Mig langaði í hádegissnarl/bröns áðan. Samt ekki amerískar lummur, beikon, spælegg og hlynsíróp og svoleiðis. Enda er ég í kjöteldunarpásu (ég borða það alveg en elda ekki sjálf) sem mun nú samt örugglega ekki endast út alla lönguföstuna og steiking á beikoni fellur jú undir matreiðslu á kjöti. Og ég var heldur ekki í skapi fyrir slíkar trakteringar núna.
Aftur á móti átti ég ágæta spænska hráskinku sem þurfti ekkert að elda. Tilvalið að narta í hana. Eða aðeins meira en narta, kannski. Og í staðinn fyrir lummurnar ákvað ég að gera eins konar pönnuskonsur. Sem eru auðvitað næstum alveg eins og amerískar lummur/pönnukökur en samt ekki.
Það er engin mynd af deiginu og hlutföllin eru ekki alveg nákvæm kannski, enda mældi ég svosem ekkert – en þau skipta heldur ekki höfuðmáli. Nei, aðalatriðið í þessum samsetningi eru hringmótin sem ég nota þegar ég steiki skonsurnar – þetta eru svona háir málmhringir eins og kokkar og þeir sem hafa gaman af fansí matreiðslu nota mikið við að móta eitt og annað. Til dæmis ef maður ætlar að bera hrísgrjónin fram í flottum turnum á diskunum eða eitthvað svoleiðis. Ég á nokkra svona hringi en nota þá sjaldan í þessum tilgangi, mun oftar í eitthvað eins og þessar skonsur. Eða til að fá spæleggin alveg kringlótt þegar ég er í skapi fyrir kringlótt spælegg. Eða eitthvað ámóta.
En allavega, ég veit að það eiga ekki allir svona hringi en það mætti líka nota einn stærri (t.d. utan af litlu smellumóti) og gera stóra skonsu – eða baka deigið einfaldlega á lítilli pönnu. Aðalatriðið er bara að formið/pannan þarf að vera það lítið um sig að skonsan verði þykk.
En í deigið notaði ég semsagt 2 egg, 2 msk af olíu, 4 msk af vatni, 1 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af salti og – ja, eins mikið hveiti og ég þurfti til að búa til þykkfljótandi soppu. 100 g kannski? Allavega, maður heldur bara áfram að bæta við hveiti þar til þykktin er hæfileg og ef maður setur óvart aðeins og mikið má bara bæta við smávegis köldu vatni. Það er engin mjólk í skonsunum en það má nota mjólk í staðinn fyrir vatn og svo má nota allt að helmingi meiri olíu ef manni sýnist svo. Eða bráðið smjör.
Ég hitaði svo 1 msk af oliu til viðbótar á þykkbotna pönnu, setti þrjá hringi á hana (eða fjóra, fer eftir hvað skonsurnar eiga að vera þykkar, ég vil hafa þær minnst 2 cm þykkar), skipti soppunni jafnt á milli þeirra og steikti skonsurnar við vægan hita í nokkrar mínútur.
Þegar ég sá að skonurnar voru aðeins farnar að þorna og stífna út við barmana var kominn tími til að snúa þeim við. Ég renndi hnífsblaði meðfram hringjunum innanverðum (reyndar voru skonsurnar ekki fastar við en það er samt vissara, lyfti hringjunum og fjarlægði þá. Eins og sjá má var soppan orðin það mikið bökuð að skonsunar héldu alveg lagi þótt miðjan væri enn þykkfljótandi.
Ég sneri þeim svo og steikti smástund á hinni hliðinni, þó mun skemur en á þeirri fyrri. Tók ekki tímann en þær voru kannski 5 mínútur á fyrri hlið, 2 á hinni.
Setti svo heitar skonsurnar á disk með spænsku hráskinkunni, salatblöðum, klettasalati, vel þroskuðum tómötum og papriku. Smurði skonsurnar með smjöri. Ekkert síróp.
Þetta var nú ekkert slæmur bröns. Og töluvert léttari en pönnuköku/beikon/eggja/hlynsírópsbröns. Sem ég þarf þó örugglega að gera næst þegar Úlfur kemur að gista (nema hann gæti þurft að steikja beikonið sjálfur).
Svo má líka bara smyrja skonsurnar og borða þær með áleggi.
Skonsur
2 egg
2 msk olía (og meira til steikingar)
4 msk vatn
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
hveiti eftir þörfum