Ekkert saurlífi hér

Það er saurlífi að matreiða hross, er lokalínan í Skjónukvæði Kristjáns Eldjárn. Það hefur mér nú aldrei fundist, enda alin upp á hrossakjöti að töluverðu leyti og varð ekki meint af. Og þegar ég var að byrja búskap sendi afi mér hálft folald (og einu sinni heilt) á haustin í nokkur ár og ég úrbeinaði skrokkana sjálf í pínulitla eldhúsinu mínu á Hörpugötunni þótt ég kynni afskaplega lítið til slíkra verka. Það hafðist nú samt og það var oft folald í matinn á þeim árum.

En hrossakjöt er auðvitað misgott eins og háskólastúdentar fengu að reyna veturinn sem Skjóna var étin, ýmist sem buff eða steik eða glás. Það þarf að meðhöndla það rétt, þá er það afbragðsmatur. – Ég átti einmitt sneið af hrossafillet sem ég eldaði mér í hádeginu og gerði úr henni steik en hvorki buff né glás, það hefði verið vond meðferð á þessu meyra og mjúka kjöti.

Mig langaði samt ekki í steik með sósu og kartöflum. Skoðaði hvað var til og ákvað að hafa kúskús og klettasalats- og steinseljupestó með kjötinu.

IMG_8329Sneiðin sem ég átti var 175 g og svona 2 cm þykk, sem er fín þykkt fyrir svona steik. Ég þerraði hana með eldhúspappír, kryddaði hana með grófmöluðum svörtum pipar, Maldon-salti, fínrifnum sítrónuberki og dálitlu kummini. Lét hana liggja í svona 15-20 mínútur svo hún færi ekki ísköld á pönnuna.

Á meðan gerði ég pestóið.

IMG_7394Ég átti afganga af klettasalati (væna lúku) og fjallasteinselju (nokkrar greinar) sem ég vildi nýta og tíndi svo til nokkrar valhnetur (kannski svona 20-25 g), hvítlauksgeira, parmesanbita, eina limónu, pipar og salt. Og auðvitað olíu (notaði blöndu af jarðhnetu- og ólífuolíu).

IMG_7401Ég setti steinselju og klettasalat í litlu matvinnsluvélina, ásamt niðurskornum hvítlauk, grófmuldum hnetum, pipar, salti og rifnum parmesanosti og kreisti safann úr límónunni yfir.

IMG_7418Lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk og þeytti þá olíunni saman við í nokkrum skömmtum. Magnið af olíu fer eftir því hvað maður vill hafa pestóið þykkt, ég vildi hafa það frekar þykkt og notaði líklega bara 100-125 ml af olíu. Ef þetta á að vera meiri sósa má nota meira. Svo smakkaði ég maukið og bragðbætti aðeins með pipar og salti.IMG_8336Ég hitaði svona matskeið af olíu á pönnu og þegar hún var orðin vel heit setti eg kjötið á hana ásamt tveimur vel þroskuðum tómötum sem ég hafði skorið í tvennt. Steikti kjötið við góðan hita á annarri hliðinni í svona þrjár mínútur áður en ég sneri því og steikti í tvær mínútur á hinni hliðinni; tók svo pönnuna af hitanum og lét standa í svona tvær mínútur áður en eg setti kjötið ádisk. En ég sneri tómötunum nokkrum sinnum á steikingartímanum til að fá jafnari steikingu á þá.

IMG_8337Á meðan setti ég kúskús í skál, hellti sjóðandi vatni yfir (hlutföll samkvæmt því sem stendur á pakkanum), lagði disk yfir skálina og lét standa í svona fimm mínútur. Þá tók ég diskinn og hrærði upp í kúskúsinu með gaffli. Blandaði svo 1 msk af ólífuoliu, safa úr 1/2 sítrónu, pipar og salti saman við.

IMG_8344Svo setti ég kúfaða matskeið af pestóinu út í og hrærði saman við með gafflinum.

IMG_8348 - Version 2Ég setti svo kjötið á disk ásamt steiktu tómötunum, kúskúsinu og nokkrum salatblöðum. Þetta leit nú alveg ljómandi girnilega út, fannst mér.

IMG_8357Neibb, það er sko ekkert saurlífi í þessari matreiðslu. En kannski einhverjar nautnir.

IMG_7465Svo bar ég pestóið fram með – og afgangurinn af því geymist í nokkra daga í isskápnum og má nota til ýmissa hluta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s