Ekki beint uppskrift í þetta skipti, meira frásögn …
Ég borða oft jógúrt og nota hana líka í matargerð en eina bragðtegundin af jógúrt sem mér finnst góð er jógúrt með jógúrtbragði. Það er að segja, ósæt jógúrt án ávaxta og bragðefna. Þar með er reyndar ekki sagt að ég borði aldrei sæta jógúrt eða með ávöxtum eða bragðefnum en ég vil þá bæta þessu í sjálf. Ferskum eða frosnum ávöxtum, ávaxtamauki, sultu, hunangi, kryddjurtum … já, og af og til einni eða tveimur skeiðum af Royal-búðingsdufti (fólk heldur að þetta sé eitthvert heilsusamlegt herbó- eða prótínduft og finnst ég rosalega hollustuvæn. Það ætti bara að vita.).
En semsagt, eina jógúrtin sem ég kaupi er hrein jógúrt án ávaxta. Sem ég borða reyndar oft eintóma.
Fyrir mörgum árum gerði ég einstöku sinnum jógúrt sjálf en fannst það allt of mikið vesen. Sem það er reyndar ekki en ég er letingi og voða lítið fyrir vesen. Ég vil hafa hlutina eins auðvelda og mögulegt er. Og að þurfa að passa upp á hitastigið á jógúrtinni og svona – nei, ég nennti því bara ekki þegar til lengdar lét. En mig hefur alltaf langað svolítið í svona jógúrtgerðargræju. Sem er í rauninni bara tæki til að halda réttu hitastigi á mjólkinni í nokkra klukkutíma, á meðan hún er að súrna og breytast í jógúrt.
Og á laugardaginn var skrapp ég inn í Kringlu einhverra erinda, ranglaði inn í Byggt og búið og rak þar augun í þessa forláta jógúrtmaskínu sem var á einhverju ofurtilboði (eða svo var fullyrt) og kostaði bara 4999 krónur. Bara eitt eintak eftir. Svo ég féll samstundis fyrir henni. Fór með hana heim og er búin að vera að dunda mér við jógúrtgerð síðan. Bara jógúrt enn sem komið er, það á að vera hægt að gera einhverja ferskosta í græjunni og svona. Ég geymi það aðeins.
Þetta er nú um það bil einfaldasti hlutur í heimi. Það fylgja sex litlar krukkur (og tvær stærri) með græjunni, ég fyllti litlu krukkurnar næstum af mjólk (átti bara léttmjólk þegar ég byrjaði en bætti svolitlum rjóma út í hana) og bætti 1-2 matskeiðum af hreinni jógúrt í hverja krukku. Mjólkin átti að vera við stofuhita en ég tók hana bara úr ísskáp og velgdi hana rólega í potti.
Krukkurnar eru hafðar opnar. Þeim er svo raðað í jógúrtgræjuna og lokið sett á hana.
Svo er bara að kveikja á tækinu. Það eru tvær stillingar, önnur fyrir jógúrt og hin fyrir ost. Sjálfgefin tímastilling er 8 klst en hægt að breyta henni; ég hef haft tækið í gangi yfir nóttina og fyrsta kvöldið, þegar ég var búin að setja mjólkina í krukkurnar, áttaði ég mig á því að klukkan var bara hálfellefu svo ég hefði eiginlega þurft að vakna hálfsjö til að taka jógúrtina úr tækinu – ég bætti þá við klukkutíma.
Tækið pípir þegar tíminn er liðinn og slekkur á sér en það gerir nú varla mikið til þótt jógúrtin bíði þar í smástund. En svo eru krukkurnar settar í kæli og látnar vera þar í minnst fjóra klukkutíma.
Hér er jógúrtin kæld og tilbúin. – Eins og sjá má er þessi ágæti bakki kyrfilega merktur bandaríska sjóhernum. Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig hann komst í mína vörslu. En þetta er kostagripur.
Jógúrtdollunum í fyrsta skammtinum sem ég gerði var næstum hægt að hvolfa (ókei, það var smárjómi í jógúrtinni). Svo er líka hægt að nota undanrennuduft út í til að gera jógúrtina þykkari.
Eini gallinn er að það eru bara 125 ml í hverri krukku … en það er þá bara hægt að fá sér tvær í morgunmatinn.
Og svo má til dæmis setja ber út í – þau eru ekki margar mínútur að þiðna en það má líka taka þau úr frysti kvöldið áður og hafa í ísskápnum. Svo er líka hægt að hræra dálítilli sultu eða ávaxtamauki saman við og auðvitað setja músli eða annað kornmeti út í. Eða bara hunang.
Nú á ég alltaf morgunmatinn tilbúinn í ísskápnum. Og jógúrt til að nota í sósur, múffur og margt fleira. Eiginlega vantar mig fleiri krukkur …
Mér finnst jógúrtin sem ég hef verið að gera síðustu dagana mjög góð, töluvert betri en sú sem ég kaupi í búð. Ég er svosem ekkert búin að reikna út hvað græjan verður lengi að borga sig upp – sennilega ekkert óskaplega lengi – en það er ekki málið.
Ég notaði búðarjógúrt í fyrstu lögunina en svo hef ég notað mína eigin jógúrt síðan til að koma jógúrtinni af stað. En það er mælt með að maður noti nýja jógúrtgerla í 5-6 hvert skipti – sennilega prófa ég að panta mér jógúrtgerla hjá ostagerd.is.
Er þessi græja sem sagt bara hitabað? Seturðu vatn í hana eða hitar hún bara loftið undir lokinu?
Bara heitt loft, ekkert vatn.
Við kaupum yfirleitt nýjan startara á já, 4-5 vikna fresti, semsagt bara eina jógúrt án ávaxta. Vissi ekki að það væri hægt að kaupa gerilinn beint.
Ég held að þetta sé alveg nýtt, hef ekki prófað enn að panta þarna.