Belgískar vöfflur en ekki með kjúklingi

Mig er búið að langa í belgískar vöfflur um tíma og var að bíða eftir að einhver kæmi í heimsókn svo ég gæti látið það eftir mér. En svo kom enginn. En í gær var ég að lesa um hið undarlega bandaríska fyrirbæri Chicken and waffles og þá helltist yfir mig vöffluílöngun. Svo að ég ákvað að láta það bara samt eftir mér; gerði bara lítinn skammt (samt of stóran fyrir mig).

Kannski frysti ég þær sem voru afgangs. En svo mundi ég akkúrat þegar ég var að hella soppunni í síðustu vöffluna í járnið að ég hafði ætlað að láta reyna á það sem ég las einu sinni, að það væri hægt að geyma soppuna í nokkra daga í ísskáp og baka úr henni eftir hendinni. Ég hef aldrei geymt hana lengur en sólarhringi. Ojæja, ég hef þá afsökun fyrir að gera vöfflur aftur fljótlega. Allt í nafni matargerðarlistarinnar.

Alvöru belgískar vöfflur, sem heita að sjálfsögðu ekki belgískar vöfflur í Belgíu, heldur Brussel-vöfflur (Liege-vöfflur eru held ég algengari en þær eru svolítið öðruvísi). Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en mér er sagt að Belginn sem fór að bjóða upp á þær í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar hafi farið að kalla þær belgískar þegar hann áttaði sig á því að Bandaríkjamenn voru svo lélegir í landafræði að þeir höfðu almennt ekki hugmynd um hvar í heiminum Brussel var en vissu þó margir að Belgía er í Evrópu.

Í Belgíu eru – eða voru allavega – vöfflurnar alltaf gerðar úr gerdeigi en það sem einkennir þær samt helst er formið á vöfflujárninu, vöfflurnar eru ferkantaðar og holurnar eða hvað á að kalla það eru stærri og dýpri en í venjulegu vöfflujárni. Sjálfsagt má kalla allar vöfflur sem bakaðar eru í svona vöfflujárni belgískar vöfflur – það er að minnsta kosti gert í Bandaríkjunum – en mér finnst það eiginlega ekki vera alvöru belgískar nema maður noti gerdeig.

Þess vegna þarf smáfyrirvara þegar maður gerir þær, allavega klukkutíma fyrir gerdeigið að lyfta sér. Þetta er því ekki kannski eitthvað sem maður  skellir í þegar óvænta gesti ber að garði – en þess vegna væri líka gott að vita hvað er hægt að geyma deigið lengi í kæli. Já, ég þarf greinilega að gera aðra tilraun fljótlega.

Allavega, þetta er frekar lítill skammtur, svona 6-8 vöffluferningar (en ekkert mál að tvö- eða þrefalda uppskriftina).

IMG_0522

 

Ég byrjaði á að bræða 60 g af smjöri og láta það svo kólna dálítið. Svo velgdi ég 250 ml af mjólk (ég notaði léttmjólk). Hellti um 50 ml í skál og stráði 1 tsk af þurrgeri yfir og lét standa á meðan ég aðskildi eitt stórt egg og þeytti hvítuna þar til hún myndaði stífa toppa.

IMG_0525

 

Ég setti eggjarauðuna út í gerblönduna ásamt bráðnu smjörinu, afganginum af mjólkinni, 200 g af hveiti, 60 g af sykri, 1/2 tsk af vanilludropum og 1/4 tsk af salti. Hrærði þetta vel saman þar til soppan var alveg slétt.

IMG_0526

 

Svo setti ég hvítuna út í og blandaði henni gætilega saman við með sleikju. Það gerir ekkert til þótt soppan verði ekki alveg slétt og það séu einhverjir hvítukekkir í henni. Ég breiddi svo viskastykki yfir skálina og lét hana standa óhreyfða á hlýjum stað í svona klukkutíma.

IMG_0610

 

Svo dró ég fram vöfflujárnið, hitaði það og setti svo vöfflusoppu í það með ausu og dreifði aðeins úr henni með ausubakinu. Þetta er það magn sem mér finnst hæfilegt að setja í járnið en annars er það smekksatriði.

Það er dálítið langt síðan ég notaði járnið síðast svo mér fannst vissara að pensla það aðeins með smjöri áður en ég steikti fyrstu vöffluna en eftir á að hyggja var það líkleg alveg óþarft.

IMG_0612

Steikingartíminn er smekksatriði líka og fer meðal annars eftir vöfflujárninu sjálfu og hvað maður setur mikið í það, yfirleitt þrjár til fjórar mínútur. Ég steikti mínar í fjórar mínútur.

IMG_0621

 

Og svo er bara að bera vöfflurnar fram, nýsteiktar og volgar.

IMG_0630

 

Ég hafði nú bara sænska títuberjasultu með vöfflunum en það má hafa alls konar sultur og ber, rjóma, ís, súkkulaðisósu, Nutella, smjör, hlynsíróp … og svo náttúrlega kjúkling. En ég ákvað að láta það eiga sig í þetta skipti, þótt ég ætti reyndar djúpsteikta kjúklingaleggi …

IMG_0635

 

Enda var þetta alveg ágætt með eintómri sultu. Og kaffi auðvitað.

 

 

2 comments

  1. Mig hefur lengi langað til að prófa vöfflur með kjúklingi. Held upp á hvorttveggja og það hljómar eiginlega bara frekar vel að hafa þetta saman. Kannski maður kíki eftir spennandi uppskrift…

    • Já, kannski er þetta eitthvað sem svínvirkar … Það fer ýmsum sögum af uppruna þessa réttar. Ein skemmtilegasta kenningin finnst mér sú að rétturinn hafi fyrst sést á matseðli veitingahúss í New York sem var opið alla nóttina og auglýsti réttinn sem tilvalinn handa nátthröfnunum, ,,of seint fyrir kvöldverð (kjúklinginn), of snemmt fyrir morgunverð (vafflan)“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s