Svikið sæbjúga

Einhverntíma um daginn var ég að svara fyrirspurn frá erlendri kunningjakonu minni, fræðikonu sem var að skrifa um beinlausa fugla, falska héra, gæsir, endur og fleira slíkt, og varpaði þá fram fyrirspurn á Facebook um hvað fólk kannaðist við af þessu tagi. Líklega er nú fátt vel þekkt nema falski/svikni hérinn – jú, og ýmsir kannast reyndar við beinlausa fugla en þá oft sem venjulegan pottrétt en ekki vefjurnar sem þetta eru upphaflega.

En þetta kveikti ákveðnar hugmyndir hjá mér og þegar ég var í gær að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera við afganginn hakki sem ég hafði keypt fyrr í vikunni til að steikja mér saxbauta eins og ég sagði frá (Bónus selur ekki hakkskammta sem henta fyrir einn – eða einu sinni í matinn) – þá ákvað ég að gera eitthvað falskt. Eða svikið.

Ég athugaði hvað ég átti, spilaði út frá því og útkoman var góð en ég var ekki alveg viss hvað ég ætti að kalla þetta. Ekki héra eða gæs eða önd – datt sebrahestur í hug en svo þegar ég horfði á réttinn, þá fannst mér allt í einu að hann líktist engu nema sæbjúga.

Svo að  – gjörsvovel, svikið sæbjúga.

Þetta voru svona 200-250 g af dönsku nautgripahakki, sem hentar betur í svona rétti en ungnautahakk. Ég setti hakkið á bökunarpappírsörk, pressaði það dálítið út, lagði svo aðra örk ofan á og flatti það út í nokkuð stóran en þunnan rétthyrning. Það þarf að reyna að fletja það jafnt en ekki beita of miklum þrýstingi svo ekki komi göt (en lítill vandi að bæta þau ef þau koma). Ég fjarlægði svo efri pappírsörkina, kryddaði hakkið með pipar, salti og 1 tsk eða svo af herbes de provence (má nota einhverja aðra kryddjurtablöndu. Saxaði svo einn eða tvo vorlauka og nokkur basilíkublöð og dreifði yfir og skar nokkrar ostsneiðar og setti ofan á annan helminginn.

Það má nota hvaða ost sem maður á til en ég átti bita af hvítmygluosti, held að þetta hafi verið Auður.

Svo rúllaði ég vefjunni upp frá annarri langhliðinni, þeirri sem ég hafði sett ostinn á. Notaði pappírinn til að hjálpa mér að rúlla vefjunni þétt upp.

Svo raðaði ég beikonsneiðum á bökunarpappír, hlið við hlið og lét þær skarast aðeins. Þetta eru einar tíu þykkt skornar beikonsneiðar – en fjöldinn fer annars eftir því hvað hakkvefjan er löng.

Ég lagði svo hakkvefjuna á endann á beikonsneiðunum og vafði henni inn í sneiðarnar – notaði pappírinn til að hjálpa mér að vefja.

Setti rúlluna svo í eldfast form sem ég var búin að pensla með svolítilli olíu, lét samskeytin snúa niður, og bakaði hana í 35-40 mínútur. Ég ætlaði bara að hafa salat með en að öðrum kosti hefði ég líklega sett tómata eða annað grænmeti í fatið með vefjunni, jafnvel forsoðnar kartöflur.

Sko bara, minnir þetta ekki einmitt á sæbjúga?

En hvað sem því líður var þetta alveg hreint ágætt. Og ekkert síðra kalt í hádeginu í dag.

Kannski er svikið sæbjúga samt ekki rétta nafnið. Svikinn sebrahestur? Hmmm …

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s