Meiri reykur

Um daginn, þegar eldsvoðinn varð í ísskápnum hjá mér, þá hafði ég reyndar ætlað að kynda eld daginn eftir til að reykja hvítasunnuforréttinn, en hætti svo við það, fannst eiginlega komið nóg af reykjarlykt í bili. En nú er nógu langt liðið síðan (það er samt enn dauf reykjarlykt þegar ísskápurinn er opnaður) svo að ég ákvað að gera bara núna það sem ég hafði ætlað að gera þá, það er að segja reykja andabringu. Reyndar ekki sem forrétt, heldur bara sem kvöldmat handa mér.

Ég hef áður sýnt hvernig ég reyki í wokpönnu og það er satt að segja ótrúlega einföld matreiðsla. Ég hef reykt andabringu áður og tók mið af því en klikkaði reyndar á því að þessi var mun þynnri og minni – ég stytti tímann ögn en hefði vel mátt stytta hann meira. Það kom þó ekki verulega að sök, bringan var bæði safarík og meyr – en ég hefði viljað hafa hana aðeins bleikari. Bringur sem eru matreiddar svona eru ekkert lengur að eldast en ef þær eru brúnaðar á pönnu og svo settar inn í heitan ofn. Jafnvel fljótari.

IMG_3573

Ég byrjaði á að marínera bringuna í svona tvo tíma. Eins og sést er þetta óttalega lítil og þunn bringa, rétt um 200 grömm. Ég tók til pipar, salt, 1 msk af hlynsírópi, 1 msk af púrtvíni og 1 msk af granateplasírópi (pomegranate molasses). En það má alveg sleppa því þótt það gefi sérstakt bragð sem mér finnst ansi gott. – Reyndar áttaði ég mig á því að það hefðu líklega verið mistök að vera bæði með hlynsíróp og granateplasíróp – gerði ekkert til í maríneringunni en ég bjó svo til sósu úr henni á eftir og hún varð fullsæt.

IMG_3575

Ég byrjaði á að þerra bringuna og skera tígla í haminn með beittum hníf. Passaði að skera ekki ofan í kjötið. Það er svosem ekki nauðsynlegt að gera þetta þegar á að reykja bringuna en mér finnst það samt betra.

IMG_3577

Svo grófmalaði ég piparinn og blandaði honum, saltinu, púrtvíninu, hlynsírópinu og granateplasírópinu saman í skál.

IMG_3578

Ég setti bringuna út í, velti henni upp úr maríneringunni og lét hana liggja í svona tvo klukkutíma; sneri henni tvisvar eða þrisvar á meðan.

IMG_3582

Ég tók svo wokpönnuna, reif tvo búta af eldhúspappír (nógu langa til að ná vel upp fyrir barmana) og lagði þá yfir pönnuna í kross. Blandaði svo saman 3 msk af tei, 3 msk af púðursykri og 6 msk af hrísgrjónum, kveikti undir pönnunni og hitaði þar til reykur fór að sjást.

IMG_3589

Þá setti ég grind yfir wokpönnuna, lagði andabringuna á hana og setti svo lok yfir.

IMG_3593

Svo bretti ég endana á álpappírnum inn yfir lokið svo að reykurinn héldist sem best inni (annars er lokið ansi þétt á þessari pönnu) og lét öndina reykjast við meðalhita í 8 mínútur. Þá slökkti ég undir og lét standa alveg óhreyft í 7-8 mínútur til viðbótar. Líklega hefði mátt stytta heildartímann um 3 mínútur eða svo – en bringan var þó ekki ofelduð.

Á meðan öndin reyktist setti ég maríneringuna í lítinn pott ásamt dálitlu vatni og lét sjóða rösklega nokkra stund. Hellti sósunni svo í skál og lét hana kólna dálítið.

IMG_3598

Ef ég hefði verið svengri hefði ég líklega útbúið sæta kartöflustöppu eða eitthvað slíkt með og kannski eitthvert annað grænmeti. En ég ákvað að gera mér bara salat með hnetum og þurrkuðum ávöxtum og náði í þrjár gráfíkjur og svona eina matskeið af hverju: pistasíum, pekahnetum, gulum rúsínum og þurrkuðum trönuberjum. Skar gráfíkjurnar niður og blandaði þessu svo öllu saman.

IMG_3608

Ég opnaði wokpönnuna – jú, öndin leit út fyrir að vera tilbúin. Setti hana á bretti og lét hana bíða aðeins áður en ég skar hana í sneiðar.

IMG_3612

Á meðan dreifði ég nokkrum salatblöðum á fat, stráði meirihlutanum af ávaxta- og hnetublöndunni yfir, lagði svo öndina ofan á, dreypti dálitlu af sósu bæði yfir hana og salatið og stráði svo afganginum af blöndunni yfir allt saman.

IMG_3642

Þetta var nú alveg bara frekar gott.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s