Heitt og kryddað jólasúkkulaði (nei, jólin eru ekki búin)

Mér finnst eitthvað svo viðeigandi, svona á næstsíðasta degi ársins þegar snjór er yfir öllu (og rúmlega það, sumstaðar á landinu), að hita mér kryddaðan súkkulaðidrykk til að hlýja sér og næra sig á. Ég hef reyndar verið með slíka uppskrift hér áður, rokdaginn í haust þegar allt ætlaði af stað; þetta er meira rólegheita- og hátíðauppskrift.

Þetta er nú ekkert eitt af ,,þessum þykku feitu sætu miklu súkkulöðum sem aldrei verða framar soðin, kanelbörkur útí“ sem Halldór Laxness nefnir í Brekkukotsannál. Ég hef reyndar soðið slíkt súkkulaði – þykkt, feitt, sætt og mikið með kanelstöng út í – og það var hrikalega gott en bara fyrstu soparnir, svo varð það einhvernveginn of þykkt og feitt og sætt og mikið. Ég hellti súkkulaðinu sem ég hitaði núna í frekar lítinn bolla en mér er til efs að ég hefði getað klárað heilan slíkan bolla af þessu þykka og feita og sæta og mikla. Kannski hálfan ef mér hefði verið kalt. En ég drakk þrjá af þessu og var þó ekkert kalt.

IMG_9957

Ég byrjaði á að setja 1/2 l af mjólk (ég notaði nýmjólk, má vera léttmjólk) í pott og braut svo 100 g af appelsínusúkkulaði út í. Það má auðvitað líka nota venjulegt suðusúkkulaði, til dæmis, en ég átti þetta appelsínusúkkulaði til síðan fyrir jól, hafði ætlað að nota það í jólabakkelsi en var búin að gleyma að ákveðinn fjölskyldumeðlimur vill ekki sjá bakkelsi með appelsínusúkkulaðibragði. Svo bætti ég við hálfri teskeið af reyktri papriku (mildri). Það má líka nota venjulega papriku þótt bragðið sé ekki það sama en þá mundi ég kannski bæta við fáeinum kornum af chili- eða cayennepipar.

IMG_9962

Svo bætti ég við ögn af negul – kannski svona 1/8 úr teskeið eða tæplega það – og 1/3 teskeið af salti. Eða eftir smekk, en salt og súkkulaði fara vel saman. Hitaði þetta allt rólega að suðu og hrærði oft á meðan.

IMG_9965

Ég lét drykkinn sjóða – eða malla rétt neðan við suðu – í 1-2 mínútur og hellti honum svo í könnu. Á meðan súkkulaðið hitnaði hafði ég þeytt svolítinn rjóma.

IMG_9972

Og þá var bara eftri að setjast og fá sér sjóðheitt súkkulaði í bollann …

IMG_9979

.

.. drekka svolítið af því og bæta meira súkkulaði í bollann þegar rjóminn hafði bráðnað saman við …

IMG_0002

… og bæta við rjóma og strá kannski súkkulaði-chilikurli yfir (eða rifnu súkkulaði eða ögn af paprikudufti, til dæmis).

Þetta ætti nú að hlýja flestum þokkalega.

 

Heitt súkkulaði með reyktri papriku

1/2 l mjólk

100 g appelsínusúkkulaði (eða annað súkkulaði)

1/2 tsk reykt paprika

1/8 tsk negull

1/3 tsk salt

þeyttur rjómi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s