Hér þarf ekki að kvitta, læka og deila …

Vitiði, ég er orðin svolítið mikið leið á öllum dulbúnu auglýsingunum sem tröllríða Facebook þessa dagana og ég tala nú ekki um þegar þær eru ekkert annað en blekking. Þið kannist við þetta – einhver birtir mynd af einhverju sem lítur voðalega girnilega (oftast) og heilsusamlega út, kallar þetta hollustu-eitthvað og talar um hvað þetta sé nú rosalega heilsuvænt og allt það og lofar að koma með uppskriftina daginn eftir ef fólk lækar og kvittar og deilir og hvaðeina. Og mörgþúsund manns deila þessu hægri vinstri og veggurinn manns fyllist af myndum af þessu gúmmilaði (myndirnar eru oftar en ekki stolnar af netinu).

Og svo kemur uppskriftin og það kemur í ljós að heilsupítsan er eitthvert jukk á heilhveitipítubrauði sem passar engan veginn við myndina sem birt var og jólahrákakan (vont nafn!) reynist ekki hrá, heldur bökuð í fjóra og hálfan tíma – afsökunin er úpps! ég þýddi þetta vitlaust en uppskriftin er sko tekin af vegan-síðu svo kakan er allavega holl (en kakan er ekki vegan fyrir fimm aura, enda kemur í ljós að í þýðingunni er búið að breyta non-dairy butter í smjör og egg substitute í vistvæn egg – og auk þess eru kúrennur orðnar að sólberjum, en það er önnur saga). Eða þá að gúmmilaðið er fullt af Herbalife-vörum eða einhverjum sérvörum sem þarf að kaupa.

Sko, þetta geta verið fínustu uppskriftir. En ég er ekki hrifin af svona auglýsingatrikkum og blekkingum.

Meðal annars þess vegna er hér uppskrift sem ég var að setja saman. Þetta eru smákökur eða nammi, eftir því hvað manni sýnist, þær eru ,,hráar“ (eða óbakaðar allavega, þær eru vegan (án dýraafurða – og þó – ég notaði reyndar hunang en þið getið notað agave-síróp eða hvað sem ykkur sýnist), glútenlausar, hveitilausar og án viðbætts sykurs (nema jú, það er örlítið á engifernum ef hann er notaður) eða feiti. Ég veit svosem ekkert um hollustuna (hef mínar efasemdir um ofurhollustu þurrkaðra ávaxta ef út í það fer og þeir og hnetur eru nú bærilega hitaeiningarík).

En mér finnst þetta gott og þess vegna geri ég það.

IMG_8162Ég byrjaði á að taka mjúkar döðlur, steinhreinsa þær og setja 250 g af þeim í matvinnsluvélina og mauka þær. Ef notaðar eru harðþurrkaðar döðlur þarf að leggja þær í bleyti í heitt vatn í að minnsta kosti klukkutíma.

IMG_8167Svo vigtaði ég 100 g af rúsínum og maukaði saman við.

IMG_8177Svo tíndi ég til annað sem ég ætlaði að nota: 100 g kókosmjöl, 60 g möndluflögur, 40 g pekanhnetur (má nota valhnetur eða aðrar hnetuir), 50 g þurrkuð trönuber (mætti svosem nota rúsínur), 25 g sykraður engifer (má sleppa eða nota t.d. sykraða ávexti í bitum eða annað í staðinn – ekki nota engiferinn ef þið eruð ekki mikið fyrir engiferbragð …), 1 mandarínu (nota bara börkinn – má líka vera appelsína) og 1 tsk af kanel, 1/4 tsk af engiferdufti og tæplega 1/4 tsk af negul.

IMG_8181Ég setti kókosmjöl, möndlur, hnetur, krydd og fínrifinn mandarínubörk í matvinnsluvélina og maukaði saman við döðlu-rúsínublönduna (ekki of fínt þó). Geymdi trönuberin og engiferinn aðeins. Svo mældi ég tvær matskeiðar af þunnu hunangi (má vera síróp, t.d. agavesíróp fyrir þá sem eru uppá svoleiðis) og þeytti saman við maukið. – Þetta á að vera hæfilega blautt til að hægt sé að móta það í kúlur án þess að það klessist að ráði við hendurnar. Ef það er of þurrt má bæta svolitlu heitu vatni saman við smátt og smátt þar til þykktin er hæfileg, ef það skyldi vera of blautt má bæta við kókosmjöli.

IMG_8186Að síðustu setti ég trönuber og saxaðan engifer út í og blandaði snöggt, notaði púlshnappinn á vélinni því ég vildi hafa þettta sem heillegast. Það má líka hræra því saman við með sleif.

IMG_8194Svo mótaði ég kúlur úr massanum, á stærð við kokkteiltómata eða svo, og flatti þær aðeins út milli lófanna því ég vildi hafa þetta meira eins og kökur en nammikúlur, en það má auðvitað sleppa því. Velti helmingnum af kúlunum upp úr kókosmjöli, raðaði þeim á pappírsklædda plötu og kældi þær.

IMG_8203Sko, líta þær ekki út fyrir að vera alveg svaðalega hollar? En mér þykja þær nokkuð góðar líka.

IMG_8219Kökurnar þarf að geyma í kæli. Ég veit ekki alveg með geymsluþolið, einhverjar vikur áreiðanlega, en svo má líka frysta þær.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s