Löðrandi í karamellu

Þegar ég gerði um daginn nammið sem var ekkert hollt en gat alveg litið út fyrir að vera það, þá varð afgangs hálf dós af niðursoðinni mjólk sem ég þurfti að nota – en vel að merkja, það má alveg eins nota rjóma í þetta. Og ,,þetta“ er semsagt karamellusósa.

Svona sósa geymist alveg þokkalega í ísskáp og það er upplagt að eiga hana til því hún getur komið sér vel á ýmsum stöðum. Og það er mjög einfalt að búa hana til. Reyndar kom upp úr dúrunum þegar ég var byrjuð á eldamennskunni að ég átti ekki til neitt ljóst síróp; það er ekki nauðsynlegt en dregur úr líkum á að sósan verði kornótt þegar hún kólnar. Þessi varð örlítið kornótt en ekki til stórskaða.

IMG_8296Þetta er allra einfaldasta útgáfa af karamellusósu; ég setti 175 g af púðursykri, 10o g af smjöri og 200 ml af niðursoðinni mjólk (eða rjóma) í pott og hitaði rólega. Það á ekki að hræra í þessu meðan sykurinn er að bráðna. Ég gleymi því samt oftast og hræri smá. Oh well …

Þarna hefði ég líka sett svona 3-4 matskeiðar af ljósu sírópi (Lyle) ef ég hefði ekki uppgötvað í miðju kafi að það var búið. Ég mæli með því.

IMG_8299Ég hitaði karamelluna að suðu og lét hana malla við meðalhita í svona 6 mínútur, tíminn fer annars eftir því hvað maður vill hafa sósuna þykka og dökka. Ég vildi hafa hana frekar þunna og ljósa. Þegar hún var orðin eins og ég vildi hafa hana tók ég pottinn af hitanum og hrærði 1 tsk af vanilluessens og salti á hnífsoddi saman við.

Það mætti líka alveg hræra dálitlu súkkulaði saman við og láta það bráðna í sósunni en þá er best að láta hana kólna örlítið fyrst. Svo þegar hún var orðin hálfköld hellti ég henni í flösku (eða krukku). En það má auðvitað líka bera hana fram heita.

IMG_8381Sósan er til dæmis góð með ís.

IMG_8389Hérna til dæmis með vanilluís og mandarínum.

IMG_8472En svo er líka hægt að hella dálitlu af sósunni til dæmis út á skyr eða jógúrt (þetta er heimalöguð jógúrt).

IMG_8602Það er allt í lagi að geyma sósuna í einhverja daga við stofuhita en annars er best að hafa hana í kæli og þá er ekki ráðlegt að hafa hana í flösku með mjóum hálsi því hún þykknar – það er betra að nota krukku eða flösku með víðum hálsi sem hægt er að stinga skeið ofan í.

IMG_8635Svo er hér afar fljótleg eplakaramelluhnetubaka, góð sem eftirréttur eða kræsingar handa óvæntum gestum kannski: Maður hitar ofninn í 210°C. Tekur eina rúllu af smjördeigi (Wewalka; ég á mjög oft svoleiðis í ísskápnum eins og ég hef áður sagt), leggur hana yfir bökuform og snyrtir brúnirnar – ef bökuformið er stærra en svo að deigið nái að þekja það notar maður afskurðinn til að klára málið. Flysjar, kjarnhreinsar og sker niður þrjú eða fjögur epli (ég notaði Pink Lady) og dreifir á deigið og grófmylur svona 40 g af pekan- eða valhnetum og stráir yfir. Og svo hellir maður slatta af karamellusósu þar yfir. Magn eftir smekk, ég var líklega með svona 150 ml.

IMG_8643Svo braut ég brúnirnar á deiginu inn yfir fyllinguna og penslaði með eggjarauðu. Setti bökuna svo neðarlega í ofninn og stillti klukkuna á 20 mínútur.

IMG_8650Átján mínútur hefðu líklega verið akkúrat rétti tíminn. Bakan var reyndar alveg eins og ég vildi hafa hana en mörgum mundi kannski þykja hún öööörlítið of dökk (ekki brunnin þó).

IMG_8666En hún var góð. Epli og hnetur löðrandi í karamellu. Það safnaðist dálítil karamellusósa á botninn á bökumótinu og ég jós henni yfir. Það þurfti ekki ís eða rjóma með þessari böku (en hefði svosem ekkert sakað, neinei).

Þannig að karamellusósan nýttist í ýmislegt.

One comment

  1. Nammi namm!!!! þú ert snillingur af náttúrunar hendi ,það er öruggt, og að lesa lýsingarnar þína er alveg yndisleg milljón, þú ert svo slök og yndisleg, endilega haltu því áfram 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s