Ég sagði í gær að ég hefði fyllst löngun í vöfflur þegar ég var að lesa mér til um kjúkling með vöfflum og svo steikti ég mér vöfflur. En þessu fylgdi fleira, mig fór líka að langa einhver ósköp í steiktan kjúkling og ég lét það eftir mér líka. Og ég er ekkert að tala um ofn- eða pönnusteiktan kjúkling, neineinei. Heldur ekta fried chicken – djúpsteiktan kjúkling með knasandi hjúp. Sem er nú kannski ekki það sem fólk er almennt að pæla í svona um miðjan janúar … Samt er rétti tíminn til þess núna ef hann er einhverntíma. Skítakuldi, snjór og vetur og mann vantar eitthvað heitt til að sökkva tönnunum í.
Ég geri ekki mikið af því að djúpsteikja en það kemur þó fyrir og þá einna helst kjúkling af því að það grípur mig einhver undarleg löngun í steiktan kjúkling. Jújú, ég gæti alveg farið á KFC eða einhvern annan kjúklingastað en sá sem ég steiki sjálf er bara svo miklu miklu betri. Og örugglega hollari líka. Ég læt líka franskar og kokkteilsósu alveg eiga sig – það kemur fyrir að ég steiki franskar en yfirleitt ekki með djúpsteiktum mat, finnst það vera overkill, og kokkteisósa … neitakk.
Ég ætlaði reyndar að hafa sósu úr sýrðum rjóma og gráðaosti með en þegar til átti að taka átti ég hvorugt. Ég gerði tilraun með sósu úr AB-mjólk og fetaosti en var ekki nógu ánægð með hana svo það er engin uppskrift að sósunni.
Ég keypti kjúklingaleggi. En það er hægt að nota hvaða kjúklingabita sem er, oft nota ég heilan kjúkling sem ég hluta sundur, eða þá læri. Aðferðin er alltaf sú sama en stærri bita steiki ég kannski mínútu lengur og set þá svo í 100°C heitan ofn í nokkrar mínútur um leið og ég hef tekið þá upp úr olíunni.
En ég byrjaði á að hella slatta af AB-mjólk (eða súrmjólk eða jógúrt) á djúpan disk. Magnið skiptir ekki máli, þetta er bara til að velta kjúklingaleggjunum upp úr. Á annan disk setti ég svo 100 g af hveiti, 1/2 tsk af pipar, 1 tsk af salti, 1 1/2 tsk af paprikudufti, 1 tsk af kummini (má sleppa) og ögn af cayenne-pipar og blandaði vel saman.
Svo velti ég kjúklingaleggjunum – þeir voru átta alls – upp úr AB-mjólkinni og síðan upp úr hveitikryddblöndunni. Eða öllu heldur, ég setti þá á hveitidiskinn og jós yfir þá því ég vildi reyna að láta sem allra mest af hveitinu tolla á þeim. – Best er að bitarnir séu ekki kaldir beint úr ísskápnum, heldur hafi staðið nokkra stund á eldhúsbekknum.
Svo hellti ég einum lítra af Isio-olíu í pott og hitaði. Potturinn þarf að vera nægilega víður til að rúma alla kjúklingaleggina vel. Þessi er – tja, svona 24 cm í þvermál og maður gæti haldið að einn lítri af olíu væri ekki nóg. En það magn dugir vel.
Ég hitaði olíuna í svona 190-200°C – ef maður á ekki hitamæli má til dæmis setja brauðmola út í og ef feitin bullsýður í kringum hann er hún nógu heit. Þá setti ég kjúklingaleggina gætilega út í og svo lækkaði ég hitann töluvert – ekki alveg á minnsta loga en næstum því … Olían þarf að sjóða en má ekki hitna of mikið, þetta verður hver að finna út fyrir sig á sinni vél.
… og setti lokið á pottinn. Stillti eldavélarklukkuna á fimm mínútur og þegar hún pípti tók ég lokið af, sneri kjúklingaleggjunum, setti lokið aftur á og steikti í fimm mínútur í viðbót. Það þarf að fara svolítið varlega þegar bitunum er snúið, bæði til að maður brenni sig ekki eða skvetti olíu auðvitað, en líka til að hjúpurinn losni ekki utan af kjúklingnum.
Þá tók ég lokið af, hækkaði hitann undir pottinum og steikti í fimm mínútur á hærri hita. Stundum sný ég bitunum aftur í miðju kafi til að þeir brúnist alveg jafnt.
Svo tók ég bitana upp úr og lét renna af þeim á eldhúspappír. Ef þeir þurfa að bíða eitthvað er gott að vera búin að hita ofn í 100°C og geyma þá þar.
Svo setti ég leggina á fat með salatblöðum.
Það má auðvitað hafa ýmislegt með. Franskar jafnvel. En ég mæli með einhverri kryddsósu úr jógúrt eða sýrðum rjóma fremur en kokkteilsósu.
Þetta er nú eitthvað til að sökkva tönnunum í. Það gerði ég allavega …
Það mætti halda að kjúkingurinn – eða hjúpurinn allavega – drykki í sig olíu eins og svampur. En í rauninni gerist það ekki. Ég síaði olíuna og hellti henni aftur í flöskuna þegar hún var köld til nota síðar og eins og sjá má vantaði nú ekki mikið upp á. Ég mældi og það var rétt rúm matskeið sem hafði farið – og þá er meðtalið það sem eftir sat í pottinum og síunni og það sem ég subbaði niður þegar ég var að hella olíunni á milli.
Djúpsteiktur (eða eiginlega grunnsteiktur) kjúklingur
kjúklingabitar, t.d. 8 leggir
100-200 ml AB-mjólk, súrmjólk eða hrein jógúrt
100 g hveiti
1 tsk salt
1/2 tsk pipar
1 1/2 tsk paprikuduft
1 tsk kummin (má sleppa)
cayenne-pipar á hnífsoddi
1 l olía, eða eftir þörfum
Sæl, prófaði þetta í kvöld, Allir ánægðir.😊 Steikti 16 leggi og ég síaðii olíuna og setti hana í flöskuna það vantaði ekki mikið upppá að allt skilaði sér. Mæli með þessu takk fyrir😚
Gaman að heyra það. Svo er best að geyma olíuna á dimmum stað, helst köldum en það er þó mikilvægara að hann sé dimmur. Hún á alveg að duga í nokkur skipti en ef maður reiknar með að geyma hana í marga mánuði er best að setja hana í frysti.
[…] voðalega gott. Ég skoðaði allskonar uppskriftir og blogg varðandi að djúpsteikja kjúkling. Nanna Rögnvaldar og Læknirinn í eldhúsinu hafa bæði djúpsteikt kjúkling. Ég fór aðra leið en þau, ég […]
Er ekki alveg hægt að skella leggjunum í djúpsteikingarpott?
Jú, sjálfsagt er það nú hægt. Ég hef bara aldrei átt svoleiðis.