Kósíheit í kuldatíð

Ég er að vinna heima núna eftir hádegi vegna veðurs og það er þegar búið að bjarga ýmsu – yfirbreiðslan var fokin af grillinu þegar ég kom heim, annað hliðarborðið lá yfir í garði nágrannanna og svalahurðin fauk svo upp stuttu eftir að ég kom heim, það hefði getað orðið slæmt ef ég hefði ekki verið hér – en annars er þetta bara notalegt (ég er ekki veðurhrædd manneskja) og til að gera það ennþá notalegra ákvað ég að hita mér kryddkakó.

Ég var að tala um það í gær hvað ég var matvönd þegar ég var krakki og meðal annars var ég fræg fyrir það að vilja ekki kakó, sem þá var aðal- og eiginlega eini drykkurinn fyrir börn í allskyns kökuboðum. Reyndar ekki rjóma heldur, eða rjómatertur. En nú orðið kann ég að meta þetta allt saman, þó í hófi, og það er einstaklega notalegt á köldum degi að fá sér bolla af heitu  kakói. Mér þykir líka betra að hafa það kryddað og þar eru margvíslegir möguleikar.

Fyrst tíndi ég til það sem ég ætlaði að hafa í kakóið – 1/2 l af léttmjólk, 3 1/2 msk ljós hrásykur (má vera venjulegur líka en mér þykir hrásykurinn betri hér), 2 msk kakóduft, 1/2 tsk kanell, 1/4 tsk salt og svolítið af kakó-chili-kryddblöndu sem ég á og hentar hér mjög vel – en í staðinn mætti krydda kakóið með örlitlum chili- eða cayenne-pipar.

Ég  kveikti undir skaftpotti og setti allt saman í hann.

Svo hrærði ég þetta saman og hrærði oft í á meðan kakóið var að hitna. – Ég veit ekki alveg af hverju þessar skemmtilegu loftbólur koma í kakóið, sennilega einhver efnafræðileg áhrif – en þær hverfa allavega þegar hrært er. Ég hitaði kakóið að suðu og fylgdist vel með því, það er rosalega fljótt að sjóða upp úr. Svo tók ég það af hitanum, hrærði aftur vel og hellti því svo í súkkulaðikönnu. Sem er út af fyrir sig alveg óþarft en fyrst ég á súkkulaðikönnu (reyndar margar), þá nota ég súkkulaðikönnu.

Og svo er bara að kveikja á kertum og hella heitu kakóinu í bolla …

… setja sykurpúða út í (eða skeið af þeyttum rjóma ef maður vill það heldur) og strá ögn meira af chili-kakóblöndunni yfir (eða bara svolitlu kakódufti eða rifnu súkkulaði ef maður vill það heldur) …

… og hreiðra um sig í kósíheitum með kakóbolla og kertaljós og gleyma veðrinu úti.

4 comments

  1. Jamm, kakóduftið er svolítið feitt og því vatnsfælið. Bólurnar myndast sem sagt af því að kakóið vill ekki snerta vökvann. Þótt sé hægt að þeyta þær í burtu leysist kakóið ekki almennilega upp í mjólkinni fyrr en hitastigið er orðið nógu hátt til að bræða fituna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s