Forréttur og forforréttur

Það kemur oft fyrir að fólk segir við mig ,,ekki skil ég hvernig þú nennir að elda svona fyrir þig eina“, og við því á ég svosem ekki nema eitt svar, ég nenni  því af því að mér finnst óskaplega gaman að elda. Oftast nær. Auðvitað koma dagar þar sem ég nenni ekki að gera neitt – en þeir mundu líka koma ef ég væri að elda fyrir fleiri.

Svo hefur það líka ýmsa kosti að vera einn í mat hjá sjálfum sér. Ég þarf ekki að taka tillit til smekks eða þarfa nokkurs nema mín og ef mig langar að borða kvöldamtinn klukkan hálfsex eða hálfellefu um kvöldið, eða hádegismatinn korter fyrir þrjú – nú, þá geri ég það bara (nei, ég hef aldrei verið sérstök reglumanneskja, allavega ekki hvað matmálstíma varðar).

Og ég skal alveg játa að ég læt stundum meira eftir mér en ég mundi annars gera – ég kaupi stundum smávegis af einhverju hráefni sem ég mundi ekki tíma að elda oní fimm manna fjölskyldu – og get oft leyft mér meiri tilraunastarfsemi en þegar ég elda fyrir aðra. Auðvitað eru innkaup töluvert dýrari og óhagstæðari fyrir einn en fleiri en ég hef nú alltaf verið dugleg að nýta afganga.

En hvað sem því líður, þá finnst mér líka og ekki síður gaman að elda handa öðrum, hvort sem fjölskyldan kemur í mat á virkum degi (sonurinn og tengdadóttirin eru til dæmis að koma í mat á eftir frekar óvænt og ég er að upphugsa leið til að láta eina kálfakótelettu, að vísu ansi stóra, nægja í mat handa þremur) eða halda matarboð um helgi.

Sem var einmitt það sem ég var að dunda mér við í gær, ég var með sjö manna matarboð á sunnudagskvöldið og ætla að segja eitthvað frá því hér og næstu daga. Myndefnið verður þó kannski af skornum skammti því ekki er ég nú að ætlast til þess að gestirnir bíði sársvangir á meðan ég er að stilla réttunum upp til myndatöku …

Matseðillinn var þríréttaður eða eiginlega fjórréttaður því að ég byrjaði á að bjóða upp á nokkurskonar antipasto á meðan ég var að elda forréttinn. Hér segi ég aðeins frá því og svo kemur uppskrift að forréttinum.

Ég byrjaði á að baka brauð úr deigi sem ég átti í ísskápnum – þetta er deig sem er brauðhveiti og heilhveiti til helminga. Ég mótaði tvö aflöng brauð, lét þau lyfta sér og stráði ögn af hveiti á annað en graskersfræjum á hitt. Lét þau lyfta sér, renndi þeim svo yfir á hitaðan leirplatta og bakaði þau við 240°C í um 25 mínútur.

Svo skar ég brauðið í þunnar sneiðar og bar það fram með reyktum silungi, ítalskri pylsu, PrimaDonna-osti og hráu taðreyktu hangikjöti (sem kláraðist og er því ekki með á myndinni).

En svo var það forrétturinn.

Ég var með steinbítsflak, um 600 grömm (fyrir 7) og skar það í 8 bita (einn auka til öryggis, ef ég skyldi til dæmis missa einn í gólfið …).

Ég kryddaði fiskinn með pipar og salti. Hellti svolítilli olíu í eldfast mót, velti fiskbitunum upp úr henni og raðaði þeim svo í mótið og dreifði dálitlu af tómat- og appelsínumarmilaðinu sem ég var með uppskrift að hér um daginn yfir. Það má alveg nota ýmislegt annað í staðinn, marmilaði (þó helst ekki of sætt, ég átti einu sinni límónumarmilaði sem ég notaði með mjög góðum árangri í svona), eitthvert kryddmauk eða mangó-chutney, til dæmis.

Þetta má alveg gera með nokkurra klukkutíma fyrirvara ef maður er með matarboð, svo þarf bara að stinga þessu í 200°C heitan ofn í svona 8-10 mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt steiktur í gegn.

Þar sem ég hafði smurt sætu marmilaði á steinbítinn fannst mér betra að hafa eitthvað svolítið súrt til mótvægis, þó ekki of, svo að ég keypti fjallaspínat í Bónus. Leggurinn á því er sver og mikill en nær ekki langt upp í blaðið. Ég skar leggina úr og skar þá svo í litla bita.

Saxaði líka niður einn lauk, hitaði svolitla olíu á pönnu og lét lauk og spínatstilka krauma í henni í nokkrar mínútur við fremur vægan hita.

Ég skar nokkrar steinlausar ólífur í sneiðar, setti þær á pönnuna ásamt smávegis af rúsínum (þessar eru ljósar en það er ekki nauðsynlegt), kryddaði með pipar og salti og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót. Þá hrærði ég dálítilli saxaðri steinselju saman við og tók pönnuna af hitanum. Þetta má líka búa til með nokkrum fyrirvara og geyma.

Ég setti þetta svo í ofninn skömmu áður en sest var til borðs og steikti í um 9 mínútur við 200°C. Gufusauð á meðan spínatblöðin (var reyndar að hugsa um eftir á að ég hefði kannski bara átt að hafa þau fersk), setti þau á diska, setti einn fiskbita á hvern disk og skipti kássunni jafnt á diskana.

Þetta var alveg ágætt, ekki síst með svolitlu Pfaffenheim Pinot Gris.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s