Hluti afkomenda minna er hættur að borða sykur, það er að segja viðbættan sykur í hvaða formi sem er – náttúrulegur sykur í mat er í góðu lagi – og það er náttúrlega bara hið besta mál. Sykur er náttúrlega bölvaður óþverri og oft óþarfur með öllu. Sjálf er ég reyndar ekkert á leiðinni að kötta hann alveg út en nota þó örugglega mun minni sykur en margir aðrir – ég hef aldrei verið hrifin af dísætum kökum og baka til dæmis sjaldan marens. Og þegar ég styðst við kökuuppskriftir – ég tala nú ekki um amerískar uppskriftir – er ég vön að skera sykurmagnið hressilega niður. Og nota aldrei sykur í t.d. uppstúf, kartöflustöppu eða þess háttar. Um að gera að venja sig hægt og rólega af sætabragðinu – og helst ekki með því að nota önnur sætuefni í staðinn fyrir sykur, heldur bara að þjálfa bragðlaukana upp á nýtt …
Sykurleysi skiptir annars afskaplega litlu máli í allri venjulegri matargerð og ef er smávegis sykur, hunang eða annað sætt í réttinum er oftar en ekki hægt að sleppa því einfaldlega. Auðvitað eru undantekningar og ég er voða hrædd um að barnabarn númer eitt fái engar brúnaðar kartöflur (sem hún elskar út af lífinu) með jólasteikinni næst ef hún heldur enn fast við sykurleysið.
En ávextir eru til allrar hamingju í lagi og líka hreint ávaxtamauk án viðbætts sykurs. Og ég átti þrjár flöskur af Froosh smoothie. Eina hindberja og bláberka, eina ananas, banana og kókos og eina mangó, goji-berja og acerola-berja – þetta eru hvorttveggja ofurber sem ég man ekkert hvort hafa íslenskt heiti. Já, við vitum vel að það er ekki ósætt og þess vegna dettur mér ekki í hug að kalla ísinn sem ég bjó til um helgina ósætan. En þetta var ágætis ís samt …
Og afskaplega einfaldur, aðeins þrjú hráefni í hvorri bragðtegund um sig. En það þarf eiginlega helst að hafa ísvél. Ef hún er ekki til mæli ég með að nota eggjarauður en ekki heil egg, 4 í hvorn skammt, og heldur meiri rjóma.
Ég byrjaði á ofurberjaísnum. Braut tvö egg í skál og þeytti þau mjög vel, þar til komin var ljós froða. Svo stífþeytti ég 250 ml af rjóma – það er reyndar fyrir báða helmingana af ísnum, mér fannst þægilega að gera það í einu lagi. Ég hafði reyndar ætlað að hafa aðeins meiri rjóma, svona 400 ml, því ég átti rjómaskvettu í annarri fernu, en hún hafði verið opin í ísskápnum og það var svolítið reykjarbragð af rjómanum eftir eldsvoðann í ísskápnum daginn áður, svo ég ákvað að reyktur ís væri ekki alveg að gera sig og lét 250 ml nægja.
Svo setti ég helminginn af rjómanum út í eggjahræruna og blandaði gætilega saman með sleikju – þetta þarf alls ekki að vera slétt því það er hvort eð er að fara í ísvél þar sem það hrærist allt saman. Ég setti ísvélina af stað og hellti blöndunni í hana.
Þegar vélin var búin að ganga í nokkrar mínútur hellti ég 200 ml af ofurberja-smúðíinum smátt og smátt út í.
Og svo lét ég vélina ganga þar til ísblandan var orðin þykk – það tók svona 15 mínútur.
Ég setti svo ísblönduna í form – hún má ekki nema hálffylla formið í mesta lagi, það þarf að vera pláss fyrir meiri ís. Ástæðan til þess að ég nota tvö form er að það innra (mynstraða) er svo mjúkt og eftirgefanlegt að það er ekki víst að það haldi nógu vel lagi, þess venga hef ég það ofan í öðru stífara formi á meðan ísinn er að frjósa. – Það sem sýnist vera kekkir er bara harðfrosinn ís sem ég skóf af bontinum á ísvélinni, hann samlagast hinu alveg og það verða engir kekkir í ísnum.
Ég setti formið svo í frysti, skolaði ísvélina og bjó til annan skammt alveg eins, nema ég notaði ananas-banana-kókos-maukið, 200 ml.
Þegar seinni blandan hafði þykknað tók ég ísformið út, hellti ananas-banana-kókosblöndunni yfir, sléttaði og setti aftur í frysti í svona 2 klst.
Á meðan gerði ég íssósu úr þriðju flöskunni, hindberja-bláberja-maukinu. Ég setti svona 125 g af frosnum hindberjum í pott, hellti 200 ml úr flöskunni yfir og hitaði rólega þar til hindberin höfðu þiðnað og allt var heitt í gegn (ekki sjóðheitt þó).
Þetta er nú í sjálfu sér alveg nóg en ég vildi hafa sósuna aðeins þykkari svo ég hafði lagt eitt matarlímsblað í bleyti í köldu vatni í nokkrar mínútur og nú tók ég pottinn af hitanum og hrærði matarlíminu saman við. Matarlím bráðnar við innan við 35°C svo það þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af kekkjum þegar það er sett út í heitan vökva. Svo hellti ég sósunni í könnu og lét hana kólna – mér finnst best að hafa hana við stofuhita.
Nokkru áður en ísinn fór á borðið losaði ég hann úr forminu (það er nú ansi þægilegt að nota silíkonform), hvolfdi honum á fat og hellti svolitlu af sósunni í kring en bar hitt fram með.
Þetta var nú bara þokkalegasti ís þrátt fyrir sykurleysið …
Ávaxtarjómaís
4 egg
250 ml rjómi (mætti vera heldur meira)
200 + 200 ml af einhverjum tveimur tegundum af Froosh smoothie (eða sambærilegu ávaxtamauki)
Íssósa
125 g frosin hindber
200 ml hindberja-og bláberja-smoothie
1 matarlímsblað