Mig langaði svolítið í bröns í morgun. Samt ekki alvörubrunch með amerískum pönnukökum og spæleggi og hlynsírópi og öllu saman, ekki fyrir mig eina. Það geri ég þegar Úlfur dóttursonur minn er í helgarheimsókn. En það er hann ekki núna, svo að ég kannaði birgðastöðuna og ákvað að gera mér bröns-samloku.
Ég nota yfirleitt heimabakað brauð í svona samlokur en átti ekkert til núna og ekkert deig í ísskápnum (er reyndar búin að bæta úr því) svo að ég notaði brauð sem ég keypti í Nóatúni í gær. Kryddað Baskabrauð minnir mig að það heiti, ekki veit ég af hverju, sá ekkert sérlega baskneskt við það og varð ekki vör við mikið krydd. En ágætis brauð samt og hentaði ágætlega í svona samloku.
Ég skar tvær sneiðar af brauðinu – skar þær dálítið á ská til að fá þær stærri – og tíndi svo til annað: fjórar þykkar sneiðar af ekkert mjög feitu beikoni, nokkrar sneiðar af mildri chorizopylsu, fáeina kastaníusveppi, einn plómutómat, nokkur salatblöð, nokkur basilíkublöð og ost (en ég notaði nú ekki allt stykkið sem er þarna á myndinni).
Ég skar hvern svepp um sig í nokkrar sneiðar og tómatinn í fremur þykkar sneiðar.
Svo hitaði ég nokkuð stóra pönnu, raðaði beikonsneiðunum á hana þannig að þær sköruðust örlítið því ég vildi láta þær hanga saman, setti svolitla ólífuolíu á hinn hlutann á pönnunni og steikti tómata, sveppi og pylsusneiðar þar. Hrærði nokkrum sinnum í sveppunum og chorizopylsunni og sneri tómatsneiðunum einu sinni.
Beikonsneiðunum sneri ég aftur á móti við (í einu lagi) þegar þær voru orðnar stökkar á annarri hliðinni og setti um leið fjórar ostsneiðar ofan á og lét ostinn bráðna. Svo tók ég tómatana, sveppina og pylsusneiðarnar af pönnunni og setti á disk (hafði eldhúspappír á diskinum til að láta renna af þessu) en setti brauðsneiðarnar á pönnuna og steikti þær á báðum hliðum.
Svo setti ég aðra brauðsneiðia á disk, dreifði salatblöðum á hana, tók beikonið og ostinn af pönnunni með spaða og setti ofan á og hrúgaði sveppum, tómötum og chorizo þar ofan á.
Að lokum stráði ég grófsaxaðri basilíku yfir og setti hina brauðsneiðina ofan á.
Úr þessu varð hin ágætasta samloka, alveg hreint.
NAMMMM