Austurlenskt með soðnum kartöflum

Ég skrapp norður um helgina að heimsækja pabba gamla og eldaði þá auðvitað fyrir okkur. Það hljómar kannski sérkennilega en mér finnst oft gaman að elda þar sem lítið er til og ég hef ekki allt grænmetið, kryddið, sósurnar, kornmetið og anað hráefni sem ég get valið úr í mínu eldhúsi og heldur ekki öll hjálpartækin og tólin. Þegar ég er fyrir norðan baka ég án uppskrifta og mæli ekkert eða vigta og þegar ég elda reyni ég að nota sem mest það sem til er og kaupa sem minnst því ef eitthvað verður afgangs verður það óhreyft þar til ég (eða einhver) kemur næst.

Mamma kenndi mér margt í eldhúsinu. Hún eldaði auðvitað daglega eða tvisvar á dag allt frá unglingsárum og bakaði ókjör af kökum, sérstaklega á meðan við bjuggum í sveitinni. Hún ólst upp við gamla íslenska matargerð og kunni ýmislegt fyrir sér og það hefur þegar komið þónokkrum sinnum fyrir, á þessum vikum sem liðnar eru síðan hún dó, að ég hef hugsað: ,,æ, af hverju hafði ég ekki rænu á að spyrja mömmu …“ Þau tækifæri eru runnin mér úr greipum og ekkert við því að gera. En mér þótti vænt um að geta tileinkað henni bókina Jólamatur Nönnu, sem kom út í fyrra.

Ég held að hún hafi aldrei haft neitt sérlega gaman af eldamennsku og bakstri. En hún fylgdist samt ágætlega með því sem ég var að gera og spurði mig oft út í eitt og annað sem hún hafði lesið um í bókunum mínum eða séð eða heyrt mig tala um. Hún var þó ekki mikið að prófa þetta sjálf. Hún var alveg til í að smakka ýmislegt nýtt en hafði ekki mikla trú á að það þýddi að bjóða pabba upp á það, sagði að hann vildi helst bara kjöt eða fisk og kartöflur. Og svosem mikið til í því. En ég er samt á því að hún hafi gert heldur meira úr mataríhaldssemi hans en efni stóðu til, að minnsta kosti hef ég á síðustu árum boðið honum upp á ýmislegt sem hann hefur ekki smakkað áður með góðum árangri.

Ég skrapp í Skagfirðingabúð á laugardaginn og keypti bita af laxi handa okkur. Ég vissi að það var afar lítið til í ísskápnum hjá pabba, enda fær hann mat heimsendan og eldar aldrei neitt – en það voru til nokkrar kartöflur og svo krukka af mangó-chutney frá síðustu heimsókn minni. Ég keypti einn lítinn blaðlauk – hefði viljað hafa meira grænmeti en það er erfitt að fá það í nógu smáum skömmtum og allir afgangar hefðu bara orðið ónýtir. Svo ég lét blaðlaukinn duga, ásamt lítilli dós af létt-kókosmjólk og einni límónu.

IMG_8748Ég byrjaði á að setja upp kartöflur. Svo skar ég laxaflaksbitann í fjórar sneiðar og kryddaði þær með pipar og salti, hreinsaði blaðlaukinn og saxaði hann smátt. Bræddi 25 g af smjöri á pönnu og lét blaðlaukinn krauma í því í nokkrar mínútur við meðalhita en tók hann svo af með gataspaða, setti á disk og geymdi. Hækkaði svo hitann, setti sneiðarnar á pönnuna með roðhliðina upp og kreisti ögn af límónusafa yfir.

IMG_8754Ég steikti sneiðarnar í rúma mínútu, sneri þeim svo og kreisti aðeins meiri límónusafa yfir. Brúnaði sneiðarnar á öllum hliðum í svona mínútu á hverri.

IMG_8760Þá setti ég blaðlaukinn aftur á pönnuna og hellti svo kókosmjólkinni á hana. Lét malla í 2-3 mínútur, eða þar til laxinn var nærri soðinn í gegn.

IMG_8762

Að lokum hrærði ég 1-2 tsk af mangóchutney saman við, smakkaði sósuna og bætti við ögn af pipar og salti. Lét sjóða í mínútu í viðbót eða svo og bar svo laxinn fram með soðnum kartöflum – og límónubátum fyrir mig. (Hefði örugglega haft salat með við aðrar kringumstæður en það hefði nú bara verið fyrir sjálfa mig, pabbi borðar soðið grænmeti ef það er sett fyrir hann en verra með hrámetið.)

En hann var alveg ljómandi ánægður með laxinn. Kókos og mangó-chutney er blanda sem hann kann að meta, ég er búin að komast að því.

3 comments

  1. Þetta er alveg ótrúlega gott, skipti reyndar laxi út fyrir þorsk, ákvað að nýta það sem til er.

    Svo verð ég eiginlega að fá að spyrja hvort þú gætir gefið upp góða uppskrift að rækju kokteils sósu, gúgglið gefur mér mjög ólíkar uppskriftir. Ég var að hugsa að svona gamaldags rækju og melonu kokteil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s