Byltingar- og brúðkaupsafmæli

Ég á 32 ára brúðkaupsafmæli í dag. Eða það er reyndar líklega ekki alveg að marka af því að ég losaði mig við kallinn fyrir bráðum 24 árum og er búin að vera hamingjusamlega fráskilin allar götur síðan, en ég hef nú samt stundum haldið upp á brúðkaupsafmælið mitt. Á silfurbrúðkaupsafmælinu fór ég til dæmis í sælkera- og vínsmökkunarferð til Búrgundar, það var nú ágætt. Svo ætla ég að halda upp á silfurskilnaðarafmælið mitt þegar þar að kemur …

Ég fór að gá hvort svona brúðkaupsafmæli héti eitthvað eða væri helgað einhverju sérstöku svo ég gæti trítað mig á viðeigandi hátt. En það var nú eiginlega ekki, samt fann ég einhverja ameríska síðu þar sem sagt var að 32 ára brúðkaupsafmæli héti Transportation. Svo að kannski hefði ég átt að fá mér bíl eða hjól eða bara hjólbörur. En ég ferðast nú bara með strætó og ekki gefur maður sér strætókort í brúðkaupsafmælisgjöf, ekki einu sinni þó að hjónabandið hafi farið í vaskinn fyrir aldarfjórðungi (og svo eru líka sex mánuðir eftir á kortinu sem ég á núna). Ég hefði náttúrlega getað keypt mér flugmiða til útlanda en mig langar ekkert til útlanda akkúrat þessa dagana.

Svo ég ákvað að baka bara eitthvað handa mér. Það er líka 95 ára afmæli rússnesku byltingarinnar í dag, sko.

Gallinn var reyndar að ég nennti ekki að baka og langaði bara til að hreiðra um mig í stólnum fyrir framan sjónvarpið með kaffibolla og bakkelsi og prjóna jólakúlu eða eitthvað.

En ég kann ráð við því.

Ég á nefnilega stundum tilbúið deig af ýmsu tagi í ísskápnum, sumt heimagert og annað keypt, og gríp til þess akkúrat þegar svona stendur á, alltsvo þegar ég er löt eða tímabundin. Þægilegt og fljótlegt og jújú, þetta er heimabakað …

Ég átti einmitt croissant-deig frá Wewalka í ísskápnum. Glöggir lesendur taka kannski eftir því að það var útrunnið fyrir … já,  hálfum mánuði. Fastir lesendur vita líklega að ég tek meira mark á eigin mati en dagstimplum. Þetta deig var í fínasta lagi. Venjulega er ég samt búin að baka úr svona deigi löngu áður en það rennur út en lífið hefur ekki alveg verið í föstum skorðum að undanförnu.

Ég kann alveg að búa til smjördeig sjálf, lærði það á sjókokkanámskeiði í Húsmæðraskólanum á Akureyri forðum daga (ekki veit ég reyndar hvað sjókokkar eru mikið að fást við smjördeigsbakstur frá grunni) og hef einstöku sinnum gert það. En satt að segja sé ég ekki nokkra ástæðut til þess þegar maður getur keypt ágætis smjördeig útí búð og notað þegar manni hentar.

Croissant-deiginu er skipt í sex þríhyrnur með svona rifgötum en maður rífur það nú samt ekki … Ég stillti ofninn á 200°C, rúllaði deiginu út og skar ofan í rifgötin með beittum hníf til að aðskilja þríhyrnurnar.

Ef þetta hefði verið með morgunmatnum hefði ég kannski ekki sett neitt inn í hornin. En þetta var með kaffinu svo ég ákvað að setja fyllingu í þau öll, bara mismunandi. Ég notaði suðusúkkulaði, pekanhnetur, apríkósusultu og þurrkaðar apríkósur. Hér er ég búin að setja brytjað súkkulaði og hnetur á breiðari endann á tveimur þríhyrnum, súkkulaði og apríkósur á eina, apríkósusultu og pekanhnetur á eina og svo var apríkósusulta og brytjaðar apríkósur á þessum tveimur sem ekki sjást.

Svo rúllaði ég hornunum upp frá breiðari endanum, sveigði þau aðeins í hálfmána og setti þau á pappírsklædda bökunarplötu. Kleip aðeins saman endana til að fyllingin rynni síður út (þetta gildir ekki síst um þær sem eru með sultufyllingu).

Þegar ég var búin að rúlla upp öllum hornunum hrærði ég saman einni eggjarauðu og örlitlu köldu vatni og penslaði hornin með blöndunni. Setti hornin svo í miðjan ofninn og bakaði þau í 12-15 mínútur.

Best að fylgjast með hornunum síðustu mínúturnar og taka þau út áður en þau verða of dökk. Taka þau svo út og láta kólna aðeins á grind – en þau eru auðvitað best volg (ekki brennheit, maður getur skaðað sig á sultunni eða súkkulaðinu).

Og svo bara gott kaffi með. – Ef maður er með horn með mismunandi fyllingum má alveg merkja þau einhvern veginn utaná svo maður viti hvað maður  er að fara að bíta í, til dæmis með því að setja lítinn hnetu- eða apríkósbita eða eitthvað slíkt ofan á horn með slíku innihaldi áður en það er bakað.

En mér finnst reyndar skemmtilegra að vita ekkert hvað ég er að fara að fá. Þessi var til dæmis með súkkulaði og hnetum.

Enn volgt og súkkulaðið mjúkt og hálfbráðið. Mmmm.

Fínasta brúðkaupsafmæli, bara.

3 comments

  1. Mikið hef ég nú gaman,af að lesa bloggið þitt.Stundum veltist ég um af hlátri,góðar uppskriftir þó nokkrar sem hef ég gert.Takk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s