Að hafa (ekki) hugann við það sem maður er að gera …

Ég ákvað að baka eplakaramelluhnetuköku á sunnudagsmorguninn. Svo fór ég nokkuð óvænt norður í Skagafjörð í hádeginu og kippti kökunni bara með og nú er ekkert eftir af henni (sorrí, vinnufélagar). Hún var bara nokkuð góð þótt ég segi sjálf frá.

Ein af grunnreglunum í bakstri er þessi: Athugaðu áður en þú hefst handa að allt sem á að nota sé til (eða allavega eitthvað sem hægt er að nota í staðinn fyrir það) og á vísum stað. Annars getur allt farið í klúður. Þetta er mjög góð regla sem ég predika oft en fer náttúrlega alls ekki alltaf eftir. Til dæmis í þetta skipti, og það hefði getað farið verr. En reddaðist þó.

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 165°C. Svo bjó ég til karamelluna sem ég ætlaði að nota: Setti 2 msk af ljósum hrásykri, 2 msk af smjöri, 2 msk af rjóma og 2 msk af ljósu sírópi í lítinn pott og hitaði að suðu.

Hrærði þar til sykurinn og smjörið var bráðið og lét svo sjóða áfram í nokkrar mínútur við meðalhita, hrærði oft á meðan.

 

Tók pottinn af hitanum þegar karamellan var fallega dökkgullinbrún og þykk og lét hana bíða í pottinum rétt á meðan ég hrærði saman deigið.

Svo vigtaði ég 200 g af linu smjöri og 200 g af demerara-sykri (ljósum hrásykri); það má alveg nota hvítan sykur en þessi kaka verður bragðbetri ef notaður er hrásykur. Eða það fullyrði ég en þar sem ég var að  semja uppskriftina jafnóðum hef ég ekki samanburð – en ég veit það bara …

Hrærði þetta vel saman og skóf niður hliðarnar á skálinni. Svo þeytti ég þremur eggjum saman við, einu í einu.

 

Svo vigtaði ég 275 g af hveiti, blandaði 2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af kanel og 1/4 tsk af salti saman við og hrærði svo 3 eplum, sem ég var búin að flysja, kjarnhreinsa og skera í bita, saman við hveitið, hellti því í deigskálina og hrærði lauslega saman, rétt til að blanda.

Eplin sem ég notaði eru Pink Lady en það má líka nota t.d. Jonagold (bara 2 ef þau eru stór).

Svo hellti ég svona helmingnum af karamellunni í skálina (afgangurinn er skilinn eftir í pottinum) og skaust svo að ná í valhnetukjarna í hnetuskúffunni í ísskápnum (já, ég er með sérstaka hnetuskúffu í ísskápnum).

Úbbs. Engar valhnetur.

Ég rótaði fram og aftur í hnetuskúffunni og fann pekanhnetur og pistasíuhnetur og furuhnetur og kasjúhnetur og makadamíuhnetur og heslihnetur og þurrkaðar apríkósur (já, þetta er hnetu- og ávaxtaskúffa strangt til tekið) og döðlur og gráfíkjur og trönuber … en engar valhnetu. Sem ég hafði þó verið viss um að væru þarna.

Svo að ég greip pekanhnetupokann og setti svona 40-50 grömm af pekanhnetum út í deigið – og þá áttaði ég mig á að ég hafði eytt svo löngum tíma í að róta í hnetuskúffunni að karamellan var byrjuð að storkna í snertingu við kalt deigið. Ég hafði ætlað að hræra henni lauslega saman við svo að hún myndaði tauma eða rendur í deiginu en það var ekki lengur hægt svo ég greip hana og sleit hana sundur í litla bita. Hrærði svo þeim og hnetunum saman við deigið. Það varð að duga …

Svo jafnaði ég deiginu í frekar stórt jólakökuform. Þetta er húðað form og í rauninni þarf hvorki að smyrja það né fóðra með bökunarpappír en mér þykir alltaf betra að hafa bökunarpappír á kökubotninum, ekki síst þegar ég er að baka köku með karamellu eða öðru sem getur brunnið við formið, svo að ég klippti smárenning og lagði á botninn áður en ég setti deigið í formið.

Svo setti ég kökuna á grind neðst í ofni og bakaði hana í um 50 mínútur, eða þar til prjónn sem ég stakk í hana kom hreinn út. Tók hana þá út og lét hana hálfkólna í forminu á grind.

Ég tók svo pottinn með því sem eftir var af karamellunni, bætti við smáskvettu af rjóma og hitaði karamelluna þar til hún var bráðin. Þá setti ég svona 20-25 g af grófmuldum pekanhnetum út í og dreifði blöndunni ofan á kökuna.

Án þess að taka hana úr forminu.  Úbbs númer tvö …

Þetta þýddi nefnilega að ég þurfti að láta kökuna kólna alveg í forminu því það var ekki hægt að hvolfa henni úr fyrr en karamellan var nokkur veginn storknuð.

Nújæja, það hafðist á endanum.

Og þetta var nú bara eiginlega alveg fantagóð kaka.

Þrátt fyrir smámistök bakarans, sem rak sig enn einu sinni á að það er betra að hafa hugann við það sem maður er að gera en lærir víst aldrei af reynslunni …

 

 

 

 

 

6 comments

  1. pekanhnetur eru náttúrulega miklu betri en valhnetur – eða það finnst mér 🙂

    • Já, það er langbest, eða jafnvel í frysti ef maður ætlar að geyma þær lengi. Hnetur og fræ innihalda yfirleitt töluverða fitu (olíu) og hún getur þránað við stofuhita. Versti staðurinn sem hægt er að geyma hnetur og fræ er í glerkrukku á hlýjum og björtum stað í eldhúsinu. Lokað ílát í ísskápnum getur aukið geymsluþolið til mikilla muna. Þetta á ekki síst við um pekan- og valhnetur en kasjúhnetur og möndlur þola geymslu ívið betur. Svo geymast allar hnetur mun betur heilar en í flögum eða hakkaðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s