Allt er vænt …

Ég átti nokkur kívíaldin sem ég var eitthvað að vandræðast með, hafði ætlað að nota þau í ís sem ég hætti svo við að gera og mig langaði ekkert að borða þau eintóm – en svo var ég líka að fara að baka eplaköku og langaði að hafa hana pínulítið öðruvísi en ég hef áður gert. Svo að ég ákvað að setja bara kíviin í deigið.

Fyrst var ég að hugsa um að skera þau í litla bita og blanda þeim saman við en þau voru frekar lin svo ég var ekki alveg viss um að það kæmi nógu vel út svo ég fór aðra leið; prófa hitt seinna þegar ég á stinnari kíví. Reyndar notaði ég söxuð kíví í einni múffuuppskriftinni í Múffur í hvert mál (með kókosmjöli og límónum) og það kemur sérlega vel út.

Deigið er dálítið grænleitt en kakan sjálf er ekkert græn. Og ég notaði að hluta til heilhveiti upp á hollustuna (ókei, það var af því að hveitið kláraðist).

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 180°C og flysjaði svo og skar niður þrjú kíví, meðalstór og vel þroskuð, og setti þau í matvinnsluvélina ásamt 3 eggjum og 150 g af sykri. Lét svo vélina ganga þar til kívíið var komið í mauk og blandan var ljósgræn og froðukennd.

Það þarf ekkert að nota matvinnsluvél ef kívíið er maukað í blandara eða jafnvel bara stappað með gaffli, ef það er mjög lint; þá má alveg eins nota hrærivél, þeytara eða bara písk.

Svo setti ég 125 ml af olíu, 200 g af hveiti, 100 g af heilhveiti (sjá þó hér á eftir), 2 tsk af lyftidufti og 1/4  tsk af salti út í og blandaði saman við (notaði púlshnappinn á matvinnsluvélinni, bara rétt til að blanda öllu saman, en annars má bara hræra þetta með sleikju eða sleif).

Ég gerði þetta í gær og gleymdi að skrifa hvað ég setti mikið heilhveiti. Ég er eiginlega viss um að það voru 100 g er en ef deigið verður þunnt má bæta aðeins við … Það var í þynnra lagi en eins og sjá má á myndunum á eftir, nægilega þykkt til að eplabitarnir sukku ekki á kaf.

Ég penslaði meðalstórt smelluform með olíu og klippti hring úr bökunarpappír og setti á botninn. Svo hellti ég deiginu yfir.

Síðan tók ég þrjú epli (ég notaði Pink Lady), flysjaði þau, skar í fjórðunga, kjarnhreinsaði og skar svo hvern fjórðung í tvo báta.

Svo raðaði ég eplabátunum ofan á deigið og stráði síðan 1-2 msk af sykri yfir. Sykrinum má alveg sleppa en kakan verður fallegri ef hann er notaður.

Ég bakaði kökuna á neðstu rim í um 40 mínútur, eða þar til hún var fallega brún og svampkennd. Lét hana kólna í forminu í nokkrar mínútur og losaði hana svo úr og lét kólna alveg á grind.

Þetta var alveg ágætis kaka, safarík, mjúk og bragðgóð. Frekar bragðmild kannski, ég fór að hugsa um að það hefði getað verið gott að hafa t.d. rifinn sítrónu- eða límónubörk í deiginu. Ég á alveg von á að prófa fleiri útgáfur seinna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s