Datt mér ekki bankabygg í hug …

Sko, ég elda nú ekki bara góðan mat með vafasamt hollustugildi, eins og djúpsteikta kjúklinga og beikonsamlokur (það getur samt verið að ég geri beikonsamlokur oftar á næstunni því ég var að fjárfesta í forláta beikonpressu) og bakkelsi og svoleiðis. Ég á það alveg til að elda mun hollari rétti. Jafnvel grænmetisrétti.

Ég var meira að segja að pæla í að fara að gera eitthvað meira af svoleiðis og var með á prjónunum að koma með kínóauppskrift(ir) á næstunni – ekki af heilsufarsástæðum að vísu, heldur vegna þess að mér finnst gaman að prófa ný hráefni. Ég á reyndar kínóamatreiðslubók sem ég ætlaði að sækja einhverjar hugmyndir í og spinna út frá, en svo las ég þessa grein áðan og er steinhætt við það. Ég hef mun meiri samúð með fátæku bændafólki  í Bólivíu og Perú en Íslendingum sem halda að glúten sé af hinu illa (enda er ég í glútenvinafélaginu).

Svo að ekkert kínóa, heldur bygg frá Eymundi og Eygló í Vallanesi. Óþarfi að leita langt yfir skammt.

IMG_0671

 

Ég byrjaði á að mæla 200 ml af bankabyggi. Setti svo 600 ml af vatni í pott (yfirleitt er hæfilegt að nota þrefalt meira af vatni en byggi), hitaði að suðu, setti byggið út í ásamt 1 tsk af grænmetiskrafti og svolitlu salti (ekki miklu) . Ég lét þetta svo malla við hægan hita undir loki í um 45 mínútur. Þá ætti byggið að vera meyrt (gæti þó þurft fimm mínútur í viðbót eða svo) og hafa drukkið í sig mestallt vatnið; eða það gufað upp.

Ég sýð oftast meira bygg en ég ætla að nota því suðutíminn er það langur að það er hentugt. Það sem ég nota ekki geymi ég annaðhvort í ísskápnum og nota í eitthvað allt annað innan tveggja daga, eða ég frysti það.

IMG_0477

 

Ég ætlaði semsagt að búa til volgt byggsalat og tók það sem ég átti og ætlaði að nota til á meðan byggið sauð: Væna lúkufylli af íslensku spínati, vænan sítrónubát, hálfan lítinn rauðlauk, hálfa litla papriku, slatta af steinselju, svona tvær matskeiðar af graskersfræi og svona 75 g af fetaosti (ég notaði ekki allan bitann sem þarna sést). Og ólífuolíu og nýmalaðan svartan pipar.

IMG_0480

 

Ég skar stilkana af spínatinu (aldrei þessu vant var það einfalt mál þar sem blöðin voru nánast í knippi en ekki öll í einni hrúgu eins og oftast er) og grófsaxaði það og mestalla steinseljuna líka. Saxaði paprikuna og rauðlaukinn og blandaði þessu öllu (nema smávegis steinselju) saman í skál, ásamt graskersfræjum, safanum úr sítrónunni, svona 2 msk af ólífuolíu og kryddaði nokkuð vel með pipar.

Þegar byggið var soðið hellti ég því í sigti til að láta það litla vatn sem eftir var renna af því, tók helminginn frá til að kæla og geyma en hvolfdi hinu strax í aðra skál, muldi helminginn af fetaostinum og blandaði saman við sjóðheitt byggið. Ég lét rjúka úr því í fáeinar mínútur og blandaði svo spínatsalatinu saman við.

IMG_0482

 

Svo hellti ég þessu á disk, muldi afganginn af fetaostinum og stráði yfir og skreytti með því sem eftir var af steinseljunni.

IMG_0516 - Version 2

 

Með þessu hafði ég nýbakað stökkt flatbrauð (ofnbakað) og meiri pipar. Mér finnst þetta alveg ljómandi gott salat og um að gera að pipra það vel.

Salatið gengur líka alveg sem meðlæti, til dæmis með kjúklingi.

 

Byggsalat með spínati og fetaosti

100 ml bankabygg (ég sauð 200 ml en notaði bara helminginn)

1 tsk grænmetiskraftur

svolítið salt

væn lúka af spínati

steinselja

1 sítrónubátur

1/2 lítill rauðlaukur

1/2 lítil paprika

2 msk graskersfræ

75 g fetaostur

nýmalaður svartur pipar

 

4 comments

  1. Þetta er komið á matseðilinn fyrir næstu viku og mér líst svo vel á flatbrauðið, er uppskriftin að því nokkuð á lausu?

    • Ég hef allavega ekki sett hana á bloggið og kannski ekki skrifað hana niður. Skal leita á morgun og athuga hvort ég finn hana. En þetta er eitthvað mjög einfalt, líklega bara hveiti, ger og vatn, flatt mjög þunnt út og bakað við háan hita í fáeinar mínútur.

  2. Kærar þakkir, ég prófaði þetta í gær og hvort tveggja bragðaðist afar vel!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s