Í tengslum við alla umræðuna sem er búin að vera í gangi síðustu dagana um kynjahlutverk og uppeldi og fyrir hverja bækur eru og það allt hef ég svolítið verið að velta fyrir mér hvort ég skrifi mínar bækur og uppskriftir eitthvað frekar fyrir annað kynið en hitt. Og ég hreinlega veit það ekki, geri mér ekki grein fyrir því. Ég minnist þess ekki að hafa skrifað með annaðhvort kynið í huga – það kemur fyrir að ég stoppa aðeins við og hugsa ,,bíddu, hvað á ég að gefa nákvæm fyrirmæli, á ég að gera ráð fyrir að uppskriftin verði notuð af byrjanda eða frekar einhverjum reyndum“ – en ég sé aldrei fyrir mér neinn sérstakan notanda. Og mér finnst reyndar út í hött að semja matreiðslubækur sem eiga að vera eingöngu fyrir annað kynið.
Hins vegar geta matreiðslubækur höfðað mismikið til kynjanna. Bollakökubækur höfða að öllu jöfnu meira til kvenna, villibráðarbækur til karla (undantekning: t.d. ég). Og það kemur fyrir þegar ég les matreiðslubækur eftir aðra að mér finnst ég skynja að höfundurinn sé með alveg ákveðnar hugmyndir um væntanlegan notanda og þar á meðal kyn hans (og í eldri bókum er oftar en ekki gert ráð fyrir að sá notandi sé kvenkyns) svo það má vel vera að þess sjáist líka merki í mínum bókum, en það er þá ómeðvitað. Enda er nú orðið, allavega hjá fólki í kringum mig, fullt eins algengt að karlmenn sjái um eldamennskuna á heimilinu.
Ég er allavega mjög ánægð með að eldamennska er ekki lengur talin hlutverk konunnar, að það telst fullkomlega normal að litlir og stórir strákar hafi áhuga á eldamennsku og að það er ekki lengur fastur dálkur í Mogganum sem heitir Uppáhaldsréttur eiginmannsins. Eins og var þegar ég var að alast upp.
En það rifjaðist upp fyrir mér í þessari umræðu allri að fyrir 14 árum eða svo, þegar Matarást var nýkomin út og frétt birtist um það í blöðum, þá hringdi í mig kona. Ég kannaðist við nafnið þegar hún kynnti sig, þetta var kona sem var þekkt fyrir ákveðnar skoðanir og skrifaði stundum í blöð og hún sagðist hafa lesið um bókina í Mogganum þá um morguninn og gæti ekki beðið með að segja mér hvað sér þætti þetta glæsilegt framtak hjá mér.
Ég var nú frekar ánægð og upp með mér og hélt að konan væri svona áhugasöm um matargerð, sem getur reyndar vel verið að hún hafi verið en það kom aldrei til tals – hún hélt nefnilega áfram og fór mikinn og var greinilega þeirrar skoðunar að þetta væri bók þar sem hefðbundið húsmóðurhlutverk – þar með talið auðvitað eldamennska – væri hafið til skýjanna, og innan tveggja mínútna hafði lofræða konunnar snúist upp í reiðilestur um rauðsokkur og annan slíkan lýð sem væri jafnvel fylgjandi fóstureyðingum; það var greinilegt að hún gekk út frá því vísu að þar sem ég hefði skrifað matreiðslubók hlyti ég að vera á sama máli.
Ég sá svosem engan sérstakan tilgang í að leiðrétta þetta og þegar frúin var búin með reiðilesturinn kvöddumst við með virktum. Og alveg burtséð frá skoðunum mínum á rauðsokkum og fóstureyðingum og því öllu er eins víst að blessaðri konunni hefði brugðið illa ef hún hefði komist að því hvað ég er lítil húsmóðir í eðli mínu.
En allavega: ég held að uppskriftin sem hér kemur sé ekkert sérlega kynbundin. Mögulega þó frekar upp á karlhöndina ef eitthvað er.
Fiskibökur eru svosem ekki mjög algengar hér en öðru máli gegnir um England og þessi er dálítið ensk en þó með smásnúningi. Enskar fish pies eru yfirleitt ekki heilar bökur í deigskel, heldur eru þær bakaðar í móti með ,,loki“ yfir, sem algengast er að sé úr kartöflustöppu en getur einnig verið t.d. úr smjördeigi og ég ákvað einmitt að gera þannig böku – eða bökur.
