Múffur sem ekki eiga heima í múffubókinni

Sko, ég kalla þetta múffur og þær eru bakaðar í múffuformum og alles en samt held ég að þótt ég hefði bakað þær í vor hefði ég ekki sett þær í múffubókina, fannst að múffurnar þar yrðu að vera úr einhvers konar deigi og það er ekki til staðar hér. Vissulega eru múffur með hakki í bókinni en þær voru nú handa honum Bangsa og ekki alveg mannamatur (Úlfur dóttursonur minn smakkaði þær til að gá hvort ég væri nokkuð að eitra fyrir hundinn en það telst ekki með).

Ég er reyndar viss um að Bangsi yrði hrifinn af þessum (hann étur svotil allt) en þær eru kannski aðeins of fansí fyrir hunda, þótt Bangsi eigi allt gott skilið. Þær eru hins vegar ágætar fyrir okkur Úlf og annað mannfólk og kosturinn við þær eins og aðrar múffur er að það er upplagt að frysta það sem maður borðar ekki strax og nota svo bara eftir hendinni.

Svo eru líka beikonmúffur í múffubókinni en þær eru úr deigi og minna ögn á amerískar pönnukökur – með hlynsírópi og svoleiðis. Það er ekkert hlynsíróp í þessum en samt svolítil sæta úr tómatsósunni.

Ég átti bæði svína- og nautahakk frá því að ég gerði kjötfarsið í kálbögglana og notaði það en annars má nota hvaða hakk eða hakkblöndu sem manni sýnist. Og auðvitað er hægt að baka þetta bara í einu stóru formi – þá er þetta kjöthleifur/falskur héri. Þá er bökunartíminn bara eitthvað lengri.

Allavega, ég stillti ofninn á 200°C og svo tók ég skál og setti í hana um 225 g af nautahakki og svipað magn af svínahakki, tvö egg, einn lítinn rauðlauk, saxaðan smátt, 3 hvítlauksgeira, saxaða smátt, blöðin af nokkrum timjangreinum og slatta af saxaðri basilíku. Kryddaði með pipar og salti.

Svo bætti ég við 100 ml af tómatsósu, Heinz nánar til tekið.

Ég hrærði þetta allt saman og bætti svo við 200 ml af hafragrjónum og hrærði þeim saman við.

Svo tók ég múffuform úr málmi, klippti nokkra hringi úr bökunarpappír og þrýsti þeim niður í formin og lagði svo tvær beikonsneiðar í kross yfir hvert form. Það má líka sleppa beikoninu, mér skilst að það séu einhverjir sem kunna ekki að meta beikon. Skil ekki svoleiðis …

Svo fyllti ég formin með hakkblöndunni og hafði dálítinn kúf á þeim. Þetta dugði í níu múffur, tvær af þeim beikonlausar.

Að lokum setti ég dálítinn bita af sterkum osti á miðjuna á hverri múffu, þrýsti honum aðeins niður og braut svo endana á beikonsneiðunum inn yfir múffuna. Nema á beikonlausu múffunum, auðvitað … Setti þær svo á næstneðstu rim í ofninum og bakaði þær í 20 mínútur.

Svo tók ég múffurnar úr forminu og bar þær fram með kartöflustöppu og grænu salati.

Þær voru bara alveg hreint ágætar.

5 comments

 1. Girnilegt. En mig langar svo að forvitnast af hverju þú bakar oftast neðarlega í ofninum, þ.e á næstneðstu rim? Og notarðu blástur eða ekki?

  • Það fer nú bara eftir því hvað það er – formkökur og flestar tertur á neðstu rim, múffur yfirleitt á næstneðstu (en þær mættu oftast alveg eins vera í miðjum ofni), smákökur á eftstu eða næstefstu. Brauð á neðstu eða næstneðstu. Þetta er það sem mér finnst passa best miðað við hitadreifingu, allavega í mínum ofni. Hitinn er yfirleitt ívið hærri efst í ofninum en neðst og þess vegna hef ég þunnar, fljótbakaðar kökur þar en þykkari kökur neðar.

   Ef ég væri að baka múffurnar bara í pappírsformum mundi ég setja mun minna deig (eða hakk í þessu tilviki) í formin og þá mundi ég örugglega baka þær í miðjum ofni. En mínar múffur eru frekar þykkar og ég set þær því neðar. (En kannski er þetta bara vani og skiptir litlu þegar upp er staðið.) Og ef maður er með almennilegan blástursofn skiptir þetta sennilega engu því þar ætti hitadreifingin að vera jöfn alls staðar. En ég hef einhvernveginn aldrei getað vanið mig á að nota blástur.

   Það getur þurft að passa sig svolítið á amerískum kökuuppskriftum því þar eru gasofnar algengir og þá er hitinn yfirleitt hæstur neðst í ofninum svo að þar er manni kannski sagt að baka köku í miðjum ofni sem væri e.t.v. betra að baka neðst í rafmagnsofni.

 2. Sæl Nanna það er orðið svo langt síðan síðasta blogg

  kv. ein spennnt að fá að prófa fleiri uppskriftir frá þér

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s