Ég veit að það eru allir búnir að baka bollurnar sínar …

Sjálfsagt eru allir búnir að baka bollur þótt bolludagurinn sé ekki fyrr en á morgun. En ég ætla nú samt að setja hér inn nokkrar myndir af bollunum sem ég bakaði í dag. Óskreyttum reyndar, því ég tók engar myndir á meðan ég var að skreyta og þegar tími hefði gefist til að mynda bollurnar voru þær allar búnar … Ég set inn í staðinn mynd af bollunum í fyrra eða hitteðfyrra, það verða nú yfirleitt ekki mjög miklar breytingar frá ári til árs. Hefðirnar sko …

Ég baka alltaf bæði gerbollur og vatnsdeigsbollur; hluti fjölskyldunnar vill mun fremur gerbollur, aðrir vatnsdeigsbollur. Og ég byrjaði á gerbollunum, enda þurfa þær tíma til að lyfta sér.

IMG_2364

 

Ég bræddi 75 g af smjöri við vægan hita og þegar það var bráðið hellti ég 250 ml af mjólk í pottinn og hitaði. Hellti þessu svo í hrærivélarskálina og bætti við 250 ml af vatni og athugaði hitastigið. Það ætti að vera sem næst 37-40°C, ef það er hærra lætur maður þetta bara bíða aðeins. Svo stráði ég 1 msk af sykri og 1 msk af þurrgeri yfir og lét bíða í svona 5 mínútur. Þá blandaði ég 2 msk af sykri, 3/4 tsk af salti og góðum slatta af hveiti saman við  og hrærði vel, bætti við meira hveiti og hnoðaði deigið í vélinni. Ég veit ekki hvert hveitimagnið var, hélt bara áfram að bæta við þar til ég var komin með slétt og lint deig sem þó klesstist ekkert að ráði við hendurnar.

Ég breiddi svo viskastykki yfir skálina og lét deigið standa í rúman klukkutíma. Eins og sjá má lyfti það sér vel; það má sjá mynstrið á viskastykkinu á yfirborði deigsins af því að það lyfti sér alveg upp að skálarbörmum.

IMG_2325

 

Ég hnoðaði deigið aðeins til að athuga hve þétt það væri – ef það er engin leið að hnoða það án þess að það klessist mikið við hendurnar má hnoða svolitlu hveiti upp í það, en það á að vera eins lint og hægt er að hafa það. Ég skipti því svo í 24 bita og hnoðaði hvern um sig í litla, kringlótta bollu (það er gott að dýfa höndunum í hveiti af og til).

IMG_2326

 

Ég raðaði bollunum á tvær plötur og flatti þær aðeins út með fingrunum. Svo breiddi ég viskastykki yfir og lét þær lyfta sér í um hálftíma. Á meðan hitaði ég ofninn í 200°C. Svo penslaði ég bollurnar með mjólk, setti þær í ofninn á næstneðstu rim og bakaði þær í 12 mínútur.

IMG_2335

 

Fallega gullinbrúnar og mjúkar bollur. Ég lét þær kólna á grind svo hægt væri að setja á þær.

IMG_2338

 

Þá var komið að vatnsdeigsbollunum. Ég setti 250 ml af vatni og 80 g af smjöri í pott og hitaði.

IMG_2341

 

Hitinn þarf að vera fremur vægur á meðan smjörið er að bráðna, það skiptir máli að blandan sjóði ekki fyrr en smjörið er bráðið. Og það á ekki að láta þetta sjóða neitt; um leið og suðan kom upp slökkti ég undir pottinum …

IMG_2343

 

… og sturtaði 125 g af hveiti út í. Ég blanda oftast ögn af sykri og salti saman við (1-2 tsk af sykri og salt á hnífsoddi) en það er ekkert nauðsynlegt. En það skiptir máli að byrja að hræra um leið og hveitið er komið út í og hræra rösklega, þar til deigið er allt komið saman og loðir ekki við pottinn. Hveitið og heitt vatnið samlagast mjög hratt og ef hveitið er ekki allt sett út í samtímis eða ef maður er ekki nógu duglegur að hræra er hætt við að deigið verði ójafnt.

IMG_2348

 

En það skiptir nú kannski minna máli af því að ég nota alltaf hrærivélina til að þeyta eggjunum saman við. Og ég læt deigið ekki bíða neitt – það sem skiptir máli er að deigið sé ekki heitara en 60°C þegar fyrsta eggið fer út í. Hjá mér allavega dugir kælingin sem fæst við að hræra hveitinu saman við í pottinum og svo aftur að setja deigið í hrærivélarskálina og setja þeytarann af stað. En það má prófa þetta með puttanum.

Ég brýt svo eggin í bolla, eitt í einu, og þeyti þeim saman við deigið. Algengt er að uppskriftir segi 3-4 egg og þetta fer aðallega eftir stærð eggjanna. Ég nota stór egg og mér duga alltaf þrjú. – Í gömlum uppskriftum sýnist mér oftar talað um 4 egg fyrir álíka magn af deigi og hér er en egg voru oft minni hér áður fyrr. En aðeins meira um eggin hér fyrir neðan.

IMG_2361

 

Svona á deigið að vera – slétt og gljáandi en það stíft að það haldi vel lögun.

Það þarf að hræra deigið nokkuð vel, sérstaklega ef það er hrært með sleif, og til þess eru tvær ástæður. Annars vegar þarf að hræra lofti inn í það því að lyftingin í bollunum verður til við það að loftið og vatnið í þeim breytist í gufu og þenst út í hitanum. Og hins vegar þarf að virkja glútenið’ í hveitinu og gera það teygjanlegt svo að það myndi ásamt próteinunum í egginu skelina sem lokar gufuna inni í bollunni og kemur í veg fyrir að hún sleppi út jafnóðum og bollan falli.

Ef of lítið er af eggjum í deiginu verður harða skelin utan á bollunni þunn og loftið sleppur auðveldlega úr henni og bollan fellur. Ef of mikið er af eggjum verður skelin of stíf og hörð og bollan lyftir sér ekki nóg. (Það eru auðvitað fleiri þættir sem hafa áhrif á þetta.)

IMG_2354

 

Úr þessu verða 12-16 bollur. Ég sprauta deiginu á plötuna en það má auðvitað líka nota matskeið. Ég baka svo bollurnar á næstneðstu rim við 190°C í svona 22-25 mínútur. Þessa stærð allavega.

IMG_2358

 

Það er gott að taka fyrst út eina bollu en skilja hinar eftir í ofninum; ef þær eru ekki fullbakaðar ætti prufubollan að byrja mjög fljótt að falla. Það gerði þessi ekki.

IMG_2368

 

Þarna eru vatnsdeigsbollurnar og helmingurinn af gerbollunum. Þetta urðu svona 80 bollur í allt. Give or take.

IMG_0018

 

Þetta eru reyndar bollurnar í fyrra eða hitteðfyrra en það er ekki mikill munur milli ára svona yfirleitt.

Það er næstum ekkert eftir.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s