Ég bakaði brauð á dögunum, sem ekki er í frásögur færandi því það geri ég mjög oft. En ég ætla samt að setja uppskriftina hér, þetta var ekki venjulegt hveitibrauð eins og mér þykir reyndar óskaplega gott – hveiti, ger, vatn og salt – þetta er grófara og bragðbætt með osti og ólífum. Það var alveg ágætt og entist líka vel, hélst gott í þá fjóra daga sem tók mig að sporðrenna því … Ég á afgang af deiginu (þ.e. án osta og ólífa) sem ég baka örugglega eitthvað úr um helgina og blanda með einhverju allt öðru. Þá verður það búið að bíða í viku í ísskápnum.
Ég velgdi um 700 ml af vatn, stráði matskeið af geri yfir og lét bíða í nokkrar mínútur. Svo vigtaði ég 400 g af brauðhveiti, 400 g af heilhveiti og 50 g af hveitiklíði og setti í skálina ásamt 1 msk af salti (má vera minna).
Svo setti ég hrærivélina af stað, hrærði deigið vel saman og bætti við brauðhveiti eftir þörfum þar til deigið var hæfilega þykkt – ekki þykkfljótandi og heldur nokkurn veginn lagi en þó svo blautt að það klessist við hendurnar og ekki hægt að hnoða það í höndunum.
Svo breiddi ég yfir skálina, skildi hana eftir á eldhúsbekknum og fór út í þrjá klukkutíma eða svo. Þegar ég kom aftur hafði deigið lyft sér alveg upp að börmum skálarinnar en loftið fór að síga úr því um leið og ég tók viskastykkið af – myndin er tekin svona hálfri mínútu seinna. Ég sló deigið niður (setti hnefann ofan í það til að sem mest loft færi úr), skipti því í tvennt, setti helminginn í leirkrukkuna sem ég nota til þess arna og stakk henni í ísskápinn en setti skálina með hinum helmingnum aftur á hrærivélina.
Svo skar ég niður svona 16-20 steinlausar ólífur og tíndi til osta sem ég átti – kannski svona 80 g af fetaosti, 25-30 g af parmesanosti og dálítinn bita af einhverjum bragðmiklum brauðosti – ég held að þetta hafi verið Tindur.
Ég reif parmesanostinn fínt, muldi fetaostinn og skar brauðostinn í bita og hrærði þessu saman við brauðdeigið ásamt ólífunum.
Annars má nota flestar tegundir osta og tilvalið að nota ýmsa afganga.
Ég klæddi stórt jólakökuform með bökunarpappír (ekki bráðnauðsynlegt ef formið er húðað en mér finnst það samt þægilegra), mótaði deigið í lengju með hveitistráðum höndum, setti hana í formið og lét brauðið lyfta sér í svona 45 mínútur. Hitaði ofninn í 200°C og penslaði brauðið með köldu vatni áður en það fór í ofninn. Setti líka málmskál í botninn á ofninum og fyllti hana með sjóðandi vatni um leið og ég setti brauðið inn til að fá á það betri skorpu (því má sleppa ef maður er ekki mikið fyrir skorpu).
Ég bakaði þetta í 40-45 mínútur, eða þar til það var fallega gullinbrúnt. Tók það úr forminu, bankaði létt í botninn til að gá hvort það væri ekki örugglega bakað, heyrði rétta holhljóðið og lét það þá kólna á grind.
Alveg ljómandi girnilegt og gott brauð. Hér er ég að smyrja fjórðu osttegundinni (geitaosti) á eina sneið af því. En það er gott með ýmsu áleggi. E’ða þá með súpu.
[…] þið lásuð um grófa ostabrauðið með ólífum sem ég var með uppskrift að hér fyrir helgi en hafði bakað nokkru fyrr, þá munið þið […]