Ég átti pakka með fimm smjördeigsplötum í frystinum og byrjaði á að taka tvær þeirra út – þær eru ekki nema 15-20 mínútur að þiðna á eldhúsbekknum. Svo stillti ég ofninn á 200°C.
Ég tók þorskflak, um 300 g (það má líka nota ýsu eða annan hvítan fisk en þorskur hentar mjög vel), skar það í bita og setti í lítinn pott ásamt timjankvisti (má líka nota þurrkað timjan), 1 hvítlauksgeira, léttpressuðum með flötu hnífsblaði, 1/2 tsk af piparkornum og svolitlu salti. Hellti léttmjólk yfir (mældi hana ekki en líklega um 250 ml), hitaði að suðu og lét malla við mjög vægan hita í um 4 mínútur. Tók þá pottinn af hitanum og lét standa nokkra stund.
Á meðan tók ég smábita af chorizo-pylsu (það er snúningurinn, ensk fiskbaka er mun líklegri til að vera bragðbætt t.d. með gráðaosti) og skar í litla teninga. Það mætti líka nota pepperóní. Skar líka niður 2 vorlauka og dálítið steinseljuknipp (má sleppa)i. Ég hitaði örlitla olíu á lítilli pönnu og steikti chorizo-pylsuna og vorlaukinn í 3 mínútur eða svo, tók svo pönnuna af hitanum og hrærði steinseljunni saman við.
Ég veiddi svo fiskinn upp úr mjólkinni og setti á disk en síaði mjólkina, mældi hana og bætti við svo hún væri 250 ml. Svo skolaði ég pottinn, bræddi í honum 1 msk af smjöri og hrærði 1 msk af hveiti saman við.
Svo hrærði ég mjólkinni smátt og smátt saman við og bakaði sósuna upp. Bætti við hálfri teskeið af fiskikrafti eða svo og lét sósuna malla í svona fimm mínútur og hrærði öðru hverju. Smakkaði hana svo til. Ef hún er mjög þykk má bæta við svolítilli mjólk eða vatni.
Svo losaði ég fiskinn sundur í flögur og skipti honum á þrjú form sem ég var búin að pensla aðeins með olíu og dreifði chorizo-blöndunni yfir. – Auðvitað má líka setja þetta í eitt form, tvö eða fjögur en það hentaði mér í þetta skipti að nota þrjú. Þessi uppskrift gæti hentað í góðan kvöldmat (með afgangi í nestið daginn eftir) fyrir einn, létta máltíð fyrir tvo eða forrétt fyrir 3-4.
Smjördeigið var nú þiðnað og ég stakk út þrjá hringi úr því og lagði ofan á formin. Ef ég hefði bara verið með eitt form hefði ég líklega pressað saman kantana á plötunum tveimur til að festa þær saman og skorið þær svo til eftir forminu.
Þar sem það var smáafgangur af deiginu skar ég út litla fiska og setti ofan á og penslaði svo með eggjarauðu. – Jájá, ég veit að þetta eru ekki sérlega flottir fiskar og þessi efst til hægri minnir eiginlega mest á grís. Myndlistar/föndurhæfileikar mínir eru afar takmarkaðir.
Svo setti ég formin í ofninn og bakaði við 200°C í 15 mínútur eða svo, þar til deigið hafði blásið út og tekið lit.
Ég bar svo bökurnar fram með salati, annað þarf ekki til. Þetta gæti verið ágætis forréttur í matarboði og þá mætti jafnvel nota fleiri fisktegundir, jafnvel bæta nokkrum rækjum eða smávegis humar út í.
Ég var frekar svöng og borðaði tvær bökur. Þær voru alveg hreint ágætar, bragðmiklar og góðar.
Ég myndi aldrei kaupa mér bollakökubók og á erfitt með að ímynda mér að nokkur vina minna gæfi mér slíka bók, nema þá sem eitthvað algert grín. En rosalega langar mig að gera svona fiskböku og sé alveg fyrir mér að hafa chorizo OG gráðaost 🙂
Jamm, ég ætti kannski að umorða þetta: Bollakökubækur höfða að öllu jöfnu ekki til karla. – Ég held að chorizo og gráðaostur gæti alveg gert sig, ég átti bara ekki gráðaost.
takk fyrir dásamlega síðu. Þínar bækur eru álitnar hið mesta þarfaþing og uppspretta ánægju bæði karla og kvenna í mínum hópum.