði að sjálfsögðu mína ágætu beikonpressu til að fá þær sléttar en ef maður á ekki beikonpressu má alveg sleppa því. Þegar þær voru orðnar stökkar setti ég þær á eldhúspappír og lagði aðra örk ofan á (og beikonpressuna þar ofan á til að pressa fitu úr þeim).
Svo skar ég löngustykkið í fjóra bita og kryddaði með pipar og salti. Bræddi svona 30 g af smjöri á pönnu (það má svosem nota aðra feiti en smjör er lang-lang best) og steikti bitana við ríflega meðalhita í 2 mínútur eða svo á annarri hliðinni. Á meðan skar ég beikonsneiðarnar tvær sem eftir voru í litla bita og saxaði 2-3 vorlauka.
Svo sneri ég bitunum, dreifði vorlauk og beikoni í kring, lækkaði hitann dálítið og steikti áfram smástund.
Þegar beikonið og laukurinn voru aðeins farin að taka lit opnaði ég dós af kjúklingabaunum, hellti þeim í sigti til að láta renna af þeim og setti þær svo á pönnuna. Hellti svo 150 ml af rjóma yfir og lét malla í smástund, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn (það fer eftir þykktinni svo ég get ekki gefið upp nákvæman tíma). – Á meðan fiskurinn var að klárast hellti ég vatninu af kartöflubitunum, stappaði þá og hrærði mjólk, pipar og salti saman við og að lokum lófafylli af saxaðri basilíku. Venjulega set ég smjör í kartöflusöppu en fannst ekki þörf á því núna því það var bæði smjör og rjómi í sósunni.
Ég kryddaði baunirnar með svolitlum pipar (ætti ekki að þurfa að salta vegna beikonsins í sósunni), lagði heilu beikonsneiðarnar ofan á fiskinn og bar þetta fram á pönnunni, ásamt kartöflustöppu og klettasalati.
Þetta þótti okkur mæðginunum afskaplega góður matur.
En ég held samt að ég láti villijurtirnar að mestu eiga sig.
Langa með beikoni og baunum
500 g langa (eða annar áþekkur fiskur)
8 beikonsneiðar
30 g smjör
pipar
salt
2-3 vorlaukar
1 dós kjúklingabaunir
150 ml rjómi
Þetta er alveg rosalega girnilegt!