Ég eldaði síðustu máltíð ársins í hádeginu – það er að segja, síðustu sem ég elda, ég er svo í mat hjá systur minni í kvöld. Í gær tók ég kjúklingabringur úr frysti, lagði þær í maríneringu í morgun og ætlaði satt að segja að ofnsteikja þær en svo fékk ég aðra hugmynd.
Ég rakst nefnilega á Earl Grey-te sem ég hafði einhverntíma keypt óvart. Ég drekk stundum te en það verður að vera te með tebragði – Earl Grey er með bergamotbragði, sem ég er ekki hrifin af. Og allt í einu datt mér í hug að tereykja kjúklinginn.
Ég hef tereykt áður en það er dálítið langt síðan síðast og þá átti ég betri tól til þess, nefnilega wokpönnu með loki og grind. Ég á hana ekki lengur en man ekki hvað varð af henni – líklega hefur hún orðið ónýt. Ég átti aðra wokpönnu, stóra og góða (en loklausa) en gaf syninum hana einhverntíma af því að hann notar svoleiðis mun meira en ég. Ég á eina litla wokpönnu en hún er ekki með loki. Sem vissulega er galli, en það má komast framhjá því.
Það er mun minna mál en flestir halda að heitreykja mat innandyra (svo má auðvitað nota útigrillið), það þarf pott (sem þarf ekki nauðsynlega að vera wok en það er best), lok, grind og álpappír. Og sæmilega reykræstingu en hjá mér allavega kemur mun minni reykur en við mætti búast – ég opna bara rifu út á svalirnar út frá eldhúsinu.
En ég byrjaði semsagt á að marínera bringurnar í morgun. Þessi marínering var miðuð við ofnsteikingu eins og ég sagði en það hefði svosem ekki breytt miklu þótt svo hefði ekki verið – nema ég hefði líklega haft aðeins minna af henni, þar sem ég hafði ætlað að steikja kjúklinginn í maríneringunni. Þetta eru svona 2 msk olía, 1 1/2 msk sojasósa, 2 tsk hvítvínsedik, 1 tsk hunang, 2 saxaðir hvítlauksgeirar og svolítill mulinn stjörnuanís (má sleppa). Hrært saman, bringunum velt upp úr leginum og látnar liggja í nokkra klukkutíma; snúið nokkrum sinnum.
Svo var að breyta litlu wokpönnunni í reykofn; ég klæddi hana innan með stórri örk af þykkum álpappír (má nota venjulegan og hafa hann tvöfaldan). Hann á að ná vel út fyrir barmana því hann er svo brotinn inn yfir lokið.
Svo blandaði ég saman 4 msk af tei (þurfti til þess innihaldið úr um 8 tepokum), 4 msk af púðursykri og 125 ml af hrísgrjónum í botninum á wokpönnunni og kveikti undir á hæsta straum.
Það er engin grind í wokpönnunni og ég reyndist ekki eiga neina heppilega grind. Hefði líklega getað bjargað mér með samanvöðluðum álpappírslengjum en svo mundi ég eftir þessum ,,flame tamer“ sem ég á hangandi uppi á vegg en nota afar sjaldan (þetta er til að dreifa gasloga þegar maður þarf að elda eitthvað við mjöööög vægan hita). Svo ég tók skaftið af honum og lagði ofan í wokpönnuna. Smellpassaði, dálítinn spöl yfir teblöndunni.
Þegar reykur fór að stíga upp (eins og sjá má þarna neðst á myndinni) lagði ég kjúklingabringurnar ofan á grindina og setti lok af einum pottinum mínum yfir. Auðvitað hefði ég þurft að hafa hátt, kúpt lok til að reykurinn gæti leikið almennilega um bringurnar. En ég á það ekki til. Þarf eiginlega að fara að bæta úr þessu, kannski fá mér betri wokpönnu.
Svo braut ég álpappírinn inn yfir lokið og lækkaði hitann í meðalhita. Álpappírinn á að loka pönnunni nokkuð þétt og ég held að það hafi tekist, allavega varð ég lítið vör við reyk.
Ég lét þetta vera óhreyft í svona 12 mínútur. Þá slökkti ég undir, lét standa í 2-3 mínútur, losaði svo um álpappírinn, tók lokið af og sneri bringunum. Þetta hefði ég ekki þurft að gera ef ég hefði verið með kúpt lok, en þar sem lokið var flatt snerti það bringurnar aðeins. Ég setti svo lok og álpappír yfir aftur og reykti bringurnar í svona 5 mínútur í viðbót.
Á meðan bringurnar reyktust hafði ég soðið hrísgrjón og svo hrærði ég saman í skál 2 msk af jarðhnetuolíu, 1 msk sojasósu, 1 tsk hunang, pipar og nokkur söxuð basilíkublöð. Lét svo renna af hrísgrjónunum í sigti þegar þau voru tilbúin, skellti þeim út í og blandaði lófafylli af söxuðum salatblöðum og 2-3 msk af graskersfræjum saman við.
Bringurnar voru akkúrat tilbúnar (það er best að skera í þær til að athuga, ef þær eru ekki alveg eldaðar í gegn má bæta við nokkrum mínútum) og búnar að fá á sig fyndið mynstur af eldtemjaranum. Þarf greinilega að betrumbæta búnaðinn eitthvað …
Ég dreifði hrísgrjónasalatinu á fat, skar bringurnar í sneiðar á ská og raðaði þeim ofan á.
Bringurnar voru alveg eldaðar í gegn en mjúkar og safaríkar, með mildu og góðu reykbragði.
Ég hugsa að ég noti afganginn af Earl-Grey-teinu í eitthvað svipað á næstu dögum.
Tereyktar kjúklingabringur
2 kjúklingabringur
Kryddlögur:
2 msk olía
1 1/2 msk sojasósa
2 tsk hvítvínsedik
1 tsk hunang
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1-2 geirar stjörnuanís, mulinn (má sleppa)
Reykblanda:
125 ml hrísgrjón
4 msk te (þarf ekki að vera Earl Grey)
4 msk púðursykur
Hrísgrjónasalat:
100 g hrísgrjón
salt
2 msk jarðhnetuolía (eða önnur olía)
1 tsk þunnt hunang
pipar
nokkur söxuð basilíkublöð’
lófafylli af söxuðum salatblöðum
2-3 msk graskersfræ
[…] og ég sagði um daginn þegar ég var með uppskriftina að reykta kjúklingnum ákvað ég að reykja dálítið meira en vantaði bara betri græjur. Ég fór í nokkrar búðir […]