Plan A, B og C og jólasmákökurnar

Það var held ég á Facebook en ekki hér sem ég rifjaði upp um daginn hvernig fór með jólasmákökubaksturinn minn í fyrra – svo ég ætla að gera það aftur þótt einhverjir hafi þegar heyrt það. Eða muni eftir því frá því í fyrra.

Ég var reyndar búin að baka einhverjar stortir á jólaföstunni en það kláraðist allt jafnóðum – sjálf get ég alveg tekið rösklega til matar míns þegar ég á góðar smákökur en ég held ég hafi nú farið með meiripartinn af þessum í vinnuna. Maður verður jú að viðhalda vinsældum sínum. Svo að þegar fór að líða að Þorláksmessu var ekkert eftir.

Ég er vön að hafa einhverjar smákökusortir á Þorláksmessuhlaðborðinu mínu og ætlaði að gera það í þetta skipti líka. Tveimur dögum fyrr var ákveðið að fara í smákökubaksturinn og barnabörnin komu í heimsókn til að aðstoða. Eða ég held að dótturdóttirin (18 ára) hafi ekki hugsað sér að gera neitt en bróðir hennar (10 ára þá) var þeim mun áhugasamari. Við ræddum eitthvað á hverju ætti að byrja og af einhverri ástæðu varð úr að byrja á kexi handa hundinum.

Ég er algjör sökker fyrir Labradorhundum sem mæna á mig og hann Bangsi, hundur dótturfjölskyldunnar, hefur á mér mikla matarást. Ég stenst hann ekki og bakaði meðal annars handa honum sérstakar múffur sem rötuðu inn í múffubókina (og svo urðu Forlagskettirnir að fá sínar múffur líka svo þeir yrðu ekki fornermaðir). Þannig að það var ekki nema sjálfsagt mál að hundurinn fengi sínar jólasmákökur eins og aðrir.

Svo að við Úlfur bökuðum fullt af hundakexi og einhvernveginn tók það mun lengri tíma en til stóð og mamma krakkanna kom fyrr að sækja þau en við bjuggumst við og þá vorum við bara búin að baka handa hundinum og búa til hnetunúggatkökudeig sem þarf að kæla í ísskáp. Svo ekki varð meira úr smákökubakstrinum, ég var líka að fara að gera eitthvað um kvöldið en ætlaði að vera í fríi daginn eftir og ákvað að baka bara nokkrar sortir seinnipartinn.

En daginn eftir – daginn fyrir Þorlák alltsvo – byrjaði ég á að sjóða Þorláksmessuskinkuna, sem var einhver tólf-þrettán kíló og fyllti nærri út í steikarpottinn sem ég sýð hana í. Og það sauð eitthvað uppúr og kveikjan á gashellunni blotnaði og rafmagninu sló út og ég þurfti að taka eldavélina úr sambandi við rafmagn og vissi að það þýddi ekkert að setja hana í samband aftur fyrr en bleytan þornaði. Sem getur tekið einhverja daga (þetta hefur gerst áður).

Þetta þýddi að ofnarnir voru ónothæfir. Það gerði takmarkað til upp á jólamatinn (ég hafði eitthvað ætlað að nota þá en var með Plan B) og Þorláksmessukræsingarnar (Plan C) og ég var búin að baka jóladrumbinn og eitthvað fleira. En verra með smákökurnar.

Svo að það voru engar smákökur á Þorláksmessuborðinu. Ekki einu sinni hundakex því Bangsi var skilinn eftir heima. Og ég varð nú ekki vör við að þeirra væri sárt saknað svosem. Og ofninn komst í lag á aðfangadagsmorgun svo ég gat farið aftur yfir í Plan A með eftirréttinn. Og hnetunúggatkökurnar voru bara bakaðar á milli jóla og nýárs.

En ég er samt að hugsa um að hafa vaðið fyrir neðan mig núna og baka nokkrum dögum fyrir jól. Auðvitað gæti ég bakað allt saman núna en ekki séns að það endist fram á Þorlák.

Til dæmis munu hafrarúsínukökurnar sem ég bakaði um helgina ekki gera það.

IMG_8132Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C og hrærði svo saman 125 g af púðursykri og 125 g af smjöri. Braut svo eitt egg og hrærði því saman við.

IMG_8138Svo blandaði ég saman í annarri skál 100 g af hveiti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af kanel, 1/4 tsk af engiferdufti og 125 g af hafragrjónum og hrærði því saman við. Best að hræra eins lítið og mögulegt er, það má alveg sjást í hveiti (það er jú eftir að hræra rúsínunum saman við).

IMG_8141Sem er einmitt gert næst. 100 g af rúsínum. – Stundum mundi ég setja hnetur líka – saxaðar valhnetur líklega – en ég er búin að gera svo mikið af kökum og nammi með hnetum að undanförnu að ég ákvað að sleppa því. Deigið á að vera gróft 0g hrönglkennt en þó nógu rakt til að það loði saman.

IMG_8148Ég tók svo deigið upp með kúfaðri teskeið og setti á pappírsklædda bökunarplötu. Það þarf ekki að hafa neitt rosalega mikið bil á milli, kökurnar ættu ekki að renna mikið út (en ef þær gera það samt sem áður, sjá þá ráðleggingar hér). Ég laga svona kökur alltaf til með fingurgómunum og þrýsti létt ofan á þær til að fletja þær aðeins út.

Þetta urðu svona 30 kökur hjá mér.

IMG_8160Svo bakaði ég kökurnar á efstu rim í svona 9-10 mínútur (tveimur mínútum lengur eða svo ef deigið var kælt fyrir bökun). Tók þær út, lét þær kólna í svona mínútu á plötunni og færði þær svo yfir á grind.

IMG_8231Og svo er bara að reyna að hafa þolinmæði til að bíða þar til kökurnar hafa kólnað.

IMG_8241En það tekur nú ekkert svo langan tíma til allrar hamingju.

6 comments

    • Þetta eru einu smákökunar sem ég baka fyrir hver einustu jól (eða í þessu tilviki, eftir jól) og hef gert síðustu 25 árin að minnsta kosti. Eða þrjátíu líklega. Uppskriftin er allavega í Jólamat Nönnu en ég reikna nú með að baka þær fyrir jólin og set þá uppskriftina líklega hér inn.

  1. Nammi namm, ég elska uppskriftirnar þínar, og svo finnst mér svo yndislegt hvað þú ert stresslaus,alveg meiriháttar, Nanna þú ert æði 🙂

    • Takk. Það er kannski aðeins of mikið stressleysi að vera ekki búin að ákveða jólaeftirréttinn endanlega um hádegi á aðfangadag …

  2. Skelli í þessar á morgun, set doldið súkkulaði á kostnað rúsína 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s