Svo nefna Ítalir hveitimat þennan

Ég var að líta yfir það að gamni mínu – af því að það er rétt að verða komið ár síðan ég byrjaði með þetta blogg – hvers konar uppskriftir ég hefði nú verið með og hvort væri sæmilegt jafnvægi á þeim. Og ég gat nú ekki betur séð en svo væri. Kannski aðeins hærra hlutfall af sérviskulegum uppskriftum en gengur og gerist um matarbloggara en það er nú bara ég. Þetta á jú að gefa sýnishorn af minni matargerð og hún er bara svona.

En mér sýndist hlutfallið vera nokkuð jafnt, ég taldi saman uppskriftir frá áramótum og sýndist til dæmis að ég hefði verið með jafnmargar uppskriftir að kjöti og fiski. Litlu færri kjúklingauppskriftir – ég eldaði samt óvenju mikið af kjúklingi á þessum tíma en það er vegna þess að ég var að setja saman dálitla bók með kjúklingaréttum. Hún á að heita – sörpræs, sörpræs – Kjúklingaréttir Nönnu og kemur væntanlega seinnipartinn í sumar.

Aftur á móti fannst mér þegar ég skoðaði þetta að ég ætti kannski að bæta við fleiri grænmetisréttum og öðrum kjöt- og fisklausum réttum og þar á meðal pastaréttum. Pasta er reyndar ekkert sérstaklega í tísku núna en hvað um það, þótt sumir hafi sleppt því alveg úr mataræðinu er það ansi víða borðað enn og það eru til svo margir frábærir pastaréttir. Það þarf hins vegar ekki alltaf að vera með einhverjar tilbúnar sósur og svoleiðis. Og pastað sjálft á að vera aðalhráefnið í pastaréttum, eða það finnst mér.

Annars er pasta í rauninni ekki svo gamalt í íslenskri matarsögu. Orðið pasta var tæpast notað (þ.e. ekki um matvöruna) fyrr en á níunda áratug síðustu aldar og þó fyrst og fremst á þeim tíunda. Fram að því þurfti meira og minna að útskýra fyrir fólki hvað pasta væri, eins og gert er hér (1967):

Screen Shot 2013-05-24 at 5.29.04 PM

Spaghettí og makkarónur eða makkaróní voru einmitt þær tvær pastategundir sem þekktar voru hér lengst af tuttugustu öld og makkarónur    (ýmist langar, holar pípur eða litlir bogar) raunar frá því á nítjándu öld. Og í elstu íslensku matreiðslubókinni, Einföldu matreiðsluvasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur frá árinu 1800, er reyndar uppskrift að heimagerðu pasta þótt það heiti það raunar ekki. Sjálf ólst ég bara upp við makkarónur og þá einungis í súpu; ég held að það hafi ekki verið fyrr en við fluttum á Krókinn þegar ég var komin hátt á ellefta ár sem mamma fór að hafa spaghettí af og til í matinn.

En allavega, ég ákvað að hafa pasta í matinn. Þegar ég elda pastarétti er það stundum pastategundin sem ræður sósunni en stundum sósan sem ég ætla að gera sem stýrir pastategundinni. Í þetta skipti lá þetta nokkuð beint við, ég átti sveppi og rjóma og ég átti orechiette. Sem passar þetta líka ljómandi vel við þykka rjómalagaða sósu með grófum bitum.

IMG_3360

Ég byrjaði á að hita vatn og tók svo nokkra þurrkaða villisveppi og setti í skál. Það er ekkert bráðnauðsynlegt en gefur mjög gott sveppabragð. Hellti svona 100-150 ml af sjóðheitu vatni yfir (myndin er ekki úr fókus, þetta er gufa) og lét standa í svona korter.

IMG_3363

Ég tíndi svo til það sem ég ætlaði að nota; auk villisveppanna var það: 250 g af sveppum, nokkrar timjangreinar, 1/4 laukur, 2-3 hvítlauksgeirar, 1 vorlaukur (má sleppa), 25 g smjör, rjómi (ég notaði 150 ml), pipar, salt og biti af parmesanosti. (Gleymdi að hafa pastað með á myndinni.)

IMG_3364

Ég byrjaði á að hita saltvatn í potti og þegar sauð setti ég 250 g af orechiette-pasta út í og stillti klukkuna á 10 mínútur. Það má alveg nota aðrar tegundir af pasta en einhvers konar skeljar henta best fyrir svona sósu. Svo bræddi ég smjörið, saxaði laukinn smátt og lét hann mýkjast aðeins í smjörinu.

IMG_3367

Svo setti ég saxaða sveppina á pönnuna, ásamt hvítlauk, timjani (reyndi að tína blöðin af greinunum eftir bestu getu) og ljósa hlutanum af vorlauknum, smátt söxuðum. Og dálitlum pipar og salti. Lét þetta krauma við nokkuð góðan hita í nokkrar mínútur, þar til sveppirnir voru farnir að brúnast.

IMG_3371

Svo tók ég þurrkuðu sveppina úr vatninu, grófsaxaði þá (þarf ekki ef bitarnir eru litlir) og setti þá á pönnuna og hellti svo sveppavatninu líka á pönnuna, hækkaði hitann og lét þetta sjóða rösklega þar til nær allur vökvi var gufaður upp.

IMG_3378

Svo hellti ég 150 ml af rjóma á pönnuna, setti um leið græna hlutann af vorlauknum út í, og lét sjóða í kannski 2-3 mínútur.

IMG_3382

Svona vil ég hafa sósuna, þykka og ekki of mikla. Mér finnst að það eigi alls ekki að drekkja pastanu í sósu en auðvitað má alveg hafa mun meiri sósu, annaðhvort með því að nota meiri rjóma eða láta pastavatnið ekki sjóða svona mikið niður.

IMG_3386

Pastað var einmitt hæfilega soðið og ég hellti því í sigti og lét renna vel af því en hvolfdi því svo í skál. Hellti svo sósunni yfir og blandaði, reif hluta af parmesanostinum yfir og skreytti með timjangrein.

IMG_3411

Og svo bara meiri parmesanost með …

Sveppapasta

250 g orechiette eða annað skeljapasta

salt

2-3 msk þurrkaðir villisveppir

150 ml vatn

nokkrar timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan

1/4 laukur

2-3 hvítlauksgeirar

1 vorlaukur

25 g smjör

150 ml rjómi (eða eftir smekk)

pipar

parmesanostur

4 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s