Múffur fyrir okkur Heklu

Ég gaf út múffubók um daginn. Eða reyndar Forlagið gaf hana út en ég skrifaði hana jú og samdi uppskriftirnar og bakaði allar múffurnar og myndaði þær og dröslaði þeim svo í vinnuna þar sem þær voru allar borðaðar upp til agna, nema náttúrlega Snickers-múffurnar, sem Úlfi dóttursyni mínum tókst að klára áður en ég komst með þær vestur eftir. En ég bætti nú vinnufélögunum það upp seinna.

En allavega, það er þess vegna viðeigandi að ég skjóti hér inn einni og einni múffuuppskrift og áðan bakaði ég múffur handa mér og barnabarni númer eitt til að gæða okkur á eftir kvöldmatinn.

Þessi uppskrift er ekki úr bókinni, enda er ég handónýt í að fara eftir uppskriftum, líka mínum eigin – en hún er spunnin út frá uppskriftunum þar. Það er nefnilega þannig með múffubakstur að hann er frekar frjálslegur, ,,muffins are very forgiving“ eins og bandarísk kunningjakona mín sagði, það er hægt að breyta uppskriftunum endalaust og semja nýjar, bara ef maður er með ákveðnar grunnreglur og heldur hlutföllum nokkurn veginn – ég veit til dæmis sirka hvað þarf af súrri mjólkurafurð/eggjum/sætuefni/feiti/hveiti/lyftiefnum til að fá fram ákveðna niðurstöðu og svo er þetta bara spurning um bragðefni. Sem geta verið nánast hvað sem er.

Ég átti hindber í frysti og suðusúkkulaði í skápnum og þá var hitt bara pís of keik (sorrí, lélegt, veit það).

Ég hitaði ofninn í 190°C. Tók 150 g af hindberjum úr frysti (þau mega fara nærri alveg frosin í deigið) og grófbrytjaði 60 g af suðusúkkulaði. Svo setti ég 100 ml af matarolíu, 200 ml af AB-mjólk (má vera súrmjólk eða hrein jógúrt) og 2 egg í skál og blandaði saman.

Svo hrærði ég 100 ml af hlynsírópi (mætti líka vera annað síróp) saman við ásamt 1 tsk af vanilluessens.

Í annarri skál blandaði ég saman 300 g af hveiti, 2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af salti og setti svo hindberin og súkkulaðið út í og blandaði. Ef hindberjunum er velt upp úr hveitinu eru minni líkur á að þau sígi til botns í deiginu. – Svo hellti ég blautefnunum yfir og blandaði með sleikju, bara rétt nægilega til að hvergi sæjust hveitiblettir.

Það hefði sjálfsagt verið í góðu lagi að nota pappírsform til að klæða málmformin innan, samsetning deigsins er þannig að sennilega hefðu nú ekki hálfar múffurnar setið eftir fastar á pappírnum eins og stundum gerist, sérstaklega þegar deigið er mjög fitulítið. En ég ákvað samt að nota silíkonform, deigið passaði akkúrat í tólf barmafull form.

Ég bakaði múffurnar í um 18 mínútur á næstneðstu rim í ofninum.

Losaði þær úr formunum á meðan þær voru enn heitar – mér finnst oft betra að gera það þegar eru t.d. ber eða súkkulaði í múffunum (og hér var hvorttveggja), því slíkt vill stundum aðeins festast við silíkonið þegar það kólnar. Þótt það eigi að vera viðloðunarfrítt – og sé það, svona nokkurn veginn.

Þetta voru nú alveg ljómandi girnilegar múffur svosem.

Og þær voru reyndar alveg ljómandi góðar líka. Barnabarn númer eitt tók undir það og það er nú hreint ekki alltaf auðvelt að gera henni til hæfis.

 

 

 

 

 

 

 

 

One comment

  1. Endalaust af góðum uppskriftum hjá þér. Ég bakaði þessar múffur í kvöld og þær eru dásamlegar.
    kv. Ása

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s