Ég veit ekki enn hvað ég geri með lönguföstuna en ég er allavega búin að ákveða að hún gildir bara um það sem ég elda sjálf. Ekki þegar mér er boðið út að borða og svona …
En allavega, eins og ég nefndi er ég að reyna að minnka aðeins innihald frystiskápsins og núna ákvað ég að nota nokkrar risarækjur sem ég átti þar. Og mér datt í hug að nota þær í pastarétt. Spaghettírétt nánar til tekið. Eitthvað einfalt en gott, þar sem pastað og rækjurnar væru aðalatriðið. Ég er mest fyrir slíka rétti, er ekkert sérlega hrifin af ,,pastaréttum“ þar sem pastað virðist nánar í aukahlutverki. En þá þarf líka að sjóða það almennilega svo það verði ekki bara uppfylling.
Best er að nota stóran pott og mikið vatn. Það er hægt að nota minni pott og minna vatn en þá þarf að hræra mun meira í pastanu og fylgjast betur með því svo það loði ekki saman.
Æjá. Ég komst að því fyrir löngu að mjög margir trúa því að með því að hella olíu út í pottinn – sumir segja matskeið, sumir segja ,,vænum slurk“ – megi koma í veg fyrir að pastað loði saman. Ég geri þetta aldrei og hef ekki lent í að pastað loði saman hjá mér. Ekki síðustu áratugina allavega. Ég hef séð í matreiðslubókum ráðleggingar um að nota ólífuolíu og jafnvel jómfrúarolíu til þess arna.
Sko.
Ég lærði í grunnskóla að vatn og olía blönduðust ekki saman. Sem er alveg rétt. Olían flýtur bara ofan á. Ekki kannski í sléttu lagi því vatnið er (eða á að vera) bullsjóðandi og það er hreyfing á olíunni – en hún blandast ekki saman við vatnið á meðan og kemur ekkert í veg fyrir að pastað loði saman. Þegar maður hellir svo pastanu í sigti þegar það er soðið fer mestöll olían í vaskinn í bókstaflegri merkingu (þess vegna er lítið vit í að nota dýra og fína olíu ef maður er með olíu á annað borð) – en eitthvað af henni situr á pastanu og getur orðið til þess að það tekur síður við pastasósunni og verður bragðminna fyrir vikið. Sem er verra.
Það er auðvelt að koma í veg fyrir að pastað loði saman með öðrum ráðum. Nota mikið vatn, hafa það bullsjóðandi og saltað þegar pastað fer í pottinn og hræra öðru hverju fyrstu 2-3 mínúturnar. Það er þá sem sterkjan kemur út á yfirborðið á pastanu og það getur límst saman. En þegar suðan er komin upp og pastað er bullsjóðandi á hreyfingin á því að duga til að skola sterkjuna af að mestu og koma í veg fyrir að pastað loði saman. Það á semsagt ekki að láta pastað malla, það á að vera bullsjóðandi allan tímann. Það á ekki að vera lok á pottinum, nema kannski rétt á meðan suðan er að koma upp aftur.
Ég salta vatnið nokkuð ríflega en það er smekksatriði. Pastað verður bragðmeira fyrir vikið.
Það er um að gera að lesa suðuleiðbeiningarnar á pakkanum (suðutími getur verið misjafn efti vörumerkjum) og taka tímann. Og best að smakka eða prófa pastað að minnsta kosti mínútu áður en maður heldur að það sé tilbúið. Þegar það er hæfilega soðið – eða rétt tæplega það – er því svo hellt í sigti (ég tek oft smávegis soð frá áður ef ég skyldi vilja þynna sósuna), hvolfi pastanu í sigti og læt renna af því snöggvast og svo hvolfi ég því oftast út í sósuna – eða í skál og hvolfi sósunni yfir. Sjóðheitt pasta og sjóðheit sósa blandast best og pastað drekkur sósuna í sig.
Ég læt aldrei kalt vatn buna á pastað nema ef ég ætla að nota það kalt í pastasalat, þá helli ég því í sigti og sting því undir bununa úr heita krananum. Þannig skolast sterkjan af pastanu og það loðir ekki saman. (Þetta má reyndar líka gera ef pastað skyldi þurfa að bíða lengi eftir að sósan sé til, svo má hita það aftur upp í sósunni.)
Allavega: Ég hitaði vatn í potti, saltaði það og setti allt spaghettíið úr spaghettíkrukkunni (sem var hæfilegur skammtur fyrir 1-2) út í þegar vatnið var farið að sjóða vel. Hrærði og sauð það í – æi, 10 mínútur, held ég.
