Pizza e fichi … kannski

Ef þið lásuð um grófa ostabrauðið með ólífum sem ég var með uppskrift að hér fyrir helgi en hafði bakað nokkru fyrr, þá munið þið hugsanlega að ég notaði ekki nema helminginn af deiginu og talaði um að gera eitthvað úr afganginum seinna.

Það var einmitt það sem ég gerði um helgina, tók deigið sem staðið hafði óhreyft í krukku í ísskápnum í slétta viku, bakaði lítið brauð úr tæplega helmingnum en hinn helminginn notaði ég í – ja, kannski er þetta pizza en mér finnst það samt ekki beinlínis. Ætli ég kalli þetta ekki bara flatböku? Eða bara flatbrauð kannski.

Allavega er þetta ekki hefðbundin pizza, engir tómatar eða sósa, og heldur ekki pizza bianca – kannski má segja að þetta sé afbrigði af rómverskri pizza e fichi (sem er í raun pizza bianca með fíkjum). Eða einhver bastarður líklega. Ég tala nú ekki um þegar notaður er grófur heilhveitibotn eins og ég gerði.

Yfirleitt finnst mér heilhveitipizzubotnar ekkert sérlega góðar en þessi var fínn, kannski vegna þess að deigið var eiginlega hálfgert súrdeig eftir að hafa kúrt í ísskápnum í viku.

IMG_8269Þetta er semsagt deigið sem ég var búin að geyma í viku. Það var frekar blautt og ég stráði töluvert miklu hveiti á borðið og yfir deigið og athugaði hvort það dygði til að hægt væri að fletja það út – ekki með kökukefli, heldur bara með höndunum. (Ég mæli sérstaklega með svona krukku með loki með götum til að strá hveiti þegar maður þarf á hveitistráningi að halda.)

En það var ekki nóg, deigið var of lint til að hægt væri að fletja það út án þess að það klesstist við bæði brettið og hendurnar á mér, svo að ég hnoðaði allt hveitið upp í deigið, stráði meira hveiti á borðið og ofan á deigið og klappaði það út í hring.

IMG_8274Eða svona nokkur veginn hring. Fagurlega löguð brauð eru ekki mín sérgrein.

Ég færði deigið yfir á pappírsklædda plötu og lét það lyfta sér á meðan ég hitaði ofninn í 230°C og sneri mér að því að útbúa áleggið.

IMG_8278Ég átti 100 g af óreyktu pancetta (keypt í Hagkaupum í Kringlunni) sem ég ákvað að nota ofan á. Það má líka nota beikon en þá fær maður náttúrlega reykbragðið og þótt ég sé mikið fyrir beikon vildi ég það ekki í þessu tilviki. Ég skar beikonið í mjóar ræmur, setti það á þurra pönnu og steikti það þar til það var stökkt og hrærði oft í því.

IMG_8279Á meðan pancettan stiknaði smurði ég botninn með svona 2 msk af gráfíkjusultu. Þessi er heimatilbúin en það mætti líka nota gráfíkjusultu sem fæst t.d. í Búrinu og víðar. Og svo tók ég laufin af nokkrum timjankvistum og stráði þeim yfir.

IMG_8284Þegar pancettan var orðin stökk hellti ég allri feitinni af henni og stráði henni svo jafnt á botninn.

IMG_8287Svo dreifði ég nokkrum klípum af geitaosti (mætti líka nota t.d. rjómaost) yfir ásamt svona 100 g af goudaosti, skornum í teninga.

IMG_8293Svo reif ég svona 50 g af parmesanosti yfir og stráði dálitlum grófmöluðum pipar yfir allt saman. Þegar ofninn var orðinn heitur setti ég flatbökuna inn og bakaði hana í miðjum ofni í 10 mínútur.

IMG_8311Ég stráði nokkrum basilíkublöðum og lófafylli af salatblöðum á miðja flatbökuna. Helst hefði það átt að vera klettasalat en ég átti það ekki til.

IMG_8315 - Version 2Og þá er bara að skera sér sneið …

IMG_8326… og bíta í. Töluvert ólíkt venjulegri pizzu en ekki síðra.

Finnst mér allavega.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s