Matur og minningar

Nei, ég var ekkert hætt að blogga – þótt, eins og ég hef áður sagt, sé nokkuð víst að færslurnar verði færri í vetur, fjölgar svo líklega aftur þegar fer að birta.

En ég hef verið fyrir norðan að undanförnu. Mamma mín dó á dögunum og ég fór norður í síðustu viku til að vera hjá pabba gamla fram yfir jarðarförina. Elda ofan í hann, meðal annars. Ég hef ekki eldað ofan í okkur tvö ein síðan sumarið 1969, þegar ég var tólf ára. Þá var ég ráðskona hjá honum, mamma var frammi í sveit um sumarið, pabbi var með magasár og mátti fátt borða svo að ég sauð ofan í hann ýsu og kartöflur upp á hvern dag en eldaði yfirleitt eitthvað annað handa sjálfri mér. Hvorugt okkar þurfti sérfæði núna.

Meðal annars ætlaði ég að gleðja hann með því að elda handa honum kjötsúpu, sem ég stóð í þeirri meiningu að þeim mömmu hefði báðum þótt óskaplega góð. En þegar ég stóð og hrærði í pottinum datt upp úr honum að hann hefði nú aldrei verið sérlega hrifinn af kjötsúpu; ,,það var mamma þín sem hélt svo mikið upp á hana“. Ég komst meira að segja að því að það var ekki ýkja langt síðan mamma hafði sjálf eldað kjötsúpu (annars fengu þau mat sendan heim); hálfmáttlaus öðrum megin eftir heilablóðfall, með Parkinsonsveiki, í göngugrind – þá stóð hún samt við eldavélina og mallaði kjötsúpu – af því að henni fannst hún svo góð. Hún var hörð af sér, hún mamma.

Pabbi borðaði samt kjötsúpuna sem ég eldaði með bestu lyst.

Ég eldaði líka karrímangókókoskjúkling handa honum, sem ég held að hann hafi verið mjög ánægður með. ,,Það þýðir ekkert að bjóða pabba þínum þetta,“ hefði mamma líklega sagt, hún hafði alltaf einhverja vantrú á því að pabbi væri viljugur að bregða út af vananum – sennilega af 60 ára reynslu  en mér hefur nú samt fundist að hann væri leiðitamari í þeim efnum en hún vildi meina. Og honum þykir kjúklingur góður, ólíkt flestum bræðra hans, sem fussuðu og sveiuðu þegar slíkur matur var nefndur við þá – eins og raunar er um margt eldra fólk.

Uppskriftin hér á eftir er samt ekki að þessum kjúklingarétti og ég veit ekki hvernig pabbi mundi kunna að meta þetta, þar sem hann hefur aldrei verið mikið fyrir pasta og kannski ekki mikið verið boðið upp á það. Og honum finnst ekkert matur nema það séu kartöflur með.

(Og þá ætla ég að rifja upp aðra sögu, sambærilega kjötsúpusögunni. Þegar ég var stelpa, 13 ára eða svo, var ég einu sinni í tvær eða þrjár vikur í sveit hjá afa og ömmu í Eyhildarholti, foreldrum pabba. Ég var mjög matvandur unglingur og borðaði til dæmis ekki kartöflur í nokkur ár. Við hádegismatarborðið einn daginn var amma eitthvað að þusa yfir þessari fyrirtekt í barninu, að vilja ekki kartöflur. Þá tautaði afi ofan í bringuna: ,,Mér væri nú sama þótt ég sæi þær aldrei.“ Amma heyrði til hans og átti ekki orð; þetta hafði hún aldrei heyrt áður, búin að sjóða kartöflur ofan í hann í meira en 50 ár og aldrei vitað annað en honum þætti þær bara ágætar.)

En hér eru engar kartöflur.

Ég átti tvær kjúklingabringur í frysti, tók þær út og skar þær niður hálffrosnar. Það er ekkert nauðsynlegt, gerði það bara til að flýta aðeins fyrir. Ég skar þær á ská til að fá stærri skurðflöt og hafði sneiðarnar svona 1-1 1/2 cm þykkar.

Ég blandaði saman á djúpum diski svona 1 msk af olíu (þetta var jarðhnetuolía en það má nota ólífuolíu eða aðra olíu), 2 tsk af sítrónusafa,1/2  tsk af timjani (sem er reyndar líklega ekki komið í maríneringuna þegar myndin er tekin) 1/2 tsk af kummini, örlitlum cayenne-pipar, pipar og salti, velti kjúklingasneiðunum upp úr  og lét þær liggja á meðan þær voru að þiðna; hrærði í nokkrum sinnum til að velta þeim upp úr maríneringunni.

Ég hitaði vatn í potti og saltaði það, setti pasta (ég notaði skeljar) út í og sauð þær samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Á meðan hitaði ég grillpönnu (má líka vera venjuleg) vel, setti kjúklingasneiðarnar á hana og steikti þær við fremur háan hita í svona 3 mínútur.

Þá sneri ég þeim og steikti þær áfram við góðan hita í 3-4 mínútur, eða þar til þær voru steiktar í gegn en ekki orðnar þurrar.

Þá var pastað einmitt hæfilega soðið og ég tók svolítið af pastasoðinu frá em hvolfdi svo úr pottinum í sigti, lét renna af pastanu, setti það í skál og hellti 1-2 matskeiðum af ólífuolíu yfir og blandaði vel. Tók svo væna lúkufylli af salatblöðum (lambhagasalat, minnir mig, en má vel vera annað), saxaði gróft og blandaði saman við sjóðheitt pastað. Bætti við smáskvettu af pastasoði.

Svo setti ég pastasalatið í skál með kjúklingasneiðunum. Það sakar ekkert að bæta við nokkrum basilíkublöðum ef maður á þau.

Og svo bara nóg af nýrifnum parmesanosti með.

Jú, líklega hefði nú pabbi gamli alveg kunnað að meta þetta – ef ég hefði soðið nokkrar kartöflur handa honum til að hafa með í staðinn fyrir pastaskeljarnar.

3 comments

  1. Innilegar samúðarkveðjur til þín.

    Er annars einhver möguleiki á að fá karrímangokókoskjúklinga uppskrift hjá þér? Þessi orð renna öll eitthvað svo ljúft saman 🙂

    • Þakka fyrir það.

      Skoooo … ég var ekki að elda eftir neinni uppskrift og lagði ekkert á minnið hvað ég gerði, keypti bara eitthvað smávegis í kaupfélaginu og notaði svo það sem ég fann í kryddskápnum hennar mömmu, sem var nú ekki mjög fjölskrúðugt. Ég steikti bara kjúklingabringur með einhverju grænmeti og lét þetta svo malla í kókosmjólk kryddaðri með karrídufti og mangó-chutney … En kannski elda ég fljótlega eitthvað svipað og set hér inn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s