Ég rölti út eftir hádegið til að a) leita mér að wokpönnu með loki. Fann enga (ef þið vitið hvar hægt er að fá svoleiðis má gjarna láta mig vita). Nóg af loklausum, engin með loki. Og b) kaupa eitthvað í matinn. Átti von á fjölskyldunni en vissi svosem ekkert hvað ég ætti að elda.
En á meðan ég var úti fór að hellirigna. Ég skaust hálfblaut inn í Bónus og rigningin varð til þess að ég ákvað elda allavega einhvern notalegaheitamat. Kannski súpu eða pottrétt, kannski bara risotto (sem mér finnst alveg sérlega notalegur notalegheitamatur) eða – já kannski bara paellu. Sem kannski tengist meira suðrænni sól en íslenskum vetri …
Það er ekki bráðnauðsynlegt svosem að nota sérstaka paellupönnu þegar maður eldar paellu. En það er betra. Og ef maður er að elda fyrir nokkra (við vorum sjö) er langbest að eiga stóra paellupönnu. Sem ég á einmitt. Og vera með kröftuga gashellu. Sem ég hef (á sumrin má líka nota útigrill). Pannan mín er svona 45-50 cm í þvermál.
Það eru til alls konar paellur, sú frægasta er Paella Valenciana, sem er með kjúklingi, kanínu, baunum, saffrani og fleira góðgæti. Ég ætlaði samt ekki að gera svoleiðis, meðal annars vegna þess að ég átti enga kanínu en lika vegna þess að saffran fellur ekki öllum í fjölskyldunni vel í geð. Svo þetta varð bara svona paella eftir mínu höfði (og því sem ég átti til). Kjúklingur, chorizo, beikon, kryddjurtir.
Ég byrjaði á að setja paellupönnuna á eldavélina, hita 4 msk af ólífuolíu og skera niður svona 150 g af beikoni og 200 g af chorizo-pylsu og steikja við góðan hita í nokkrar mínútur við góðan hita.
Ég var með kjúklingalundir – svona 6-700 g – sem ég kryddaði með pipar, salti og paprikudufti, setti þær á pönnuna með beikoninu og pylsunni og brúnaði þær á báðum hliðum. Svo tók ég þær ásamt beikoni og pylsu af pönnunni með gataspaða og setti á disk.
Á meðan þetta brúnaðist hafði ég skorið niður tvo lauka og saxað 3-4 hvítlauksgeira smátt. Setti þetta á pönnuna og steikti í sömu feitinni við fremur vægan hita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn var aðeins farinn að taka lit hellti ég innihaldinu úr einni dós af tómötum á pönnuna, kramdi tómatana dálítið í sundur með spaða, setti 2-3 rósmaríngreinar og álíka af timjani á pönnuna (má líka nota þurrkaðar jurtir) og lét þetta malla við hægan hita þar til tómatsafinn var að mestu gufaður upp. Þetta er bragðgrunnurinn fyrir paelluna og kallast sofrito.
Á meðan hitaði ég 1,2 l af vatni að suðu og mældi 500 ml af arborio-grjónum (risottogrjónum). Hellti grjónunum á pönnuna og hrærði þar til þau voru þakin í tómat-laukblöndunni. Hellti svo vatninu á pönnuna, hitaði að suðu og kryddaði með pipar og salti.
Ég lét þetta sjóða í um 10 mínútur og hrærði nokkrum sinnum. Hitinn var nokkuð hár og mestallur vökvinn gufaði upp svo ég bætti meira vatni á pönnuna; en það má líka hafa hitann vægari. Aðalatriðið er að það sé slatti af vökva eftir á pönnunni þegar kjúklingurinn og það allt er sett á hana. Svo smakkaði ég þetta og bragðbætti með pipar og salti.
Ég setti svo kjúklinginn, beikonið og pylsuna aftur á pönnuna en fjarlægði kryddjurtirnar (ef maður notar heilar greinar), hrærði vel, lækkaði hitann og lét malla í 18-20 mínútur án þess að hræra. Hitinn ætti að vera rétt hæfilega mikill til að grjónin verði mátulega soðin einmitt þegar vökvinn er gufaður upp. En þau eiga að brenna aðeins við botninn, það er besti hlutinn af paellunni og kallast la soccarat, og þess vegna getur verið gott að hækka hitann rétt í lokin. Gamla máltækið ,,sjaldan er á botninum betra“ á ekki við um paellu.
Þegar paellan var tilbúin saxaði ég svolítið óreganó sem ég átti til (en það var aðallega upp á lúkkið) og skar svo eina sítrónu í báta og dreifði yfir. Bar paelluna fram með salati og nýbökuðu brauði.
Þetta féll held ég í góðan jarðveg, allavega var ekki mikið eftir. Örlítið soccarat …
Paella
(fyrir 6-7)
4 msk ólífuolía
um 150 g beikon, skorið í bita
um 200 g chorizo-pylsa, skorin í bita
6-700 g kjúklingalundir (eða bringur, skornar í bita)
pipar
salt
paprikuduft
2 laukar, saxaðir
3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 dós tómatar
2-3 rósmaríngreinar
2-3 timjangreinar (eða þurrkaðar kryddjurtir)
500 ml arborio-hrísgrjón
1,2 l vatn (meira eftir þörfum)
óreganó (má sleppa)
sítrónubátar
Wokpanna með loki (stálpanna) fæst hjá ef.is, hún er frá Fissler