Mig langaði í ís í dag. Ekki súkkulaðiís eða vanilluís eða einhvern feitan rjómaís – eins og þeir geta nú verið góðir – heldur einhvern frísklegan og kannski dálítið óvenjulegan ís. Eins og komið hefur fram á ég hálfan annan helling af basilíku svo að ég ákvað að gera basilíku-hunangs-skyrís. Ég hef gert basilíkuís áður og líka hunangs-skyrís, en mér datt allt í einu í hug að þetta gæti nú passað nokkuð vel saman.
Ef ég hefði verið að gera ís fyrir matarboð er vel líklegt að ég hefði gert tvær tegundir og haft hinn til dæmis fagurrauðan jarðarberjaís – hann hefði farið vel með basilíkunni – en þar sem ég var nú bara að gera þetta fyrir mig (og til að eiga í frystinum, því ekki borða ég nú allan skammtinn í einu þótt mér þyki ís góður), þá lét ég basilíkuísinn nægja.
Ég er búin að eiga ísvél í mörg ár og hef alltaf haldið því fram að hún sé sjálfsögð eign á hverju menningarheimili. Þetta er einföld vél með litlum geymi með kælivökva sem ég geymi alltaf í frysti á milli þess sem ég nota vélina. Mig langar alltaf í stóra ísvél með frystielementi en hef aldrei tímt að kaupa hana – og þessi sem ég á dugir mér svosem alveg ágætlega. Það er hægt að gera þennan ís án ísvélar með því að hræra í honum öðru hverju á meðan hann er að frjósa til að koma í veg fyrir að ísnálar myndist en þar sem hann er fremur fitulítill er hætt við að hann verði svolítið grófur ef ekki er notuð vél.
Ég notaði 200 g af hreinu KEA-skyri, 1 egg, 100 ml af akasíuhunangi, 1/2 sítrónu, 1/2 límónu (bara börkinn af báðum), vænt knippi af basilíku (þetta er blanda af þremur tegundum; líklega álíka mikið og er í 1 bakka af basilíku úr búð). Og 125 ml af rjóma, sem ekki er á myndinni.
Ég setti basilíkuna í matvinnsluvélina og fínreif börk af 1/2 sítrónu og 1/2 límónu yfir. Lét svo vélina ganga þar til basilíkan var fínsöxuð.
Ég setti svo skyrið í skálina, braut eggið út í, hellti hunanginu yfir og þeytti allt vel saman.
Svo stífþeytti ég rjómann í skál, hellti basilíkuskyrblöndunni yfir og blandaði lauslega saman – þetta blandast hvort eð er saman í ísvélinni – en ef ekki er notuð ísvél þarf auðvitað að hræra þetta nokkuð vel saman.
Ég lét vélina ganga þar til ísblandan var orðin þykk – held að það hafi ekki tekið nema svona 20 mínútur.
Ég setti svo ísblönduna í box og stakk því í frysti í svona klukkutíma (eða lengur).
Ég setti ískúlu í skál og skreytti með basilíku.
Þetta var, fannst mér, alveg einstaklega góður ís – einn sá besti sem ég hef búið til. Dálítið sérstakur, frísklegur og góður. Einmitt það sem mig hafði langað í …
Virkar einstaklega hentugur fyrir þá sem ekki þola feitar mjólkurvörur, auk þess sem þetat er mjög spennandi 🙂
[…] átti afgang af basilíku-hunangs-skyrísnum sem ég bjó til á dögunum og langaði í einhvern annan og ólíkan ís með honum. Samt […]
Á laugardagskvöldið bauð ég upp á svona basilíkuskyrís sem vakti gríðarlega lukku. Reyndar þótti mér hugmyndin um jarðarberjaísinn svo góð að ég útbjó jafnframt svoleiðis. Notaði upphaflega slatta af ferskum jarðarberjum og svolítið hunang, en bragðbætti svo með jarðarberjasultu og hlynsírópi. Hann var sömuleiðis harla góður – þótt ég segi sjálfur frá.
Takk fyrir mig!
Frábært. Já, ég var mjög ánægð með þennan basilíkuís og trúi vel að jarðarberjaísinn hafi smellpassað – rétt eins og hindberjaísinn sem ég gerði.
[…] búðingnum hafði ég svo smávegis af basilíkuís og hindberjaís, sem ég átti til síðan um daginn, og setti eina makrónu á hvern disk – […]
[…] ís, hárauðan og ljósgrænan. Eða ís og sorbet, öllu heldur. Ég hafði áður búið til basilíkuís sem gerði töluverða lukku og ákvað að vinna út frá honum en breytti uppskriftinni þó […]