Ég tók svona 12 risarækjur í skel (þær eru mjög fljótar að þiðna ef pokinn með þeim er settur í vatn sem er ekki alveg ískalt en ekki beint volgt), 2 mjög vel þroskaða plómutómata, 2 hvítlauksgeira, lófafylli af basilíku og aðra af klettasalati, 1 sítrónu (notaði bara safann), 2 1/2 msk af ólífuolíu, dálitla klípu af chili-flögum, pipar og salt.
Ég skelfletti rækjurnar og saxaði hvítlaukinn smátt go tómatana gróft. Svo hitaði ég helminginn af ólífuolíunni vel á pönnu.
Ég steikti rækjurnar við háan hita í svona mínútu (hrærði á meðan) og svo setti ég hvítlaukinn, tómatana, chili-flögurnar, piparinn og saltið á pönnuna og steikti áfram í 1-2 mínútur.
Á meðan saxaði ég basilíkuna og klettasalatið gróft og henti á pönnuna. Kreisti svo safann úr sítrónunni yfir, hrærði vel og lét sjóða í 1 mínútu.
Þá slökkti ég undir rækjunum og í sama bili var pastað tilbúið. Ég hvolfdi því í sigti og síðan beint á rækjupönnuna, blandaði vel, hellti afganginum af ólífuolíunni yfir og hellti svo öllu saman á fat.
Þetta er nú pínulítið sumarlegur réttur. En það var jú sól í dag, allavega hér í höfuðborginni.
Alveg ljómandi gott bara.
Já, og ég brýt ekki spaghettíið áður en ég set það í pottinn …
Ég notaði væna klípu af chili-flögum og það var töluvert ,,bit“ í þessu. En auðvitað má nota minna.
Rækjupasta
spaghettí
salt
12 risarækjur
2 1/2 msk ólífuolía
2 vel þroskaðir tómatar
2 hvítlauksgeirar
1 sítróna (safinn)
lófafylli af basilíku
lófafylli af klettasalati
chili-flögur
pipar
salt
Sæl Nanna!
Fyrst vil ég byrja á að þakka þér fyrir að halda úti skemmtilegu bloggi. Þetta með olíuna í pastavatnið er eitthvað sem ég hef gert í algjöru hugsunarleysi og sé núna að er greinilega tóm vitleysa. Best að spara olíuna í eitthvað þarfara.
Svo vil ég, í mestu vinsemd, benda á að risarækjur eru einn óvistvænasti matur sem hægt er að borða. Ræktun hennar eyðileggur heilu vistkerfin og því miður hefur ekki enn fundist leið til að rækta hana í sátt og samlyndi við menn og náttúru. Meira um það má lesa til dæmis hér. http://blogg.naturskyddsforeningen.se/redaktionen/2011/08/23/antiscampi/
Ég vona að þú takir þessari ábendingu ekki illa. Við sem elskum risarækjur getum huggað okkur við að íslenski humarinn, nú eða bara venjulegar flottar rækjur, er sem betur fer ágætis staðgengill.
Æ, ég veit, þetta er eins og með kínóað. Eða verra. Árans vandræði að rækjueldi Orkuveitunnar skyldi ekki takast betur. Annars er hvítleggjaða rækjan vannamei (fæst líka hérlendis) víst enn verri hvað þetta varðar – eða það er mun meira alið af henni – en það er nú bitamunur en ekki fjár.
Ef það væri bara ekki svona fjandi erfitt að fá almennilegar hráar stórar íslenskar kaldsjávarrækjur. Eða grænlenskar. Og ef rækjurnar væru ekki svona góðar …
En auðvitað má nota humar. En ekki soðnar rækjur. Eða ég get það allavega ekki. Það er allt annar matur.
Það er þetta með sterkjuna utan á pastanu. Hann Massimo sem leigði okkur hjónunum einu sinni sumaríbúð í pínulitlu þorpi í Toscana sagðist alltaf brytja svosem eins og 2-3 kartöflur út í pottinn þegar hann sauð pasta og ætlaði að hafa pestó út á, einmitt svo sterkjan í kartöflunum legðist utan á pastað og pestóið myndi loða betur við. Síðan geri ég þetta alltaf og aldrei klessist pastað saman. Spandera aldrei olíu út í suðuvatnið.
[…] Ég byrjaði á að hita vatn (svona 3 lítra) í stórum potti og salta. Setti svo 350-400 g af tagliatelle út í, lét suðuna koma upp aftur og lét svo pastað sjóða án loks í 10 mínútur (eða eftir leiðbeiningum á umbúðum. Suðan ætti að vera nokkuð rösk eða allavega stöðug, þetta á ekki að malla. Og nei, það á ekki að setja olíu út í. […]