Vetrarsúpa frá sólarlandi

Ég komst að þeirri niðurstöðu þegar ég var að labba heim úr vinnunni að ég þyrfti ekkert að koma við í búð, ætti allt sem ég þyrfti að nota í það sem ég ætlaði að elda. Mundi svo eftir því þegar ég var að nálgast húsið að mig vantaði mjólkurpott. Var samt ekki alveg viss um að ég ætti að leggja í að koma við í búð og kaupa hann, minnug þess að í síðustu viku þegar ég ætlaði líka bara að kaupa einn mjólkurlítra á heimleið úr vinnunni keypti ég borðstofuborð. Aldrei að vita hvað ég keypti núna – svo að ég ákvað að vera ekkert að fara niður á Laugaveg eða lengra, buddunnar vegna. Kom bara við í sjoppunni og keypti mjólk þar.

Ég átti grænkál og bita af chorizo-pylsu og ákvað að elda grænkálssúpu. Þegar ég var að tína til í hana fann ég reyndar engan lauk svo ég hélt það væri rangt hjá mér að ég ætti allt í súpuna – en ég átti vorlauk og hann dugði. Svo fann ég auðvitað laukinn sem ég var að leita að um leið og súpan var komin af stað …

Þetta er tilbrigði vil caldo verde, portúgalska grænkáls-, kartöflu- og chorizo-súpu; caldo verde þýðir held ég grænt soð (verde er allavega grænt , það er ég viss um) en hjá mér allavega varð súpan sjálf – eða soðið – ekki græn því ég notaði dálítið af reyktri papriku, sem gerði hana rauðleita.

IMG_8785Grænkálsknippi (ekki viss hvað það var stórt, kannski 150-200 g), fimm kartöflur, vorlauksknippi (eða einn venjulegur laukur), tveir hvítlauksgeirar, hálf chorizo-pylsa (frá Kjötpól, fæst í Nóatúni – en það má líka nota aðrar pylsur, bæði chorizo og aðrar kryddaðar pylsur), 1 1/2 tsk reykt paprika (eða venjuleg), pipar, salt og ólífuolía. Og vatn og kjúklingakraftur, sem ekki er á myndinni.

Ég saxaði vorlaukinn, skar pylsuna í fremur þunnar sneiðar, flysjaði kartöflurnar og skar þær í litla bita og saxaði hvítlaukinn smátt.

IMG_8789Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu í potti og lét vorlauk, hvítlauk og chorizo-pylsu krauma í henni í nokkrar mínútur og hrærði oft á meðan.

IMG_8796Svo bætti ég kartöflunum í pottinn og hrærði kryddinu og 2 tsk af kjúklingakrafti saman við. Ég lét þetta malla í hálflokuðum potti í 10-12 mínútur, eða þar til kartöflurnar voru meyrar. Á meðan skar ég stilkana (eða sverasta hluta þeirra) úr grænkálsblöðunum og saxaði svo kálið.

IMG_8806Svo tók ég kartöflustappara og stappaði með honum ofan í pottinn nokkrum sinnum til að mauka kartöflubitana að nokkru; ef svona áhald er ekki til er það allt í lagi en þá er ágætt að sjóða kartöflubitana heldur lengur til að þeir fari í mauk af sjálfu sér (og þá er líka langbest að nota eina stóra bökunarkartöflu, þær soðna meira í sundur). Kartöflurnar þykkja súpuna.

IMG_8810Og svo henti ég grænkálinu út í, setti lok á pottinn og lét malla í svona fimm mínútur í viðbót. Smakkaði súpuna til að athuga hvort vantaði pipar, salt eða kannski meiri papriku.

IMG_8820Og þá var bara eftir að hella súpunni í tarínuna og bera hana fram.

IMG_8827Alveg ágætis vetrarsúpa.

Viðbót: Æjá, nú mundi ég allt í einu að ég var búin að ákveða að setja alltaf hráefnislista (lauslegan allavega) aftan við uppskriftirnar. En ég gleymi því örugglega oftast. Það má minna mig á. En uppskriftirnar sem ég set hér inn eru oft þannig að svona listar verða dálítið í lausu lofti og mikið af ,,eða“ í þeim.

1 knippi grænkál, 150-200 g

1 knippi vorlaukur (eða 1 laukur)

5 kartöflur (eða 1 bökunarkartafla)

100 g chorizo-pylsa, sirkabát. Eða einhver önnur pylsa.

1 msk ólífuolía

1 1/2 tsk reykt paprikuduft (eða venjulegt)

pipar

salt 

2 tsk kjúklingakraftur

700 ml vatn

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s