Hrökkbrauð tekur við af sætabrauði

Ætli ég hvíli ekki steikur og sætabrauð eitthvað á næstunni – nema kannski ef ég geri eitthvað skemmtilegt um áramótin. En að öðru leyti hefst nú The Age of Austerity, að svo miklu leyti sem ég er fær um eitthvað slíkt.

En það er enn til eitthvað af afgöngum sem ég þarf að nota. Til dæmis á ég dálítið af alveg ágætis ostum, þar á meðal tvenns konar Stiltonost, ansi góðan. Veit svosem ekki hvort ég geri neitt úr honum, hann er bestur eins og hann kemur fyrir, en þegar mig langaði í ost upp úr hádegi í dag vantaði mig brauð með honum. Ég átti ekkert deig tilbúið í ísskápnum svo að ég ákvað að baka mér rúghrökkbrauð.

Fyrst var ég með ákveðna uppskrift í huga en mundi svo að í henni er ger og brauðið þarf að lyfta sér í minnst klukkutíma. Svo lengi nennti ég ekki að bíða svo ég ákvað að baka einfaldari gerð, lyftiefnalausa með öllu.

IMG_9894

 

Mér finnst oftast betra að krydda hrökkbrauðið aðeins svo ég tók svona 1 tsk af kúmeni og grófsteytti það. Auðvitað má nota ýmiss konar krydd og fræ og það getur til dæmis verið gott að nota ögn af chili eða þá grófmalaðan svartan pipar. En kúmen er klassískt.

IMG_9896

 

Svo vigtaði ég 125 g af rúgmjöli og 125 g af brauðhveiti (má nota venjulegt hveiti en brauðhveiti er betra) og setti í hrærivélarskál ásamt kúmeninu og 1/2 tsk af salti.

IMG_9898

 

Svo setti ég 2 tsk af hunangi út í ásamt um 100 ml af volgu vatni. Það þarf líklega meira vatn en best að setja ekki of mikið í upphafi.

IMG_9901

 

Svo hrærði ég deigið góða stund með hnoðkróknum á vélinni en það er líka hægt að hnoða það í höndunum. Þá leit það svona út og það þurfti greinilega meira vatn svo ég bætti við 1 matskeið  af volgu vatni og svo hálfri til einni matskeið aðeins seinna.

IMG_9902

 

Það er samt um að gera að deigið verði ekki of blautt. Þetta hér lítur kannski út fyrir að vera bara þurr mylsna …

IMG_9905

 

… en um leið og farið er að hnoða það saman með höndunum kemur í ljós að það er einmitt mátulegt. Það á að vera þannig að það loði saman og sé hægt að hnoða það í nokkurn veginn sprungulausa kúlu en samt frekar þurrt viðkomu og klessist nákvæmlega ekkert við hendurnar.

Svo mótaði ég það í kúlu, vafði plasti utan um og lét hana standa á meðan ég hitaði ofninn í 175°C.

IMG_9909

 

Ég skipti svo deiginu í tvennt. Síðan þarf bara að fletja það nógu þunnt út, því þynnra, þeim mun betra – í allt að því laufabrauðsþykkt en það getur verið erfitt. Mér finnst auðveldast að fletja það svona þunnt á marmaraplötunni minni en fyrir flesta væri líklega best að fletja deigið út á bökunarpappírsörk (eða jafnvel á milli tveggja arka). Það er að vísu erfiðara að fletja það nógu þunnt, eða það finnst mér allavega, en á móti kemur að það er hægt að snúa örkinni með deiginu á alla kanta á meðan er verið að fletja og svo þarf ekkert að flytja deigið yfir á bökunarplötu, það er bara hægt að draga pappírsörkina yfir.

Það skiptir engu máli hvernig deigplatan er í laginu, brauðið er bara brotið í óreglulega bita á eftir hvort eð er.

IMG_9914

 

Svo bræddi ég 1-2 msk af smjöri, penslaði deigið með því og bakaði hrökkbrauðið (í tvennu lagi) ofarlega í ofni í svona 10-12 mínútur, eða þar til jaðrarnir voru farnir að brúnast. Lét það svo kólna áður en ég braut það sundur í flögur.

IMG_9925

 

Ég reyndi að strá sesamfræi á hluta af deiginu áður en ég bakaði það en það gekk eiginlega ekki upp, fræið vildi ekki tolla. Líklega hefði ég þurft að pressa það niður í deigið með kökukefli ef það hefði átt að virka.

IMG_9944

 

Mmmm, hrökkbrauð með Stilton.

(Eða bara einhverjum öðrum osti. Eða sultu. Eða einhverju öðru.)

 

Hrökkbrauðsflögur

125 g rúgmjöl

125 g brauðhveiti

1 tsk kúmen, grófsteytt

1/2 tsk salt

2 tsk þunnt hunang

100 ml volgt vatn, og meira eftir þörfum

1-2 msk bráðið smjör

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s