Ekki rjómabollur, heldur ufsabollur

Það var reyndar boðið upp á rjómabollur í vinnunni í dag en ef svo hefði ekki verið hefðu einu bollurnar sem ég hefði komið nálægt verið fiskibollur. Allt sem ég bakaði í gær er búið og ekki er ég að fara að baka meira, svo mikið er víst.

Ég ætla ekki að skoða neinar mýtur í dag – og þó: Ég hef reyndar orðið vör við ákveðinn misskilning hjá sumum og kem aðeins inn á hann núna á eftir.

Allavega, ég var búin að ákveða í gær að hafa fiskibollur í dag og þegar ég leitaði í frystinum varð fyrir mér gleymdur pakki með þremur smáufsaflökum sem mágur minn gaf mér eftir að hann fór í sjóstangaveiðiferð með sonunum í fyrrasumar. Reyndar fann ég annan pakka líka sem ég þarf að nota á næstunni en þessi dugði mér alveg.

Ufsi hentar einmitt alveg ljómandi vel í bollur en það má nota ýmsan annan fisk, til dæmis bara ýsu. Ég var svosem ekkert búin að ákveða hvernig ég ætlaði að krydda og framreiða bollurnar en svo var verið að tala um karrí og indverskt krydd í bollukaffinu í vinnunni (forleggjarinn var að koma úr fríi á Indlandi) og ég ákvað að hafa bollur með hrísgrjónum og karríi.

IMG_2384

 

Ufsaflökin voru samtals um 300 g þegar ég var búin að roðfletta þau og hreinsa. Í bollurnar notaði ég líka 1 lítinn lauk, 1 vænan vorlauk,1 lítinn hvítlauksgeira, börk af 1 sítrónu, 1 egg, 1 msk ólífuolíu, 2 msk maíssterkju (hvítt maísmjöl), salt og pipar.

IMG_2387

 

Ég byrjaði á að setja upp hrísgrjón til suðu. Svo skar ég fisk, lauk, hvíta og ljósgræna hlutann af vorlauknum og hvítlaukinn í bita og setti í matvinnsluvélina, reif börkinn af sítrónunni yfir og lét vélina svo ganga þar til allt var vel maukað saman.

IMG_2390

 

Svo setti ég egg, olíu, maíssterkju, pipar, salt og helminginn af grænu vorlauksblöðunum út í og blandaði þessu saman við – notaði púlshnappinn á vélinni.

IMG_2392

 

Ég hitaði svona 3 msk af olíu á pönnu, mótaði frekar litlar bollur með lítilli matskeið og setti þær á pönnuna. Hafði þær frekar þétt því ég vildi ekki þurfa að færa þær til strax, þar sem farsið er frekar blautt og lint í sér festast þær strax við botninn og fara í sundur ef maður reynir að hreyfa við þeim.

Og þá er ég komið að misskilningnum eða mýtunni sem ég minntist á: Ég hef orðið vör við að margir halda að þegar maður steikir eða grillar kjöt eða fisk eða annað sem hættir til að festast við pönnuna eða grillristina eigi maður strax að fara að hreyfa við þessu svo að það festist ekki og losa það ef það festist. En það er einmitt röng aðferð. Hráefnið festist strax og það snertir pönnuna eða grindina ef það festist á annað borð og það losnar yfirleitt aftur af sjálfu sér þegar það er búið að brúnast. Þess vegna á bara að láta bollurnar óhreyfðar þar til þær eru ekki lengur fastar við pönnuna – og þá er einmitt kominn tími til að snúa þeim.

IMG_2398

 

Og jafnvel þótt bollurnar festist ekkert við, þá er farsið það lint og sundurlaust að það borgar sig að hreyfa sem minnst við þeim, nema bara rétt til að snúa þeim. Ég steikti þær við ríflega meðalhita á þremur hliðum, í 2-3 mínútur á hverri hlið.

IMG_2400

 

Á meðan gerði ég karrísósuna í litlum potti: Bræddi 2 msk af smjöri og lét það reyndar brúnast ögn (en ekki brenna), þess vegna er sósan svona dökk. Hrærði svo 2 msk af hveiti og 2 tsk af karrídufti (eða eftir smekk) saman við og lét krauma í hálfa til eina mínútu. Þá hellti ég 300 ml af vatni saman við smátt og smátt og bakaði sósuna upp. Hrærði 2 tsk af fiskikrafti saman við, smakkaði og kryddaði með ögn af pipar og salti og lét sósuna malla í 5 mínútur.

IMG_2412

 

Ég setti svo fiskibollurnar í skál, hellti sósunni yfir, stráði söxuðum vorlauk yfir allt saman og bar fram með hrísgrjónunum.

IMG_2432Ég er satt að segja orðin hundleið á rjómabollum, alveg þangað til á næsta ári. Fiskibollurnar voru mun betri.

 

Ufsabollur í karrísósu

300 g ufsi (eða annar fiskur), roð- og beinhreinsaður

1 lítill laukur

1-2 vorlaukar

1 egg

rifinn börkur af 1 sítrónu

1 hvítlauksgeiri

1 msk ólífuolía

2 msk maíssterkja

salt

pipar

3 msk olía til steikingar

 

Karrísósa:

2 msk smjör

2 msk hveiti

2 tsk karríduft, eða eftir smekk

300 ml vatn

2 tsk fiskikraftur

pipar

salt

 

2 comments

  1. Já, það ætti að vera óhætt, nema ég mundi líklega byrja á að nota bara eitt egg en ekki tvö og athuga hvort það dugir ekki til að halda bollunum saman (það má alltaf bæta við ef farsið er of þurrt).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s