Ég gerði köku í dag í tilefni af stjórnarskiptum. Ekki til að fagna nýrri stjórn þótt ég óski henni alls góðs; ég efast ekkert um að þetta ágæta fólk vill allt vel og gerir sitt besta, þótt ég sé alls ekki sammála því í mörgum málum. Og ég hef verulegar áhyggjur af umhverfismálunum. Ekki beinlínis heldur til að kveðja fráfarandi stjórn þótt hún sé margs góðs makleg; þau sem þar sátu gerðu margt vel þótt annað mistækist.
Nei, það er annað – þó þessu tengt.
Fyrir meira en fjórum og hálfu ári varð hér hrun. Svokallað hrun, segja sumir; kannski er það að falla í gleymskunnar dá. En ég man vel eftir því. Ég var úti á Ítalíu í góðærislúxusferð þegar allt fór til fjandans, kom heim á laugardegi í hrunvikunni í mjög undarlegt ástand, mikla óvissu og ótta, tal um landflótta, súpueldhús og nánast hungursneyð á næstu misserum og árum. Ég fór út í búð og sá að margar hillur voru hálftómar. Fólk var að hamstra af því að allt var í óvissu um hvort nokkur gjaldeyrisviðskipti yrðu möguleg á næstu vikum og mánuðum og óttaðist að innflutningur á vörum mundi nánast leggjast af.
Þið munið sjálfsagt eftir þessu.
Ég keypti nú engar stórar birgðir, tók kannski eina og eina dós eða pakka eða flösku eða krukku af einhverjum fáeinum vörum sem ég á erfitt með að vera án í minni eldamennsku en allavega ekki meira en ein kona kemst heim með í strætó þó. Og svo rak ég í einni hillunni augun í eina yfirgefna Nutella-krukku, þá einu sem var eftir í búðinni – og reyndar var fátt annað í hillunni. Ég nota nú ekki mikið Nutella en það kemur þó fyrir og kannski hugsaði ég að þetta væri örugglega síðasta Nutella-krukkan sem ég sæi í mörg ár. Svo að ég keypti hana líka. Fór með hana heim og stakk henni inn í skáp hjá jarðskjálftabirgðunum (sem er ýmis lítt forgengilegur matur sem ég geymi just in case það kæmi nú verulega slæmur Suðurlandsskjálfti og allt í rúst).
Og svo hökti þetta nú allt áfram undir vökulu auga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það kom búsáhaldabylting og stjórnarskipti og allskonar vesen en aldrei neinn verulegur vöruskortur, ekki það ég yrði vör við. Nema helst fyrstu vikurnar eftir hrun, þegar allir voru að hamstra. Og ég einhvernveginn bjó aldrei til neitt úr Nutellanu og krukkan smámjakaðist aftar í skápinn og gleymdist. Og ég fór að búa til mitt eigið Nutella ef mig langaði í það.
Nema svo var það núna í vikunni að ég var að taka til í jarðskjálftabirgðunum og hvað kemur þá upp í hendurnar á mér nema Nutellakrukkan sem var keypt í hruninu til að eiga á mögru árunum. Sem urðu svo alls ekki jafnmögur og flest benti til að yrði hér fyrir fjórum árum. Og mér finnst viðeigandi að nota hana núna, einmitt til að halda upp á að ég þurfti ekki að grípa til hennar þessi ár. Mér finnst nefnilega nauðsynlegt að líta um öxl og rifja upp ástandið fyrst eftir hrunið og hvað maður óttaðist um framtíðina. Þær hrakspár hafa til allrar hamingju ekki gengið eftir. Mín skoðun er að fráfarandi ríkisstjórn eigi stóran þátt í því – aðrir hafa aðra skoðun – og þess vegna kveð ég hana með köku. Nutella-ostaköku.
(Og ef einhver er að brjóta heilann um ,,best before“-stimpilinn á Nutella-krukkunni, þá verður hann ekki gefinn upp en ég hef nú aldrei hirt mikið um stimpla á svona lítt forgengilegum vörum. Ég smakkaði Nutellað áður en ég notaði það og það var í fínu lagi.)
Ég byrjaði á að setja 100 g af heslihnetukjörnum í matvinnsluvélina og mala þær – ekki mjög fínt, ég hætti þegar um helmingur var fínmalaður en hinn helmingurinn enn grófur.
Ég hellti hnetunum í dörslag (pastasigti) sem ég hafði yfir skál og hristi það þar til fínni helmingurinn hafði sáldrast niður í skálina en grófi hlutinn var eftir. Ég hellti þeim í skál og geymdi. Svo bræddi ég 80 g af smjöri í potti.
Svo tók ég 175 g af Haust-heilhveitikexi (sem er ekki hafrakex, bara svo ég ítreki það), braut það niður og setti í matvinnsluvélina og lét hana ganga þar til það var orðið að mylsnu. Þá setti ég fínmöluðu hneturnar og brædda smjörið út í og þeytti þessu saman. Hellti svo mylsnunni í meðalstórt smelluform, jafnaði það og þrýsti mylsnunni aðeins upp með hliðunum en var ekkert að þrýsta henni niður á botninn (öfugt við það sem ég gerði í hinni ostakökunni um daginn, þar sem ég var með óbráðið smjör og heldur meira af því, svo að botninn líktist meira deigi en mylsnu). Setti þetta svo í frysti smástund.
Á meðan tók ég 400 g af rjómaosti, setti hann í matvinnsluvélina og hrærði hann aðeins. Steypti svo innihaldi Nutella-krukkunnar (400 g) út í og hrærði saman. That’s it. Enginn sykur (nema sá sem er í Nutellanu auðvitað) eða bragðefni eða matarlím eða neitt.
Ég sótti formið í frystinn, hellti Nutellablöndunni á kexbotninn og smurði henni jafnt yfir.
Svo stráði ég grófmöluðu hnetunum jafnt yfir og setti kökuna í kæli í nokkra klukkutíma, þar til fyllingin var stíf (nema mér lá á svo ég svindlaði aðeins og setti hana fyrst í frysti í rúman hálftíma og svo í kæli).
Svo er bara að losa smelluformshringinn utan af, renna hnífsblaði eða pönnukökuspaða undir ostakökuna og losa hana frá botninum og renna henni yfir á kökudisk.
Og fá sér sneið. Þetta er alveg dáindisgóð kaka, það er að segja ef maður kann að neta Nutella. Sem ég kann, svona af og til. Þótt krukkan gleymdist í meira en fjögur ár.
Og með þessari sneið fylgja hlýjar hugsanir til stjórnarinnar sem kom okkur gegnum þessi fjögur ár, sem hefðu getað orðið svo miklu erfiðari. Nutellalaus og allt. Og líka til þeirrar stjórnar sem tekur við og á líka erfitt verk fyrir höndum.
Og umhverfisins og náttúrunnar, sem ég ætla rétt að vona að verði ekki fyrir barðinu á stundarhagsmunum.
Nutella-ostakaka
100 g heslihnetur
175 g heilhveitikex
80 g smjör
400 g rjómaostur
400 g Nutella (má vera nýkeypt)
snilld! ætla samt að nota skyr í staðinn fyrir rjómaost…og haframjölsbotn, heimagerðan 🙂 Svo má líka snúa þessu við, nota súkkulaðikex en hnetusmjör í staðinn fyrir nútella. VEI! Takk Nanna, þú kemur manni af stað.