Ég eldaði náttúrlega saltkjöt og baunir áðan og það vænan skammt, enda var fjölskyldan í mat. En ég ætla nú ekkert að skrifa um það, hef gert það áður og var ekki að gera neitt nýstárlegt. Er þó alveg til í að gera það en kannski ekki á sprengidaginn. Þá fyrst yrði nú kvartað.
Í staðinn fyrir saltið kemur hér sætmeti. Eða eiginlega súr-sætmeti. Ég er eitthvað að reyna að rýma til í frystiskápnum – reyndar er ég að bíða eftir að það komi almennilegt frost svo ég geti tekið allt úr honum og sett út á svalir og endurraðað þegar ég er búin að affrysta, þá uppgötva ég örugglega eitt og annað sem ég var búin að gleyma – en á dögunum tók ég rabarbara sem ég vissi reyndar alveg af og gerði rabarbara- og epla-mylsnuböku.
Mylsnubaka eða crumble er ensk að uppruna og er í rauninni viðsnúin ávaxtabaka – í venjulegri böku er deigskelin undir og er fyllt af ávöxtum eða ávaxtamauki, í mylsnuböku eru ávextirnir settir í formið og deigið mulið yfir. Það er mun auðveldara að gera mylsnuböku en venjulega böku; deigið þarf ekki að loða saman, það þarf ekki að fletja það út, leggja það yfir formið og forbaka skelina. Það er reyndar erfiðara að skera flottar sneiðar af mylsnuböku og oftast er þeim bara mokað á diskana með skeið. En þær eru ekki verri fyrir það, sannarlega ekki.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 190°C og svo tók ég 500 g af frosnum, niðurskornum rabarbara og setti beint í pott. Bætti við 5 msk (3/4 dl) af púðursykri og lét þetta sjóða smástund, eða bara rétt þar til rabarbarinn var þiðnaður og fullt af safa hafði runnið úr honum.
Á meðan tók ég tvö epli (ég var með Jonagold en ekki þessi stóru), flysjaði þau, kjarnhreinsaði og skar hvort um sig í 16 geira.
Svo hellti ég mestöllum vökvanum af rabarbaranum – þetta urðu svona 250 ml. Ekki henda því …
Svo hrærði ég 2 msk af hveiti, 1/2 tsk af kanel, 1/2 tsk af kardimommudufti (má sleppa og bæta þá e.t.v. við ögn meiri kanel), 3 msk af hlynsírópi og eplunum saman við.
Hveitið er til að þykkja fyllinguna, þar sem rabarbarinn á eftir að skila frá sér meiri safa og eplin líka. Ef ekki er sett hveiti eða annað þykkingarefni gæti fyllingin orðið of blaut.
Ég hellti þessu í smurt form og lét bíða á meðan ég gerði deigið (það má líka gera það áður og geyma í kæli).
Ég setti 200 g af hveiti og 3 msk af sykri í skál og skar 125 g af köldu smjöri í litla bita og muldi saman við með fingrunum. Jújú, það er hægt að nota matvinnsluvél en í þessu tilviki er mun betra að nota hendurnar. Bætti svo við 2-3 msk af möndluflögum og muldi saman við.
Mylsnan þarf ekkert að vera jöfn og fín og mér finnst reyndar koma betur út að hafa dálítið af klumpum og smjörbitum í henni.
Svo stráði ég mylsnunni jafnt yfir ávextina í forminu, stráði 1 msk af möndluflögum í viðbót yfir og bakaði þetta á næstneðstu rim í um 25 mínútur, eða þar til mylsnuþekjan var stökk og hafði tekið góðan lit.
Á meðan gerði ég sósu úr rabarbarasafanum sem ég hafði hellt af: Setti hann í pott og hitaði að suðu, hrærði 1 msk af maíssterkju (maizenamjöli) i út í svolitlu köldu vatni og hrærði saman við. Lét malla þar til sósan þykknaði og lét hana svo kólna.
Játning: Vanillusósan í hinni könnunni er ekki heimatilbúin – það er ekki mikið mál að gera hana en það vildi svo til að ég átti sósu í fernu og ákvað að lát hana duga.
Og svo er bara að stinga skeiðinni til botns, lyfta upp vænum skammti af bökunni og setja á disl.
Rabarbarasósa og vanillusósa með, gott kaffi í bolla … Tilvalinn eftirréttur eða bara þegar mann langar í eitthvað gott.